Norræna ráðherranefndin 1991--1992

117. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 16:26:00 (5081)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Þegar ég lauk máli mínu fyrr í umræðunni var það með það í huga að leggja nokkur fleiri orð í belg þessarar umræðu, þar á meðal að víkja að því sem áður hefur komið fram í umræðunni og ég nefndi í upphafi míns máls að ég hefði hug á að gera athugasemdir við en hefði hins vegar ekki haft ráðrúm til eða tekið mér tíma til þess að kynna mér þær ræður sem fluttar hefðu verið í síðustu viku þegar umræðan hófst. Nú hef ég gert það að nokkru leyti og skal bæta úr, m.a. í ljósi frýjunarorða hæstv. samstarfsráðherra sem er nú dálítið sérstakt að skuli taka að sér það hlutverk að hlutast til um umræðu sem varðar þingmannahópinn, Íslandsdeild Norðurlandaráðs ( Umhvrh.: Varðandi hið yfirþjóðlega vald.) og ekki beinlínis það verksvið sem hann er að fjalla um sem samstarfsráðherra. En það breytir ekki því að honum er auðvitað fullkomlega frjálst að víkja að þessu máli og síst hafði ég á móti því að á það væri minnt því að það er út af fyrir sig umræðuvert.
    Líklega er rétt að ég geri þau sjónarmið og þær aðdróttanir sem komu fram fyrr í umræðunni að upphafi míns máls en það eru vissulega fleiri atriði sem þörf er að koma að af minni hálfu, m.a. hafði ég í mínu máli ekkert vikið að málafylgju af minni hálfu á vettvangi Norðurlandaráðs í formi tillöguflutnings, fyrirspurna og annars þess háttar, sem er jú yfirlit um, ásamt málatilbúnaði annarra fulltrúa milli þinga, í skýrslu Íslandsdeildar. Ég ætla ekki að fara að taka einhverja heildarúttekt á þeim málum en víkja þó að mikilsverðum málum, sem ég tel vera, sem ég hef reynt að þoka áfram og koma á dagskrá á vettvangi Norðurlandaráðs.
    En fyrst það sem snýr að kjöri í trúnaðarstöður í Norðurlandaráði, sem hér var verið að víkja að og var tekið inn í umræðurnar þegar ég var ekki á þingfundi og hafði fjarvistarleyfi frá virðulegum forseta sl. fimmtudag. Það má geta þess svona til skýringar fyrir hæstv. ráðherra að ég hafði reiknað með því eftir viðtöl við forseta að þessi umræða yrði ekki á dagskrá þann dag því auðvitað hafði ég áhuga á því að eiga hlut að umræðunni frá upphafi. En það kom ekki að sök enda var fyrir fram ákveðið að ef hún færi af stað yrði henni ekki lokið og svo fór einnig, ekki vegna minnar fjarvistar heldur vegna óska hv. 1. þm. Austurl. um að hafa utanrrh. viðstaddan, sem ekki var heldur á þingfundi þennan dag eða þegar þessi dagskrárliður var til umræðu.
    Það voru haldnar ræður fyrr við umræðuna og þar á meðal talaði hv. þm. Páll Pétursson, fyrrv. forseti Norðurlandaráðs, tvívegis, í seinna skiptið eftir að ég kom inn í Íslandsdeild Norðurlandaráðs sem aðalmaður, en ég var þar varamaður þegar hann var forseti hið fyrra skiptið. Ég átti við hann gott samstarf eins og ég hef átt lengst af í þessari Íslandsdeild við þá sem þar eiga sæti og allt er það þykkjulaust af minni hálfu sem þar hefur gerst. Þar eru eins og gengur mismunandi sjónarmið og menn taka með mismunandi hætti afstöðu þar til mála og það er þeirra efni. En það kom mér dálítið á óvart að það skyldi vera formaður þingflokks Framsfl. sem tók þetta efni inn í umræðuna og sveigði að mér með þeim hætti sem rétt er að rifja hér upp. Hann segir --- og það er mjög nærri upphafi hans máls þannig að það má telja að þetta sé eins og svona eitt af meginefnunum sem eru í huga þessa fyrrv. forseta Norðurlandaráðs --- hann segir:
    ,,    Á síðustu árum hefur þetta samstarf þó tekið talsverðum breytingum. Flokkahóparnir hafa fyrst og fremst fengið stóraukið vægi. Sósíaldemókratar riðu á vaðið og síðan hafa aðrir flokkahópar myndast. Þetta mikla vægi sem flokkahóparnir eru búnir að ná innan Norðurlandaráðs hefur að mínu mati verið Íslendingum óhagstætt, meira að segja mjög óhagstætt. Hagsmunum okkar var miklu betur borgið með samstæðri íslenskri sendinefnd áður en hún sundraðist milli hinna einstöku flokkahópa. Allt fram til síðasta þings hefur íslenska sendinefndin haft tækifæri til að ráða því hvaða Íslendingar gegndu trúnaðarstörfum og allir íslensku fulltrúarnir hafa talið það skyldu sína að fylgja fram ákvörðunum sendinefndarinnar. Á þessu hefur því miður orðið breyting þar. Á síðasta Norðurlandaráðsþingi var þeim fulltrúa sem sendinefndin valdi til setu fyrir Íslands hönd í Norræna menningarmálasjóðnum ýtt þaðan, því miður, fyrir atbeina og samþykki eins íslensks fulltrúa í vinnunefnd, þ.e. hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, sem beitti með því yfirþjóðlegu valdi og brást íslensku sendinefndinni að mínum dómi og leitaði á náðir flokkahóps þess sem hann tilheyrir.``
    Þetta er innlegg þessa hv. þm., fyrrv. forseta í Norðurlandaráði, sem skipaði þar sæti lengi vel. Það er auðvitað skylt að fjalla um þetta mál. Ég vil taka það fram að ég les það í ræðu formanns Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, hv. þm. Geirs H. Haarde, að hann hefur vikið að þessari þróun í norrænu samstarfi. En hann gerir það með allt öðrum hætti og er ekki að bera þar fram neinar ásakanir í garð þess sem hér talar vegna minna athafna sem fulltrúa í kjörnefnd Norðurlandaráðs þar sem ég tók sæti, ekki vegna þess að ég óskaði eftir því heldur vegna þrábeiðni, ef svo má segja, til þess að kapallinn gengi upp sem er lagður þegar skipt er áhrifum í Norðurlandaráði og valið þar í nefndir samkvæmt ákveðnum reglum.
