Norræna ráðherranefndin 1991--1992

117. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 17:18:00 (5084)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mín viðbrögð hér skýrast fyrst og fremst af því að ég þekki fulltrúa Framsfl. í Norðurlandaráði, 1. þm. Austurl., ekki af öðru en því að vinna af fyllstu heilindum bæði gagnvart íslenska þjóðþinginu og ekki síður Norðurlandaráði. Ég hef ekki heyrt í mörgum sem á þessum vetri hafa tekið upp á ákveðnari hátt málstað Norðurlandaráðs og mikilvægi norrænnar samvinnu. Það einstaka mál sem hv. þm. nefndi áðan og varði löngum tíma í sneri hins vegar að því hvort það ætti að vera hin íslenska sendinefnd sem legði fram tillögur og hefði lokaorðið um skiptingu embætta innan Norðurlandaþings fyrir Íslands hönd eða hvort það ætti að vera hið yfirþjóðlega vald flokkasamsteypanna sem ætti að ráða. Um það snýst málið.
    Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, benda á það að bæði í ræðu hv. 4. þm. Austurl. og ekki síður --- af því að menn eru farnir að frumkvæði þess hv. formanns að tala um ræður fjarstaddra þingmanna --- í ræðu formanns Alþb. um skýrslu utanrrh. sýnist mér að það ætli að gerast enn og aftur í utanríkismálaumræðu á Íslandi að Alþb. ætli að einangra sig og hlaupa frá málefnalegri umræðu. Hlaupa frá starfi sínu í fyrri ríkisstjórn að samningum um Evrópskt efnahagssvæði.