Norræna ráðherranefndin 1991--1992

117. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 15:45:00 (5076)


     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa skýrslu um störf Vestnorræna þingmannaráðsins, sem kom á dagskrá fyrir viku síðan, þótt ég hafi ekki átt þess kost að vera við byrjun umræðunnar.
    Það kemur fram í skýrslu og tillögum, sem Vestnorræna þingmannaráðið hefur lagt fram til ályktunar, þótt þær hafi ekki enn verið formlega fram bornar, að þetta samstarf er enn í mótun og á í raun í vök að verjast. Það hefur verið venja hin síðari ár að leggja þær samþykktir sem gerðar eru á ársfundi ráðsins fram til samþykktar á þingum landanna eins og kom fram hjá hv. þm. Steingrími Sigfússyni.
    Þó að þessar ályktanir hafi hlotið formlegt samþykki hér á Alþingi á undanförnum árum hefur skort nokkuð á að þeim sé fylgt eftir af ríkisstjórn. Því er það að þær tillögur, sem í sumar voru fram lagðar, eru fyrst og fremst til þess ætlaðar að styrkja þær stoðir sem standa undir vestnorrænu samstarfi. Markmiðið er að samstarf þessara þriggja landa, sem kalla sig Vestur-Norðurlönd, eflist og að vestnorræna nefndin skipi fastan sess í norrænu samstarfi. Liður í því er að þeim ráðherrum sem fara með norræn samstarfsmál sé einnig falin meðferð vestnorrænna samstarfsmála og framkvæmd ályktana Vestnorræna þingmannaráðsins.
    Það fer ekkert á milli mála og hefur oft komið fram að norrænt samstarf er þessi árin, og kannski sérstaklega síðustu mánuði, í endurskoðun. Það hefur komið glögglega í ljós bæði á Norðurlandaráðsþingi á síðasta ári og einnig nú í ár. Þær öru breytingar sem nú eiga sér stað í alþjóðamálum kalla á það að við endurmetum stöðu okkar í norrænu samstarfi. Enginn vafi er þó á því að það samstarf heldur áfram þótt í breyttu formi verði. Það er því mikil þörf á því að við, þessar vestnorrænu þjóðir, stöndum vel saman enda eigum við mikilla sameiginlegra hagsmuna að gæta þar sem lífsafkoma okkar allra er svo mjög háð því sem við sækjum í hafinu sem umlykur löndin.
    Fyrir tveimur árum var gerð sú samþykkt á ársfundi Vestnorræna þingmannaráðsins að árið 1992 skyldi tileinkað þessu samstarfi sérstaklega. Það átti að verða vestnorrænt ár þar sem vakin væri athygli á málefnum þessara smáþjóða. Síðan hefur verið unnið að þessum undirbúningi og kannski er óþarfi að endurtaka það hér en það eru þessar þrjár ráðstefnur sem talað hefur verið um og auglýstar eru í þeim bæklingi sem hér er kominn út um vestnorrænt samstarf. Ég geri ráð fyrir að þingmenn hafi fengið hann. Þar kemur það fram að hér verður kvennaþing haldið á Egilsstöðum sem sérstaklega verður tileinkað jafnréttismálum og vinnumarkaði. Í Færeyjum verða æskulýðsmál á dagskrá og á Grænlandi eru það umhverfismálin. Þessar ráðstefnur verða allar í sumar og dagsetning fyrir íslensku ráðstefnuna er ákveðin 20.--23. ágúst á Egilsstöðum og þar er gert ráð fyrir 300 þátttakendum. Nefnd, sem skipuð var fulltrúum frá ASÍ, BSRB, Kvenréttindafélaginu, Kvenfélagasambandi Íslands og Jafnréttisráði hefur starfað að undirbúningi ráðstefnunnar og