    Ég held að það sé nauðsynlegt að fjalla svolítið um þennan málflutning því að að mínu mati er hann afskaplega ómerkilegur. Mér finnst heldur óskemmtilegt að hafa uppi þennan lestur, virðulegur forseti, að fjarstöddum þingmönnum Framsfl., svo ég spyr: Hafa þeir allir fjarvistarleyfi, allur þingflokkur Framsfl. með tölu? ( Forseti: Nei, nei, þeir hafa það ekki. Forseti getur upplýst hv. 4. þm. Austurl. um það að hér hefur verið hv. 2. þm. Austurl. og hefur hv. 4. þm. Austurl. m.a. átt í orðaskiptum við hann hér á þessum fundi.) Já. En það kynni að vera að hv. þm. hefði fengið leyfi forseta til að víkja af fundi. Ég óska eftir því að fyrrverandi fulltrúi í Norðurlandaráðsdeild fyrir utan hv. þm., sem hér er mættur sem fulltrúi úr þingflokki Framsfl., hv. 6. þm. Norðurl. e., sem er auðvitað fullgildur, og fleiri eru komnir, hefði ég gjarnan kosið að hv. 2. þm. Austurl. væri einnig viðstaddur því að hann þekkir þessi mál líka og ekki síður en t.d. 1. þm. Austurl., vegna þess að hann átti sæti í Norðurlandaráði nú nýverið og kannast vel við það sem hér er til umræðu. En ég met það mikils að aðrir hv. þm. Framsfl. vilja hlýða á mitt mál. Til að tengja aðeins saman þá er ég að fjalla um ummæli hv. þingflokksformanns Framsfl., Páls Péturssonar, fyrr í umræðunni í síðustu viku um þessi efni þar sem hann bar þann sem hér talar allþungum sökum. Og ég tel skylt, enda verið gengið eftir því af ráðherra sérstaklega að þetta mál sé rætt hér, en alveg burt séð frá því þá tel ég mér það skylt að fjalla um þetta mál og varpa nokkru ljósi á það sem þarna ber á milli því að það ber talsvert á milli okkar hv. þm. Páls Péturssonar sem ekki er viðstaddur og væntanlega með fjarvistarleyfi, er það ekki? ( Gripið fram í: Jú, hann er með fjarvistarleyfi.)
    Sú þróun hefur verið uppi að vægi flokkahópa í norrænu samstarfi hefur vaxið. Það er eins og hv. þm. Páll Pétursson réttilega nefndi í sinni ræðu, sem ég hef hér útskrift af, að það munu hafa verið sósíaldemókratar sem fyrstir þjöppuðu sér saman á þessum vettvangi og mynduðu flokkahóp en síðan gerðist það einnig með aðra fulltrúa. Það má segja að nú sé málum þannig komið í norrænu samstarfi að til þess að menn hafi áhrif eða geti haft einhver teljandi áhrif og verið kjörnir í trúnaðarstöður á vegum Norðurlandaráðs þá gerist það ekki nema í gegnum þessa flokkahópa. Og það auðvitað finnur t.d. fulltrúi Kvennalistans, sem nú á sæti í Norðurlandaráði og hefur ekki kosið að skipa sér þar í hópa, að hún verður nokkuð utangátta í þessum efnum þó að það útiloki ekki að Íslandsdeild Norðurlandaráðs geti reynt að hamla þar gegn.
