Aðgerðir gegn börnum í Río de Janeiro

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 12:18:00 (5045)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Hér er vissulega um óhugnanlegt mál að ræða. Umhvrn. hefur með aðstoð utanrrn. leitað upplýsinga um málið, m.a. hjá framkvæmdastjórn umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York og hjá Mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna. Enn fremur var leitað til sendiráðs Íslands í Washington sem aflaði upplýsinga hjá norska sendiráðinu í Río de Janeiro en Ísland hefur þar ekki sendiráð eins og kunnugt er.
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja er ekkert sem bendir til að á umræddu tímabili, þ.e.

núna í febrúar og mars, hafi verið gripið til sérstakra aðgerða af þessu tagi gegn götubörnum í Ríó. Nú er það svo að þessi borg er mjög í sviðsljósinu núna og kunna þessar fréttir því að hafa komist á framfæri og í fjölmiðla þess vegna. Hitt er vitað að um alllangt skeið hafa verið uppi grunsemdir um skipulögð morð á börnum í Brasilíu.
    Það hefur reynst fremur erfitt að afla áreiðanlegra upplýsinga um ástand mála en fulltrúadeild brasilíska þingsins setti sérstaka rannsóknarnefnd á laggirnar árið 1991 sem átti að kanna þessar ásakanir og fyrirspyrjandi vék raunar að því. Þessi nefnd skilaði skýrslu 26. febr. og sú skýrsla staðfestir því miður verstu grunsemdir manna um ástandið í þeim efnum. Þar kemur fram að barnamorð af þessu tagi í Brasilíu hafa átt sér stað allar götur síðan 1975 a.m.k. og megi í upphafi rekja til stofnunar svonefndra dauðasveita herforingjastjórnarinnar. Þessi rannsóknarnefnd yfirheyrði 115 aðila og niðurstaða hennar er sú að þessi morð séu ekki nýtt fyrirbæri í Brasilíu né heldur séu þau bundin við þessa borg, Río de Janeiro, heldur eigi þau sér meira og minna stað því miður í öllu landinu. Flest börn eru talin myrt í Ríó eða að meðaltali rúmlega fjögur á hverjum degi. Einnig er þetta algengt, í minna mæli þó, í borgunum Sao Paulo, Pernabuco og Bahia. Rannsóknarnefndin hefur einnig staðfest þátttöku lögreglu og einkarekinna öryggisfyrirtækja í morðum og misþyrmingum. Fullvíst er talið að aðilar í viðskiptalífi landsins fjármagni þessa óskiljanlegu glæpastarfsemi.
    Rannsóknarnefndin krefst þess í skýrslunni að 103 nafngreindir einstaklingar og samtök verði ákærð fyrir útrýmingu á munaðarlausum börnum. Í skýrslunni er geinnig greint frá lögreglustöðvum þar sem pyndingar á börnum hafi farið fram og að í þremur verslunarmiðstöðvum í Bahia-fylki séu sérstök pyndingaherbergi. Nefndin mun hafa lagt ýmsar tillögur fyrir þingið til að freista þess að bæta hér úr og vernda þessi börn. M.a. er lagt til að þeir herforingjar sem hafa átt aðild að þessum morðum verði dregnir fyrir borgaralega dómstóla, ekki herdómstóla. Lagt er til að reglum um öryggisfyrirtæki og vopnaburð verði breytt og sérstakir barna- og unglingadómstólar verði settir á laggirnar. Jafnframt verði gefin út ákæra á hendur öllum þeim aðilum sem neituðu að koma fyrir rannsóknarnefnd þingsins.
    Samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdastjórn umhverfisráðstefnunnar sem haldin verður í Brasilíu í byrjun júni hafa engin tilmæli borist frá ríkjum Sameinuðu þjóðanna um að hætta við ráðstefnuna vegna þessara mála og ekkert ríki hefur lýst því yfir að það muni hætta við þátttöku. Framkvæmdastjórnin mun þegar hafa ákveðið að Maurice Strong, framkvæmdastjóri umhverfisráðstefnunnar, leggi fram sérstaka áætlun um fjárhagsstuðning frá öllum sendinefndum á ráðstefnunni til hjálpar heimilislausum börnum.
    Hvað varðar viðhorf Íslendinga til þátttöku í ráðstefnunni með hliðsjón af þessum upplýsingum um ástand mála er það mitt mat að ekki sé rétt að hætta við þátttöku Íslands í ráðstefnunni af þessum sökum. Ráðstefnan verður fjölsóttasti fundur sem Sameinuðu þjóðirnar hafa efnt til frá upphafi vega um umhverfismál. Þar verða til umfjöllunar og afgreiðslu mál sem varða framtíð alls mannkyns og skipta Ísland miklu í bráð og lengd svo sem að því er varðar mengun hafsins, nýtingu auðlinda sjávar og fleira. Ég tel á hinn bóginn rétt og ótvírætt að þjóðarleiðtogar og fulltrúar þeirra ríkja sem sækja þessa ráðstefnu noti tækifærið til að ræða þessi mál og þrýsta á stjórnvöld í Brasilíu að taka á þessum vanda og uppræta þá hörmulegu glæpastarfsemi sem barnamorðin í Brasilíu vissulega eru.