framkvæmdastjóri ráðstefnunnar hefur aðsetur hjá Jafnréttisráði. Undirbúningur að ráðstefnunum í Færeyjum og á Grænlandi mun einnig kominn vel af stað.
    Sá kynningarbæklingur sem ég nefndi áðan um vestnorrænt samstarf hefur verið dreift í ýmsar stofnanir og skóla í landinu. Einnig mun standa til að þýða bæklinginn yfir á dönsku. Grænlendingum hefur verið boðið upp á það og það mun fyrirhugað svo hægt sé að dreifa honum jafnframt í hinum löndunum tveim.
    Ég ætla ekki að fara nánar út í þær tillögur sem verða hér lagðar fram, það verður tími til þess síðar ef þörf gerist. Ég vænti þess að þær verði samþykktar og trúlega verður ekki mikil umræða um þær. Ég býst við að samstaða sé um málið í þinginu. Ég vil þó leggja áherslu á það að við fylgjum eftir þeirri samþykkt um að helga þetta ár vestnorrænu samstarfi með því m.a. að bæta svo sem frekast er unnt samgöngur við þessa granna okkar. Það vantar mikið á að þær séu nægilega góðar og þar á ég sérstaklega við flugmálin. Þar er þó ekki við okkur eina að sakast en loftferðasamningurinn er orðinn gamall og staða okkar þar ekki eins og best verður á kosið. Við verðum því áfram að vinna að úrbótum í þeim málum en allnokkuð hefur verið fjallað um flugmál á fundum ráðsins í vetur.
    Í þeim ályktunum sem hér eru til umfjöllunar er einnig ályktun um að sá samningur sem samgönguráðherrar Vestur-Norðurlanda gerðu með sér um samstarf í samgöngumálum skuli koma strax til framkvæmda. Og á fylgiskjali II er yfirlýsing ráðsins um nauðsyn þess að koma á beinum viðræðum milli landanna um lausn á vandamálum tengdum fiskveiðum og aðgangi að mörkuðum Evrópubandalagsins.
    Í öllum þessum þrem löndum eru fiskveiðar undirstöðuatvinnuvegur og efnahagur landanna mjög undir þeim kominn. Mælst er til þess að ráðstefna verði haldin með þátttöku stjórnmálamanna og annarra aðila sem þekkingu hafi á þessum málum. Þar verði gerð grein fyrir þeim áhrifum sem innri markaðurinn muni hafa fyrir Vestur-Norðurlönd með sérstöku tilliti til sjávarútvegs. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon upplýsti reyndar í ræðustól rétt áðan að fyrirhugað væri að halda ráðstefnu með sjávarútvegsráðherrum þessara landa alveg á næstunni og ég fagna því. Mér fannst nefnilega koma fram á fundinum síðasta sumar viss ótti, sérstaklega meðal Grænlendinga, vegna samningaviðræðna EFTA og EB. Þeir óttast mjög um afkomu sína og fellur ekki sú tilhugsun að Íslendingar séu aðilar að þessum viðræðum ásamt öðrum EFTA-þjóðum. Þeir hafa mikinn áhuga á því að ræða frekar um nýtingu sjávarspendýra, selastofns og hvalastofns. Vestnorræna þingmannaráðið hefur beint því til sinna landa að unnið verði að sameiginlegum aðgerðum til að takmarka selastofninn, eins og segir í einni ályktun sem samþykkt var 1990 á ársfundi. Eða eins og segir þar, með leyfi forseta: ,,Svo að aftur náist vistfræðilegt jafnvægi í sjónum.``
    Mjög miklar deilur eru í þjóðfélaginu, eins og við vitum, um það hvort nýta beri selastofna og hvalastofna sem áratugum saman hafa verið nýttir, sérstaklega við Grænland og Færeyjar. Þessar þjóðir halda því fram að við séum komin út á nokkuð erfiðar brautir í því hvernig hefur verið farið með þessi mál á undanförnum árum. Heimsmyndin hefur breytt þeim hlutum mjög. Það er álit manna úti um víða veröld að ekki eigi að veiða hvali og þegar menn finna upp á því að senda sel með flugvélum á milli landa til þess að vernda líf eins dýrs þá finnst manni að málið sé komið nokkuð út í öfgar. En það er mjög mikið hagsmunamál, bæði fyrir Grænlendinga og Færeyinga, að fundin sé lausn á því hvernig megi nýta selastofnana og hvalastofnana á skynsamlegan hátt. Það verður ekki leyst með einhliða friðun. Færeyingar og Grænlendingar eru mjög áhugasamir um að Íslendingar og þessar vestnorrænu þjóðir ræði þessi mál og reyni að finna lausn á því, alla vega einhverjar sameiginlegar tillögur um það og efli sem sagt samstarf sitt í þeim málum ekki síður en öðrum.
    Mín skoðun er sú að við eigum að styrkja þetta samstarf við nágranna okkar því að sameiginlegir hagsmunir þessara landa eru miklir þar sem eru auðlindir Norður-Atlantshafsins. Og við verðum að gera allt sem hægt er til að vernda þetta lífríki í hafinu með skynsamleg nýtingarsjónarmið í huga. Við búum við sífellt minnkandi aflakvóta og höfum þar af leiðandi orðið að beita niðurskurði á aflaheimildir til Færeyinga. Það er ekki

óeðlilegt miðað við áætlaða fiskstofna að við verðum að minnka aflakvóta til annarra þjóða, jafnvel þó að það séu frændur okkar, Færeyingar sem fyrir því verða. Það höfum við orðið að gera hjá okkur sjálfum líka. Mestu skiptir þó að það sé gert með samráði og að skilningur ríki á nauðsyn þessara aðgerða. Vonandi er það aðeins tímabundið og betri horfur verði á næsta fiskveiðiári. Ég trúi því að Færeyingar muni skilja þessa stöðu okkar og það muni ekki verða til þess að brestir komi í samstarf þessara vinaþjóða.
    Samstarf á sviði menningar- og menntamála, félagsmála og samgöngumála er ekki síður mikilvægt. Þar er óplægður akur, aðeins hefur verið unnið í litlu horni þess akurs. Og vegna þess hve skammt það er á veg komið sýnist mér að þar sé fyrirstaða helst í samgöngumálunum. Eins og ég sagði hérna fyrr í ræðu minni höfum við í Vestnorræna þingmannaráðinu verið að skoða þau mál í vetur ef finna mætti leiðir þar til úrbóta.
    Virðulegi forseti. Ég veit að spennandi atburðir eru að gerast í austri og Eystrasaltslöndin voru okkur hugleikin á síðasta ári og eru enn. Þar sýndi það sig að þó að við séum smáþjóð þá höfum við áhrif á alþjóðavettvangi. Við megum þó ekki gleyma vinum okkar á Grænlandi og í Færeyjum. Við, sem stærsta þjóðin af þessum þremur, höfum skyldum að gegna í því samstarfi sem við höfum möguleika á að auka innan Vestnorræna þingmannaráðsins.