    Þetta yfirþjóðlega vald, sem hv. þm. kýs að kalla svo, sem komið er inn í Norðurlandaráð --- það er nú kannski matsatriði hvort menn kalla það því nafni --- er samstarfsform sem menn hafa náð saman um, að vísu má segja sumir kannski nauðugir, aðrir viljugir, mismunandi hrifning að baki. En þetta er orðið það fastbundið í starfsháttum Norðurlandaráðs að það endurspeglast í grunnsáttmálanum, Helsinki-sáttmálanum, sem er undirstaða þessa ráðs og hefur verið borinn hér upp og samþykktur. Ég hef ekki orðið var við að hv. þm. Páll Pétursson beitti sér hart og mikið gegn þeirri samþykkt eins og frá henni var gengið. Vissulega reyndi Íslandsdeild Norðurlandaráðs að verja sig þar á síðasta ári varðandi tilhneigingu til að útiloka Ísland frá formennsku í þingnefnd sem við höfum haft samkvæmt hefð um langt skeið og það tókst vegna þess að menn brugðust þar við þannig að nú eigum við þó formann í einni af þessum sex --- eða eru þær ekki sex, þingefndirnar, sex eða sjö? --- og er það hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sem skipar formannsætið í menningarmálanefnd ráðsins.
    En síðan er ekki bara þessi Helsinki-sáttmáli sem bindur þarna heldur er það forsætisnefnd Norðurlandaráðs sem hefur gengið frá reglum varðandi kjör í trúnaðarstöður og kunngert þær reglur, þannig að þær eru opinber þáttur af þessu norræna samstarfskerfi. Og það bindur enn frekar þá sem starfa í kjörnefnd. Nú þar fyrir utan hafa verið gefnar út starfsreglur og leiðbeiningar teknar saman á vegum forsætisnefndar Norðurlandaráðs, yfirlit um hvað teljist vera hefðbundið og kjörnefnd beri að taka tillit til. Þetta er nú yfirstjórn og forusta í þingmannahlutanum, þ.e. Norðurlandaráðshlutanum, það er forsætisnefndin.
    Og það skyldi nú ekki vera að hv. þm. Páll Pétursson hafi einhvern tíma komið þar nærri málum á undanförnum árum? Ja, ég bið hv. þm. Framsfl. að fletta upp í bókum og athuga það, jafnvel með viðtölum við hv. þm., hvort hann hafi eitthvað komið að æðstu stjórn Norðurlandaráðs á undanförnum árum. Ég hef ekki yfirlit yfir það hversu lengi hann sat í forsætisnefnd ráðsins en það voru nokkur kjörtímabil. Tvívegis er hann forseti og sótti það fast. Og þar með var hann mesti áhrifamaður þau árin sem þetta féll Íslandi í skaut. Ég hef ekki orðið var við að hann hafi beitt sér hart að þessu leyti sem slíkur og sem fulltrúi í forsætisnefnd. Það kann að vera en það hefur ekki endurómað inn á þing ráðsins í ríkum mæli að öðru leyti en því að hann hefur verið samstiga öðrum í að leitast við að verja ákveðinn rétt Íslandsdeildar í sambandi við hlutaskiptin.
    Þannig vísa ég gagnrýni hv. þm. frá með öllu og tel hana bæði óréttmæta og ósanngjarna, sérstaklega af manni sem hefur notið þess trausts af Íslandsdeild ráðsins og af Norðurlandaráði að gegna æðstu stöðu í tvígang. Ég er satt að segja aldeilis undrandi yfir slíku skítkasti, sem ég leyfi mér, virðulegur forseti, að nefna svo, út úr húsum á Höllustöðum.

Mér finnst þetta ekki skemmtilegur vopnaburður af hálfu hv. þm.
    Svo að litið sé á það tilefni sem þarna er um að ræða má geta þess að vissulega var brugðið út af þarna og kjörnefnd ráðsins breytti þeirri niðurstöðu sem hafði orðið í Íslandsdeild á fundi þann 19. febr. þegar kosið var í trúnaðarstöður af Íslandsdeild. Rétt er að víkja aðeins að því sem gerðist þar. Til skýringar má geta þess að forsætisnefnd skiptir trúnaðarstöðum í Norðurlandaráði í þrjá hópa með mismunadi vægi, 1. hóp, 2. hóp og 3. hóp, kallað primer, sekunder og tertier á hinu norræna stofnanamáli.
    Til 1. hóps, primer hóps, flokkast forsætisnefnd og formennska í nefndum ráðsins. Í 2. hóp falla varaformenn í nefndum, formaður og varaformaður í ritnefnd tímaritsins Nordisk Kontakt og stjórn Norræna menningarsjóðsins. Eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans er einnig í 2. hópi. Í 3. hópinn fellur moðið sem eftir er, t.d. varamenn í stjórn Norræna menningarsjóðsins og aðrir fulltrúar en formaður og varaformaður í ritnefnd tímaritsins Nordisk Kontakt.
    Síðan eru reglurnar þannig að inn á þessi trúnaðarstörf skal raðað samkvæmt styrkleika flokkahópa í Norðurlandaráði þó að teknu tilliti til Helsinki-sáttmálans að því er varðar forsætisnefnd ráðsins og í rauninni er það eina sem bundið er í Helsinki-sáttmála að þar skuli vera tveir fulltrúar frá hverju landi. Þessu stendur Íslandsdeildin frammi fyrir en hún er ekki bundin af þessu sem hópur og því geta önnur sjónarmið komið til greina og væntanlega þar á meðal sanngirnissjónarmið.
