Ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins 1991

117. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 17:39:00 (5093)

     Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir fyrir till. til þál. um ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins á árinu 1991. Efnislega vísa ég til þeirra umræðna sem þegar hafa farið fram um skýslu Íslandsdeildar Vestnorræna þingmannaráðsins. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Árni Johnsen, Jón Helgason, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir sem eru fulltrúar Íslands í Vestnorræna þingmannaráðinu. Tillögugreinin er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að hrinda í framkvæmd eftirfarandi ályktunum Vestnorræna þingmannaráðsins sem samþykktar voru í Qaqortoq á Grænlandi 7. ágúst 1991:
    1. Ályktun um að landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands stuðli að því að reglum þeim, sem gilda um Þróunarsjóð Vestur-Norðurlanda, verði breytt í því skyni að unnt verði að veita áhættulán til atvinnustarfsemi í Færeyjum, á Grænlandi

og Íslandi.
    2. Ályktun um að landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands stuðli að því að áframhaldandi starfsemi ferðamálanefndar Vestur-Norðurlanda verði tryggð með norrænum fjárframlögum og fjárframlögum frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi.
    3. Ályktun um að landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands stuðli að því að staða vestnorrænu nefndarinnar innan skipulags norræns samstarfs verði metin í því skyni að gera nefndina eins hæfa og mögulegt er til að sinna þeim störfum sem fylgja auknu samstarfi Vestur-Norðurlanda.
    4. Ályktun um að landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands feli þeim ráðherrum, sem fara með norræn samstarfsmál, meðferð vestnorrænna samstarfsmála ríkis- og landsstjórnanna og framkvæmd ályktana Vestnorræna þingmannaráðsins.
    5. Ályktun um að landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands tryggi fjármögnun vegna þeirra þriggja ráðstefna sem Vestnorræna þingmannaráðið ályktaði árið 1989 um að haldnar yrðu árið 1992. Vísað er til ályktunar Vestnorræna þingmannaráðsins nr. 4/1989, en þar ályktaði Vestnorræna þingmannaráðið um að árið 1992 yrði vestnorrænt ár og þá yrði sérstök áhersla lögð á jafnrétti kvenna og karla, umhverfismál og ungt fólk. Ráðstefnur yrðu haldnar um jafnréttismál á Íslandi, um umhverfismál á Grænlandi og ungmennaráðstefna yrði haldin í Færeyjum. Fjármagn til þessa yrði tryggt og fulltrúar landanna þriggja tilnefndir til að undirbúa vestnorræna árið.
    6. Ályktun um að landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands um að samningur sá sem samgönguráðherrar Færeyja, Grænlands og Íslands gerðu í desember 1990 um samstarf um samgöngumál, kæmi strax til framkvæmda.``
    Herra forseti. Samkvæmt venju er lagt til að Alþingi staðfesti ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins og geri þær að sínum og beini þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að þessum ályktunum verði hrint í framkvæmd og held ég að með hliðsjón af þeim umræðum sem þegar hafa farið fram um málefni vestnorræns samstarfs þurfi ekki frekari ræðuhalda við af minni hálfu. Að lokinni umræðunni legg ég til að till. verði vísað til utanrmn.