Norræna ráðherranefndin 1991--1992

117. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 16:03:00 (5078)


     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þær umræður sem hafa orðið um skýrslu þá sem að mér snýr og er undir þessum dagskrárlið. Jafnframt vil ég víkja nokkrum orðum að því sem komið hefur fram í umræðunni og svara þeim fyrirspurnum sem hefur verið beint til mín.
    Auðvitað er eðlilegt að umræðan hafi að nokkru leyti snúist um Evrópusamstarfið og stöðu Norðurlandanna gagnvart því svo mjög sem það er nú rætt. Tímamót eru í norrænni samvinnu. Hún hefur breyst mikið á 40 árum og mun breytast í framtíðinni en við eigum auðvitað að kappkosta að hafa heillavænleg áhrif á þær breytingar. Hins vegar er alveg ógjörlegt að horfa á norræna samvinnu sem einangrað fyrirbrigði og hugsa til þess að hún þróist og eflist án tillits til þess sem gerist í heiminum í kringum okkur. Þeirra sjónarmiða þótti mér því miður gæta hjá nokkrum sem hafa tekið þátt í umræðunni, til að mynda hjá hv. 15. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Austurl. Ef við viljum styrkja og efla þessa samvinnu, sem ég hygg að við séum bærilega sammála um, gerist það ekki öðruvísi en að teknu tilliti til breytinga í veröldinni umhverfis okkur.
    Í umræðunni hefur líka verið sagt að Evrópusamvinnan, væntanlega innganga Norðurlandaríkjanna með ýmsum hætti og aðild að Evrópusamvinnunni, væri liður í þeirri þróun að þjóðríkin legðust af. Ég er algjörlega ósammála þeirri skoðun vegna þess að ég sé þá Evrópusamvinnu sem nú er að þróast, ekki sem deiglu þar sem allt blandast saman heldur miklu frekar sem litríka mósaikmynd þar sem þjóðirnar kappkosta að halda sérkennum sínum, sérkennum menningar sinnar og tungu og varðveita þetta, eins og við höfum lagt áherslu á í norrænni samvinnu. Þvert á móti. Þar sem gerð hefur verið tilraun til að leggja þjóðríkin af eins og í víða Austurvegi hefur hún gjörsamlega misheppnast. Þjóðirnar sem reynt hefur verið að óla saman í eitt ríki innan nýrra gervilandamæra sprengja af sér þær ólar. Það sjáum við nú því miður gerast með margvíslegum og í mörgum tilvikum mjög hörmulegum afleiðingum ógna og átaka. Ég er því í grundvallaratriðum ósammála þessari skilgreiningu en um það má auðvitað lengi deila. Mér er það vissulega ljóst.
    Fróðlegt hefur verið að hlusta á umræðurnar. Raunar hafði ég heyrt hluta af ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar í gær en hann taldi nauðsynlegt að endurtaka ýmislegt af því sem hann sagði þá. Má vera að það hafi verið rétt mat hjá honum, ég ætla ekki að fjölyrða um það. En það hefur auðvitað skýrst í umræðunni að innan flokkanna er ekki bara áherslumunur heldur skoðanamunur um ýmsa þætti málsins. Það hefur komið mjög

skýrt í ljós að þingmenn Kvennalistans eru t.d. ekki sammála um afstöðu í þessum málum. Það er auðvitað eðlilegt. Ég hygg að það sama sé upp á teningnum í Alþb. Ég held t.d. að skoðanaágreiningur sé milli hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar og formanns Alþb. um ýmis atriði er Evrópumálin varða. Hins vegar sé ég ekki að skoðanamunur sé milli sjónarmiða hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar og hv. þm. Kristínar Einarsdóttur í þeim efnum þannig að þetta skarast nú á ýmsa vegu.