    Hvernig hagaði Framsfl. sér í Íslandsdeild Norðurlandaráðs að þessu leyti? Fyrst að formaður þingflokks Framsfl. sér ástæðu til þess að bera mig þeim þungu sökum og nánast svikum --- ég segi ekki landráðabrigsl --- að ég hafi brugðist íslensku sendinefndinni og það er nokkuð langt gengið, hvernig hagaði Framsfl. sér í Íslandsdeild Norðurlandaráðs? Hann fær stuðning þar og var ekki ágreiningur um það að fulltrúi Framsfl. yrði kjörinn í þyngstu og mikilvægustu nefnd Norðurlandaráðs, forsætisnefndina. Hann hlaut það traust ásamt Geir H. Haarde og þeir tveir ágætu fulltrúar skipa það sæti. ( Gripið fram í: Enda þungir og traustir.) Já. Ég ætla ekki að rifja ítarlega upp orð fyrrv. þingmanns sem nú vermir sæti í bankastjórastól Landsbankans. En það kemur mér í hug en ég tel það tæpast þinghæft, virðulegur forseti.
    Síðan gerist það að það er valið í formennsku í nefndum og þar átti Ísland einn kost samkvæmt reglum og við erum sammælt um það í hópnum að kjósa fulltrúa Alþfl. inn í það sæti. Viðmiðunin sem þarna er höfð er stærð flokkanna. Menn eru með auga á því, þó að það væri auðvitað alls ekkert sjálfgefið, að t.d. fulltrúi Framsfl. færi inni í forsætisnefnd umfram fulltrúa Alþfl. Það er svo langt frá því að það væri nokkuð sjálfgefið. Ef þeir stjórnarliðar hefðu kosið að binda sig saman þá hefðu þeir getað ráðið því, þeir hefðu getað skipt með sér forsætisnefndinni ef þeir hefðu ætlað að láta afl atkvæða skera úr, þá gátu þeir ráðið því að það yrðu stjórnarliðar í þessari þyngstu nefnd, alþýðuflokksfulltrúi og sjálfstæðismaður. Sannarlega hefðu margir sósíaldemókratar glaðst á Norðurlöndum ef sú hefði orðið raunin að Rannveig Guðmundsdóttir hefði verið kosin sem fulltrúi í forsætisnefndina og ekki reynt á þetta í sambandi við skiptin í formennsku í nefndum --- ekki endilega.
    Þetta varð niðurstaðan varðandi þessa þrjá --- 1. hóps stöður. Þá eru þessir þrír flokkar búnir að fá nokkuð. Síðan fá allir sæti í nefndum, m.a.s. Kvennalistinn nýtur þeirra sérstöku kjara, þrátt fyrir það að vera utan flokkahópa, að sitja í nefnd í ráðinu. Fulltrúi Framsfl. má lúta því að þurfa að taka sæti í nefnd fyrir utan það að vera í forsætisnefnd. Það er aðeins annar fulltrúi Íslands sem tekur sæti í nefnd fyrir utan forsætisnefndina og fulltrúi flokkahóps vinstri sósíalista, sem fékk nú í fyrsta skipti sæti í forsætisnefnd. Hann á jafnframt sæti í þingnefnd, aðrir ekki.
    Síðan eru það önnur trúnaðarstörf. Samkvæmt ákvörðun á fyrra ári var Geir H. Haarde, fulltrúi Sjálfstfl., kosinn í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans og hann skipar þá stöðu til tveggja ára. Þá kemur spurningin um það hver eigi að skipa sæti í stjórn Norræna menningarsjóðsins. Um það varð ágreiningur í nefndinni. Hvað gerist? Fulltrúi Framsfl., hv. 1. þm. Austurl., Halldór Ásgrímsson, gerir bandalag við ríkisstjórnarliðið í Íslandsdeild til þess að tryggja fulltrúa úr Framsfl. --- vissulega verðugan fulltrúa --- varamanni sínum, hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur, sæti í stjórn Norræna menningarsjóðsins. Hann hefur ekkert fyrir því að sinna ábendingum frá minni hálfu og fulltrúa Kvennalistans um að þetta sé ekki beinlínis sanngjarnt þegar menn eru að skipta trúnaðarstöðum eftir það sem á undan var gengið og við höfðum staðið að því að tryggja Framsfl. sæti ágreiningslaust í forsætisnefnd ráðsins.
    Eftir eru svo þessi aukastörf, fulltrúi Kvennalistans í ritnefnd Nordisk Kontakt og fulltrúi Sjálfstfl. varamaður í stjórn Norræna menningarsjóðsins og er þá nokkurn veginn upp talið.
