Orkusáttmáli Evrópu

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 12:34:00 (5051)

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. á þskj. 628 beini ég fsp. til hæstv. iðnrh. um framhaldsvinnu við orkusáttmála Evrópu. Fsp. er svohljóðandi:
  ,,1. Hver er þátttaka Íslands í framhaldsvinnu á grundvelli draga að svonefndum orkusáttmála Evrópu sem ráðherra undirritaði viljayfirlýsingu um 17. des. 1991?
    2. Í hverju er þessi vinna fólgin, hverjir eiga þar hlut að máli fyrir Íslands hönd og að hvaða áföngum er stefnt á þessu ári?
    3. Hver eru helstu álitaefni sem uppi eru að mati ráðherra í þeirri vinnu sem fram undan er?
    4. Að hve miklu leyti verður um lagalega bindandi ákvarðanir að ræða samkvæmt fyrirliggjandi hugmyndum og hvers eðlis eru þeir lagalega bindandi efnisþættir?``
    Tilefni þessarar fsp. eru augljós. Hér fóru fram umræður á Alþingi 16. des. 1991 um undirritun þessa almenna sáttmála og samkvæmt þeirri vinnu sem kortlögð hafði verið var gert ráð fyrir að vinna síðan frekari málsskjöl á grundvelli þessarar yfirlýsingar, þar á meðal grundvallaryfirlýsingu eða ,,basic protocol``. Ég hef upplýsingar um að þessi vinna sé hafin og það er ekki seinna vænna að óska upplýsinga frá framkvæmdarvaldinu um hvert stefni í þessum málum. Umræðan á Alþingi 16. des. sl. fór fram að hæstv. iðnrh. fjarstöddum sem þá var á vettvangi að undirbúa eða taka þátt í undirritun sáttmálans. Gefnar voru hér fyrir hönd ríkisstjórnarinnar yfirlýsingar varðandi eðli þessa atburðar, undirritunar hæstv. ráðherra, og fyrirvara sem þar yrðu gerðir. Málshefjandi í þessum umræðum, hv. þm. Steingrímur Hermannsson, sagði að hann teldi að skýrt yrði tekið fram hvernig staðan er hér og hvernig við virkjum okkar fallvötn. Síðan þyrfti að taka fram að íslenska ríkisstjórnin muni túlka forræði yfir orkulindum þannig að Íslendingum verði heimilt að halda þeim einkarétti opinberra aðila til virkjana orkulinda landsins sem við í raun búum við í dag. Þetta er eitt atriði af mörgum sem hv. þm. benti á og tekið var undir af öðrum þingmönnum og af hæstv. forsrh. sem gerði í rauninni ýmsar þær áhyggjur, sem þingmenn lýstu, að sínum í sambandi við vinnu málsins, alveg sérstaklega framhaldsvinnu málsins sem hefði lagalega skuldbindandi áhrif. Ég leyfi mér því að bera fram við hæstv. iðnrh. spurningar um hvernig staðið sé að þessari framhaldsvinnu af Íslands hálfu og tel að hér sé mjög stórt mál á ferðinni sem við þurfum að fylgjast mjög vel með á Alþingi Íslendinga. Hér er um grundvallarmál að ræða sem snertir yfirráð okkar yfir náttúruauðlindum og stöðu okkar í samskiptum á mjög þýðingarmiklu sviði.