Fiskistofa

117. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 17:43:00 (5095)

     Kristín Einarsdóttir (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Skv. 63. gr. þingskapalaga er hægt að fjalla um fleiri en eitt dagskrármál saman undir einum dagskrárlið eins og forseti hefur gert grein fyrir. Ég er ekki sátt við að það sé haft að meginreglu að skella saman svona mörgum málum eins og þarna er verið að gera. Það þykir mér mjög óeðlilegt og tel að þó að öll þessi fjögur mál séu frá sjútvrh. þá séu þau að nokkru leyti ólík og hefði ég talið eðlilegt að þau yrðu rædd hvert fyrir sig og langar mig reyndar til að spyrja hvort það sé einhver sérstök ástæða til að þetta sé gert en ég ætla ekki að andmæla þessu, því að eins og fram kom er það nægilegt að einn þingmaður andmæli. Ég hef ekki hugsað mér að gera það og lít á þetta sem undantekningu í hverju sérstöku tilviki en ekki að farið verði að taka mörg mál undir einum dagskrárlið, eins og nú er gert, að einhverri reglu.