    Ég leyfði mér að mótmæla þessum vinnubrögðum af hálfu fulltrúa Framsfl. í Íslandsdeild. Mér fannst þau vera ósanngjörn, órökstudd og gegn öllum eðlilegum samskiptareglum að ætla að troða sér með þeim hætti inn í störf og trúnaðarstöður innan Íslandsdeildar. Ég gerði um þetta bókun og lá ekkert á þeim ágreiningi og þeir hv. þm. Framsfl. hafa vafalaust fengið að sjá hana og hv. þm. Halldór Ásgrímsson bréfaði á móti og reyndi að verja sig. Þetta varð sem sagt niðurstaðan og ég harma að þetta rifrildi skuli bitna á varafulltrúa Framsfl. í Íslandsdeildinni því að auðvitað er það ekki til komið að hennar frumkvæði.
    Þegar kemur í kjörnefnd Norðurlandaráðs sem samkvæmt nýjum reglum frá fyrra ári á að gera tillögur til ráðsins kemur í ljós að þessi kapall gengur bara ekki upp og ekki þessi íslenski kapall einn út af fyrir sig heldur heildarkapallinn. Þá kemur í ljós að miðjumenn þurfa að velja og hafna eins og aðrir. Það það er miðjuhópurinn, sem hv. þm. Páll Pétursson er búinn að sitja í árum saman og Halldór Ásgrímsson á nú sæti í, sem ríður á vaðið gagnvart kjörnefnd ráðsins og gerir kröfu til þess að stokkað verði upp gagnvart forsætisnefndinni, niðurstaða í landsdeildunum, gerð verði breyting á máli fyrrv. hv. bónda á Höllustöðum í krafti yfirþjóðlegs valds eins og hann kýs að kalla það. Ég hef ekki heyrt um ágreining frá hv. 1. þm. Austurl. við þessari gjörð. Hvers konar vopnaburður er þetta sem menn hafa hér uppi og færa inn í þingsali? Mér finnst það ekki vera til þess að auka hróður þeirra sem fyrir honum standa.
    Þegar kom að því að sá flokkahópur, sem ég starfa í, héldi einhverjum hlut --- og það var aðeins einn hlutur fyrir utan sæti í forsætisnefnd ráðsins. Það lá fyrir að við óskuðum eftir að fá fulltrúa í stjórn menningarsjóðsins, en hefðum kosið að taka varaformennsku í nefnd ef það hefði staðið til boða, og sem við áttum rétt á samkvæmt styrkleika --- þá varð miðjuhópurinn og fulltrúar hans, en þeir áttu tvo í kjörnefndinni, að gera það upp við sig hvað þeir vildu gera. Þeir voru með heil fimm störf sem þeir þurftu að draga til baka frá óskum eins og þær lágu fyrir frá landsdeildunum í upphafi.
    Er það frambærilegt af manni sem gjörþekkir innviðina, hvernig þessi mál liggja og hefur tekið þátt í að móta þessar reglur meira en ég og flestir aðrir að koma inn í þingsali með þeim hætti sem hv. þm. Páll Pétursson leyfði sér sl. fimmtudag? Ég óska eftir því að menn reyni að temja sér önnur vinnubrögð en þetta.
    Auðvitað verður Framsfl. að kjósa þann næturstað sem hann vill hafa í málum. Hann verður að finna sér sinn næturstað og ráða honum í þessu sem öðru. En það er ekki skemmtileg hvíla sem hann hefur kosið sér þarna.
    Ég tel að ég þurfi ekki miklu meira um þetta að segja. Kannski er þetta í fyrsta sinn sem hefur verið farið yfir hvernig þessi mál ráðast á þessum vettvangi. Þetta er flókið kerfi sem þarna liggur fyrir sem er ekkert auðvelt að botna í fyrir utanaðkomandi. Það er tiltölulega auðvelt að vera með slefsögur og ómerkilegan fréttaflutning inn í þingsal og gagnvart alþjóð í þessum efnum, ég tala nú ekki um ef menn eru ekki viðstaddir til að svara fyrir sig og skýra málin.
    Einu má bæta við. Kjörnefnd í Norðurlandaráði er kosin á Norðurlandaráðsþingi. Rétt til að skýra fyrir mönnum hvernig aðstæðurnar eru þá tilnefndi Íslandsdeildin --- sem reyndar er óskað eftir eins og gagnvart öðrum landsdeildum að tilnefni fleiri en einn í hverja stöðu til þess að hægt sé að grípa í, að kapallinn sé ekki bundinn þegar reynt er að láta hann ganga upp --- í þessu tilviki greip Íslandsdeildin til þess að tilnefna þrjá fulltrúa af sinni hálfu í kjörnefnd. Ég tók sérstaklega fram að ég væri ekki að sækjast eftir þeirri stöðu fremur en áður. Ég var hins vegar varamaður í mínum flokkahópi. Hver verður niðurstaðan? Gegn þessum vilja Íslandsdeildar og án þess að ég væri að sækjast eftir því kemur tillaga, ákveðin með meiri hluta eftir atkvæðagreiðslu í forsætisnefnd, um það að ég skuli áfram sitja í kjörnefnd Norðurlandaráðs. Nú, ég veit ekki hvort það er hægt í rauninni að skipa það sæti eftir þennan áburð sem ég hef fengið frá félögum mínum hér á þingi, og ég á þá við þingbræður hér í deild og fyrrverandi fulltrúum í Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Í rauninni er mjög erfitt að starfa undir slíkum áburði eins og þarna er fram kominn.
