Norræna ráðherranefndin 1991--1992

117. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 16:24:00 (5080)


     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Aðeins örfá orð varðandi orðaskipti hæstv. samstarfsráðherra og hv. 3. þm. Reykv. og hæstv. núv. forseta varðandi skipan mála í hinu vestnorræna samstarfi og spurningu um það hvort hætta sé á því að með því að auka og útfæra það samstarf gæti orðið um vaxandi einangrun vestnorrænna þjóða í hinu almenna norræna samstarfi að ræða. Ég hygg að einmitt m.a. með vísan til slíkra sjónarmiða hafi það orðið niðurstaðan á sínum tíma að Vestnorræna þingmannaráðið er algjörlega sjálfstæður vettvangur, óháður Norðurlandaráði, og undirbúningsnefnd, sem starfaði fyrir stofnsetningu þess á árunum eftir 1980, og ég átti sæti í síðustu tvö árin, hafði það m.a. að leiðarljósi að nauðsynlegt væri að tryggja að þó svo að vestnorrænu þjóðirnar ykju sitt samstarf og formbindu það, yrðu þær ekki að heldur settar til hliðar í almennu norrænu samstarfi. Og ég held að það sé rétt að undirstrika þá staðreynd að Vestnorræna þingmannaráðið er algjörlega sjálfstæður vettvangur og í engum formlegum skipulagstengslum við Norðurlandaráð. Það er kosið til þess sérstaklega í þjóðþingunum og það er ekki skilyrði að fulltrúar í Vestnorræna þingmannaráðinu séu jafnframt fulltrúar í Norðurlandaráði. Svo hefur að vísu verið í ýmsum tilvikum en öðrum ekki. Þannig er til að mynda sá sem hér stendur og fer með formennsku í Íslandsdeildinni á þessu ári ekki fulltrúi Norðurlandaráði.
    Ég held að einmitt með þessari ráðstöfun eigi það að vera þokkalega tryggt að við getum gert hvort tveggja án þess að það sé í nokkurri mótsögn, eflt vestnorræna samvinnu og jafnframt af fullum krafti tekið þátt í norrænu samstarfi eins og það þróast sem vonandi verður með jákvæðum hætti við breyttar aðstæður á komandi árum.