Jöfnun á húshitunarkostnaði

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 12:57:00 (5058)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir að koma með þetta mál hingað inn í þingið. Það er rætt með sæmilega jöfnu millibili þannig að ekki vantar að við erum að minna á þetta hér á Alþingi. En það eru satt að segja kyndug viðbrögð sem koma fram hjá hæstv. iðnrh. og hv. þm. af Vestfjörðum líka því að auðvitað er þetta málefni framkvæmdarvaldsins. Ráðherrann kvartar undan því að Alþingi hafi ekki samþykkt tillögu sl. vor eða í fyrravetur um þessi mál, áskorun á hann sjálfan og framkvæmdarvaldið sjálft. Og af hverju var þessi tillaga ekki flutt aftur að hausti ef þurfti að fá samþykkt Alþingis. Gagnrýnin á tillöguna var sú að hún gekk allt of skammt og tók ekki á vandamálinu. Og hvernig er með stjórn Landsvirkjunar? Hverjir ráða þar ferðinni? Hvaða flokkur á þar flesta stjórnarmenn? Og er ekki meiri hluti í stjórn Landsvirkjunar fulltrúar sem eru á ábyrgð Sjálfstfl. og Alþfl.? Ég veit ekki betur. Menn eru að tala hér við sjálfa sig og víta allt annað en þar sem lykilinn að lausn er að finna.