    Virðulegur forseti. Aðeins til að venda kvæði í kross. Norðurlandaráð hefur auðvitað alltaf verið merkur vettvangur og tekist á um stór atriði og önnur smærri. Nú eru óvenjustórir þættir sem þar eru ræddir og sem varða framtíðarstöðu norrænna þjóða í víðara samhengi og samstarfi. Ég hef gert grein fyrir afstöðu minni til þeirra stóru mála. Mér þótti miður um leið og hæstv. ráðherra lýsti ágreiningi við mig um þessi efni, þ.e. í grundvallaratriðum, að hann gerði ekki nokkra tilraun til þess að skýra í hverju ágreiningurinn lægi af hans hálfu. En það er auðvitað hans mál og vafalaust má lesa eitt og annað út úr skýrslu hans og framsögu í þessum efnum. En hæstv. ráðherra kaus sem sagt að afgreiða málið mjög pent og stutt: grundvallarágreiningur, engir snertifletir fremur en á öðrum sviðum, ef ég skildi hann rétt. ( Gripið fram í: Utanríkismála.) Já, á sviðum utanríkismála.
    Út af fyrir sig er það athyglisvert. Það eru kannski engin ný sannindi fyrir mig, en mér finnst samt gagnvart umræðunni að mjög gott væri að menn gerðu aðeins grein fyrir því, þegar bilið er svona breitt, í hverju það liggur. Og hver er sýnin hjá hæstv. samstarfsráðherra Norðurlanda til þessara mála? Þá vil ég rifja það upp sem ég las úr blaðaviðtali við hann á sama tíma og Norðurlandaráðsþingið í Helsinki stóð yfir að hann lýsti þeirri skoðun sinni að Ísland væri ekkert á leið inn í Evrópubandalagið og hann teldi að það væri ekkert á dagskrá. Það sýnir hvað samræmingin og samstillingin er mikil innan Alþfl. að ráðherrann mælir þetta aðeins skömmu áður en utanrrh. gerir mynduga tilraun til þess að færa málið hér inn á dagskrá sinnar ríkisstjórnar og Alþingis í formi skýrslu utanríkisráðherra. Vel má vera að hæstv. samstarfsráðherra hafi allt aðra skoðun á þessum málum. Ég hef ekki heyrt hana nema í þessu yfirlýsingaformi. Og ég ætla að vona að það séu ólíkar skoðanir uppi innan Alþfl. að þessu leyti því að auðvitað verður hver og einn að standa reikningsskil gagnvart sínum kjósendum í þessum stóru og afdrifaríku málum áður en til úrslita kemur.
    Síðan eru mörg mál sem eru til umræðu og afgreiðslu á þessum vettvangi. Það voru mörg mál sem vert væri að nefna. Ég ætla ekki að fara langt út í þá sálma en mörg mál voru til afgreiðslu og umræðu á þinginu og þar er af allnokkru að taka. Þarna var fjallað um margvíslegar tillögur. Ég vil nefna hér tillöguna, sem var samþykkt, um það að auka eigið fjármagn Norræna fjárfestingarbankans um 800 millj. SDR, þ.e. um 2.400 millj. SDR. Það var þarna tillaga sem mér finnst athyglisverð fyrir okkur Íslendinga. Hún varðaði það að samræma reglur um eftirlaun sjómanna. Samþykkt var að undirbúin yrði samþykkt um félagslegt öryggi. Samþykkt var tillaga um að styrkja starfsemi Norræna iðnaðarsjóðsins. Það var samþykkt tillaga um að auka eigið fé Norræna þróunarsjóðsins um 150 millj. SDR. Það var samþykkt tillaga um að kanna möguleika á að sett verði samræmd lög á Norðurlöndum til verndar börnum. Og samþykkt var samvinnuáætlun á fiskimálasviði í samræmi við fram komna tillögu ráðherranefndar. Það var Íslendingur sem mælti fyrir nefndaráliti um það atriði, þ.e. hv. 15. þm. Reykv., fulltrúi Kvennalistans sem var framsögumaður fyrir því máli. Það var samþykkt að auka skipti á norrænu sjónvarps- og útvarpsefni. Og það var samþykkt síðast en ekki síst að norræna ráðherraráðið hafi frumkvæði að samstarfi ríkisstjórna um heildarsamvinnu um málefni heimskautasvæða, tillaga sem hv. 1. þm. Austurl., fulltrúi Framsfl. var flutningsmaður að og fékk afgreiðslu á þinginu þótt hún væri borin fram skömmu fyrir þinglok.