    Hér hefur verið vikið sérstaklega að samstarfi Íslands, Færeyja og Grænlands, útnorðursamstarfinu, sem svo er stundum nefnt. Ég gerði raunar nokkra grein fyrir því í framsöguræðu fyrir skýrslunni sl. fimmtudag og ætla ekki að endurtaka mikið af því nú. En vegna fjarvista sumra sem tóku þátt í umræðunni í dag en voru ekki viðstaddir þá er nauðsynlegt að víkja að örfáum atriðum og eins vegna þeirra spurninga sem hv. 3. þm. Reykv. beindi til mín.
    Ég get tekið undir afar margt af því sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan um þetta samstarf. Af því að það hefur verið nefnt sérstaklega, nefni ég loftferðasamning milli Íslands og Danmerkur sem Færeyingar og Grænlendingar eru háðir. Ég veit ekki betur en hæstv. samgrh. hafi þegar óskað eftir því við Dani að þessi samningur verði tekinn til endurskoðunar og ég tel það brýnt og gott. Og það er rétt að á sviði ferðamála liggja áreiðanlega margir ónotaðir samvinnumöguleikar milli okkar og Grænlendinga. Ég er sammála hv. þm. um það.
    Hv. 3. þm. Reykv., Björn Bjarnason, situr á forsetastóli og beindi til mín ákveðnum spurningum um framtíð útnorðursamstarfsins og varaði við því að skipta þessu samstarfi upp. Fleiri þingmenn, þeirra á meðal hv. 1. þm. Austurl. Halldór Ásgrímsson sem er gjörkunnugur þessu samstarfi bæði frá hlið þingmanna og einnig sem samstarfsráðherra, hafa einnig orðað slíkar efasemdir. Auðvitað eru nokkur rök fyrir því að með því að formfesta þetta samstarf með þessum hætti sé viss hætta á að um einhvers konar einangrun verði að ræða og get ég að mörgu leyti tekið undir þau rök. Hins vegar held ég að brýnt sé að auka samstarfið og hugsanlega verði það best gert með óformlegri hætti. Raunar nefndi ég það í framsögu minni að það samráð er að nokkru leyti fyrir hendi. Þetta þurfum við að ræða betur og komast að niðurstöðu um. Ég skil alveg þær efasemdir sem menn hafa sett fram um þessa hættu. Það eru viss rök fyrir þeim. Hins vegar þurfum við líka að huga að því hvernig við getum eflt samstarfið án þess að til slíkrar einangrunar komi.
    Hitt atriðið sem hv. þm. Björn Bjarnason nefndi var sú tillaga sem er að finna á bls. 21 í skýrslunni, um að stjórnir Norræna hússins í Reykjavík, Norðurlandahússins í Þórshöfn og Norrænu menningarmiðstöðvarinnar í Nuuk verði sameinaðar í eina. Það sem vakti fyrir tillögumönnum var að ég held að leita fyrst og fremst sparnaðar í rekstrinum. Ég er ekki sammála þeirri skoðun hans að ekki yrði til heilla að setja þessum húsum eina stjórn. Ég held hins vegar að stjórnendur húsanna, forstjórar eða hverju nafni þeir eru nefndir, hafi mjög frjálsar hendur um skipulag starfseminnar sem hefur tekist vel. T.d. hefur Norræna húsið í Vatnsmýrinni tekist einstaklega vel og þar er lifandi starf.
    Þeir voru til, ég man þá umræðu vel, sem ekki spáðu mjög vel fyrir því þegar Norræna húsið var reist. En reyndin hefur orðið önnur. Þetta er lifandi menningarmiðstöð og mikilvægur hlekkur í tengslum okkar og samskiptum við önnur Norðurlönd. Mér finnst sú hugmynd að sameina húsin undir eina stjórn vel athugunar virði. Ég held að það mundi ekki hafa áhrif á reksturinn sem slíkan heldur leiða til sparnaðar vegna þess að hverju húsi er núna skipuð stjórn, ég fullyrði ekki hversu oft þær halda fundi en hitt veit ég að kostnaður --- ekki vegna þess að stjórnarmenn séu svo hátt launaðir --- heldur ferðakostnaður og dvalarkostnaður í kringum stjórnarfundina hlýtur að vera verulegur. Þess vegna finnst mér rétt að hugmyndin verði athuguð og sé ég ýmislegt henni til ágætis.
    Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta til viðbótar, virðulegi forseti, en kemst þó eiginlega ekki hjá því að víkja svolítið að ræðu þeirri sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson flutti áðan. Hann fann að því að fulltrúi Alþfl. í Norðurlandaráði, hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, væri ekki við umræðuna ( HG: Nei, ég benti á það.) Benti á það, já. Það var að mínu mati gert með nokkrum aðfinnslutón. Í þessu sambandi vil ég nefna að hún

var viðstödd umræðuna sl. fimmtudag en það var hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hins vegar ekki. Ef mér skjöplast ekki var hann á pólitísku fundaferðalagi um kjördæmi sitt. Þetta nefni ég nú bara án þess að ég sé að gera nokkuð meira mál um það.
    Hv. þm. ræddi töluvert um sjónarmið vinstri sósíalista í Norðurlandaráði. Hann er auðvitað talsmaður þeirra að einhverjum hluta en þeir vöktu athygli á sér og sínum málstað með mjög sérkennilegum hætti á þingi Norðurlandaráðs, eins og allir vita sem þingið sóttu. Þeir eru þar minnihlutahópur, njóta að vísu stuðnings fulltrúa Kvennalistans í ýmsum málum eins og komið hefur fram, en tala gjarnan eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gerði raunar hér eins og fyrir sjónarmiðum meiri hlutans. Svo er nú ekki og það er nú raunar ekki ný bóla. Við höfum oft við heyrt það áður.
    Ég saknaði eins í ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar. Hann kom í þennan ræðustól og talaði eins og engin umræða hefði áður átt sér stað um málið, en það var rætt mjög ítarlega sl. fimmtudag. Ég saknaði þess að hann skyldi ekki svara hv. þm. Páli Péturssyni, fyrrv. forseta Norðurlandaráðs, sem vék sérstaklega að hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni í ræðu sinni, nefndi þar og ræddi ítarlega, sem hefði kannski verið ástæða til að ræða sérstaklega nú, þá breytingu sem hefur verið að gerast í Norðurlandaráði, þ.e. að flokkahóparnir hafa fengið aukið vægi og landsdeildirnar kannski misst vægi. Hv. þm. Páll Pétursson, sem er ekki viðstaddur umræðuna, því miður, annars hefði hann sjálfsagt tekið málið upp að nýju við hv. þm. Hjörleif Guttormsson, vék að því að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hafi brugðist íslensku sendinefndinni, hafi beitt yfirþjóðlegu valdi, ég held ég muni orð hans alveg hárrétt, og leitað á náðir þess flokkahóps sem hann tilheyrir, þ.e. vinstri sósíalistanna. Ég held ég muni líka orð hv. þm. Páls Péturssonar ,,til að ýta`` þeim fulltrúa sem Íslendingar áttu, hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur, út úr stjórn Norræna menningarsjóðsins. Þannig að hið yfirþjóðlega vald, eins og var í þessu tilviki, þar var því beitt, kann nú stundum ekki að vera alfarið af hinu vonda, að mati hv. þm., a.m.k. ekki þegar hann beitir því með þeim hætti sem hv. þm. Páll Pétursson rakti hér í þessum ræðustóli.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að hafa þetta mikið lengra. Ég er ósammála hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni í öllum grundvallaratriðum í afstöðu hans til þróunar hins norræna samstarfs og ég hygg að það væri nokkuð sama hve lengi við ræddum þau mál við yrðum ekki sammála vegna þess að um grundvallarágreining er að ræða. Segja má að þar sé kannski um mjög ólíkar lífsskoðanir að ræða að einhverju leyti. En ég virði hann fyrir það að hann er sínum skoðunum trúr og ástundar heiðarlegan málflutning á sína vísu, þó ég sé algjörlega ósammála næstum því öllu sem hann hafði til málanna að leggja um þetta mál eins og um Evrópumálin og utanríkismál yfirleitt. En ég ítreka þakkir fyrir þessa umræðu sem hefur verið góð og gagnleg á margan hátt.