Norræna ráðherranefndin 1991--1992

117. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 17:15:00 (5082)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kom í minn hlut að sitja hér, taka vaktina nokkra stund undir maraþonræðu hv. 4. þm. Austurl. um Framsfl. Ég vil sérstaklega þakka honum fyrir að hafa beint kastljósinu að flokknum allt þetta síðdegi. Ég veit ekki hvað hægt er að gera flokknum betra en að hv. 4. þm. Austurl. hamist á honum.
    Varðandi það sem hann beindi til hv. 2. þm. Norðurl. v. og 1. þm. Austurl. fór ekkert á milli mála að þar sveið undan. Og það er kannski þannig að sannleikanum er hver sárreiðastur þegar á reynir. Væntanlega hefur hv. 4. þm. Austurl. reiknað með að það fréttist ekkert út fyrir hið flókna regluverk Norðurlandaráðs hvernig þar var staðið að málum.
    Ég vil að lokum segja, eftir þessar miklu ræður um Framsfl., þar sem varla var vikið orði að samstarfsráðherra Íslands í Norðurlandaráði, hann var hér nánast í aukahlutverki, og eftir að hafa hlustað á hv. 4. þm. Austurl. útskýra regluverk Norðurlandaráðs og hvernig hann telur að hægt sé að spila á það, sjálfsagt kann það enginn maður betur en hv. þm., að ég þekki nú engan annan hér sem mundi sóma sér betur til að taka þátt í regluverki hinnar sameinuðu Evrópu og tileinka sér alla klæki og annað sem þar þarf til.