    Af minni hálfu voru bornar fram fyrirspurnir til ráðherraráðsins um tvö atriði. Annað varðaði áform um stóraukna flutninga á geislavirkum úrgangi frá kjarnorkutilraunastöðvum í Þýskalandi til Dounreay-stöðvarinnar í Skotlandi. Hin tillagan varðaði afstöðu norræna ráðherraráðsins til losunar ósoneyðandi efna. Varðandi seinna atriði, sem norski umhverfisráðherrann svaraði fyrir hönd ráðherraráðsins, var ég langt frá því að vera ánægður með svar ráðherraráðsins um þetta afdrifaríka og stóra mál. Ráðherrahópurinn náði ekki saman af einhverjum ástæðum um það að koma með yfirlýsingu í samræmi við það sem heyrist frá mörgum ríkisstjórnum núna, að herða mjög á eftirliti og banni við losun ósoneyðandi efna alveg á næstunni og að því verði mjög hraðað sem liggur fyrir í Montreal-bókuninni um þessi efni, þ.e. að reyna að stöðva þetta fyrir aldamótin. Mörg ríki stefna að því að ná þessu marki miklu fyrr. Það hefði að mínu mati verið eðlilegt og metnaðarmál fyrir þennan vettvang, ráðherraráðið, að stilla nú strengina saman í þessu stóra máli um þetta efni. Því miður kom það ekki fram í þessu svari við minni tillögu.
    Ég vil aðeins geta þess að ég hef nýlega lagt fram, sem fyrsti flutningsmaður, ásamt fulltrúum í flokkahópi vinstri sósíalista, tvær tillögur sem nú eru inni í kerfinu, þ.e. eru nú til meðferðar í nefndum Norðurlandaráðs og koma væntanlega til afgreiðslu, annaðhvort á þinginu í Árósum í nóvembermánuði eða á þinginu þar á eftir. --- Er það ekki í Ósló að ári, þ.e. í marsmánuði á komandi ári? Önnur tillagan er um hópa sem standa höllum fæti á Norðurlöndum og varðar það að menn safni saman upplýsingum og tillögum á grundvelli þess til að bæta stöðu þessara hópa, manna sem eru undir lágmarksmörkum tekjulega eða standa höllum fæti gagnvart kerfinu. Það er þessi þriðjungur, sem er að myndast í sumum vel stæðum löndum, fólk sem er langt utan við meðaltalið og býr við félagslegt og kjaralegt misrétti og á kannski rétt til hnífs og skeiðar og tæpast það sumir hverjir. Ég vona að þessi tillaga fái þinglega meðferð --- og efast ekkert um það. Hvað um afdrif hennar verður er auðvitað Norðurlandaráðs og viðkomandi þingnefnda sérstaklega að skera úr um en hún er til meðferðar í félagsmálanefnd þingsins.
    Hin tillagan sem ég flutti er um sjálfbæra skipulagningu orkumála á Norðurlöndum. Sjálfbær er þýðing á enska hugtakinu ,,sustainable`` eða ,,bæredygtig`` eða ,,bærekraftig`` eins og það er kallað ( Gripið fram í: Á stofnanaskandinavísku.) já, á stofnanaskandinavísku og er sótt í Brundtland-skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Ég vil aðeins leyfa mér, virðulegur forseti, að geta um meginefni þessarar tillögu, þ.e. ályktunartillöguna sjálfa. Þar er lagt til að Norðurlandaráð leggi til við Norrænu ráðherranefndina með vísan til meðfylgjandi greinargerðar að láta vinna eftirtalið:
    ,,Að láta vinna á vegum ráðherranefndarinnar í samvinnu við stjórnvöld einstakra Norðurlanda á sviði umhverfis- og orkumála sameiginlega og sjálfbæra langtímaáætlun um orkumál á Norðurlöndum með sýn til allt að 40 ára, þar sem m.a. verði gengið út frá eftirfarandi:
    Að minnka heildarorkunotkun um allt að 50% af núverandi umfangi.
    Að leysa kjarnorku af hólmi með öðrum orkugjöfum.
    Að breyta markvisst yfir í endurnýjanlega orkugjafa.
    Að taka upp hreina tækni með bættri orkunýtingu.
    Að minnka losun koltvísýrings um meira en 90% og brennisteinsdíoxíðs og NOX enn frekar.
    Að stórbæta orkunýtingu og gera hana hagkvæmari.
    Að verðleggja orku þannig að endurspegli heildarkostnað --- að umhverfisáhrifum meðtöldum.
    Að dreifa orkuframleiðslunni.
    Að tvinna saman orkupólitísk og félagsleg markmið, m.a. að tryggja atvinnu og búsetu á jaðarsvæðum.
    Að gera ráð fyrir opinberri stjórnun og skuldbindandi almennum skilyrðum.
    Að meta nauðsynlega rannsókna- og þróunarsamvinnu sem tengist þessari samnorrænu orkuskipulagningu.
    Að setja fram tillögur um samstarfsform á sviði orkumála milli Norðurlanda og um endurskipulagningu núverandi stofnana til að ná fram og fylgja eftir markmiðum orkuskipulagsins.

    Að vinna að því að markmið þessarar norrænu orkuáætlunar verði hluti af alþjóðasamvinnu og sáttmálum m.a. orkusáttmála fyrir Evrópu.``
    Þessi tillaga fjallar um stórt mál og ég er nokkuð viss um að mörgum þykir hér stórt lagt til og stefnumiðið tekið á mikla breytingu. En hér er þó ekki um annað að ræða en reyna að útfæra í tillögu það stefnumið sem Brundtland-skýrslan gerir ráð fyrir að iðnaðarlöndin geri að sínum á sviði orkumála. Það segir mönnum það eitt, ef mönnum finnst að hér sé um róttæka tillögu að ræða, að það þarf mikið til að þetta gangi upp. Svo er að sjá hvaða undirtektir þetta fær en svo vill til að þessi tillaga er ekki í umhverfisnefnd Norðurlandaráðs til umfjöllunar heldur liggur hún hjá efnahagsnefnd Norðurlandaráðs sem fer með orkumálin samkvæmt verkaskiptingu nefnda. Mér finnst það eitt af álitamálunum í sambandi við þá tilhögun sem hefur verið tekin upp, að láta orkumálin, sem eru undirstöðuþáttur í sambandi við umhverfismál, þ.e. mengunina, liggja þarna. Við höfum ekki það kerfi, a.m.k. er það ekki upp tekið, að vísa málum milli nefnda þannig að það er fyrst og fremst efnahagsnefndin sem fjallar um og ræðir þessa tillögu. Þar kann að vera þyngra undir fæti í sambandi við undirtektir en ef málið væri í umhverfisnefnd ráðsins. Það geri ég mér fyllilega ljóst.
    Virðulegur forseti. Ég ætla senn að ljúka máli mínu. Ég vil að lokum segja varðandi horfurnar í norrænu samstarfi að þótt þær séu dökkar á marga lund er það auðvitað ekki svo að ég geri ráð fyrir því að norrænt samstarf hverfi sem dagskrármál á öllum sviðum --- og þá á ég við í formlegum búningi. Auðvitað verður áfram mikið samstarf, frjálst samstarf á milli aðila á Norðurlöndum, frá einstaklingum yfir í stór samtök sem hefur þróast á undanförnum árum og er auðvitað sá jarðvegur sem við byggjum á og höfum byggt á í norrænu samstarfi. En staða hins formbundna Norðurlandasamstarfs er mikilli óvissu háð og um það hef ég rætt áður. Hver sem verður niðurstaðan hjá hinum Norðurlöndunum í sambandi við samskiptin við Evrópubandalagið og tengslin ber okkur auðvitað að reyna að bjarga því í land og halda því sem hægt er án þess að láta það hafa nokkur áhrif á okkur í þá átt að við förum að leita okkur að næturstað innan Evrópusamveldisins í framtíðinni af þeim sökum. Það má ekki ráða um þau efni enda léttvægt í þeirri heildarmynd að mínu mati.
    Ég vil þakka fyrir þær skýrslur sem liggja til grundvallar þessari umræðu bæði frá hæstv. ráðherra, samstarfsráðherra, sem og frá Íslandsdeild, sem ég á auðvitað hlut að eins og aðrir fulltrúar og frá Vestnorræna þingmannaráðinu sem hér hefur einnig verið rætt. Ég hef ekki farið út í að ræða þau efni sem snúa að því samstarfi sérstaklega en ég er alveg sammála þeim áherslum sem núv. formaður í þessu ráði túlkaði hér, hv. 4. þm. Norðurl. e. Og ég er sammála þeim áhyggjum sem hafa komið fram um að þetta samstarf þróist eða losni frá og verði einhver undirdeild eða sérdeild innan norræns samstarfs. Ég held að við þurfum að gjalda varhug við því engu síður en í sambandi við Eystrasaltsráðið og Eystrasaltssamstarfið að við eigum þar eðlilegan hlut að máli. En ég ætla ekki að fara að gera það að umræðuefni frekar.
    Ég tel afar mikilvægt að við ræðum þessi efni á Alþingi og tel að þessi umræða hafi verið mjög góðra gjalda verð um þetta stóra samhengi. Einnig auðvitað sú umræða sem tengdist skýrslu utanrríkisráðherra. Það er spurning hvort ekki er þörf á því að ræða þessi mál oftar en einu sinni á ári hér á Alþingi vegna þeirra öru breytinga sem eiga sér stað í norrænu samstarfi. Ég minni á það að nú er sú nýbreytni upp tekin að Norðurlandaráð heldur reglubundið tvö þing á ári. Þó að annað sé mun stærra í sniðum væntanlega þá er þó formlegt þing tvívegis og möguleiki á aukaþingi þar utan. Ég vil varpa því hér fram í lokin að mér finnst ekki úr vegi að Íslandsdeild Norðurlandaráðs beiti sér fyrir umræðu í samvinnu við samstarfsráðherra áður en kemur til þings í Árósum í nóvembermánuði. Þar er hugmyndin að skýra þá mynd sem varðar framtíð norræns samstarfs. Þá liggur fyrir álit forsætisráðherra, endanleg álitsgjörð, og ýmislegt kann að hafa skýrst að því er varðar tengsl einstakra landa eða hvert stefnir í þeim efnum gagnvart Evrópusamveldinu þó að sú umræða verði ekki komin í endanlega stöð sem á sér nú stað um gjörvöll Norðurlönd.