Fiskistofa

117. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 18:43:00 (5101)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Hæstv. sjútvrh. hefur kynnt merkileg mál. Við höfum því miður ekki haft tíma til þess að kynna okkur þau sem skyldi. Út af fyrir sig tel ég ekkert athugavert við að ræða þau saman í upphafi og að þau fari til sjútvn. í framhaldsvinnslu. Hins vegar vil ég gera strax fullan fyrirvara um að þau geti öll átt framgang á þessu þingi. Ég tel raunar að það sé nánast útilokað nema, eins og hæstv. sjútvrh. virðist gera, að menn

gefi sér fyrir fram að ekki verði breytingar á fiskveiðistefnunni sem nú er í gildi. Hæstv. sjútvrh. leggur áherslu á það að þessi mál verði komin í gegn þannig að Fiskistofa taki til starfa 1. sept. og það sé mikilsvert. En öll eru þessi mál tengd saman og öll virðast þau byggja á því eða þeirri afstöðu hæstv. sjútvrh. að ekki verði breytingar á fiskveiðistefnunni. Ég hef þá spurningu fram að færa til ráðherrans hvort hann telji ekki að meiri hluti sjútvn. muni vísa einhverju af þessum frv. til umsagnar svokallaðrar tveggja formanna nefndar sem er að vinna að stefnumótun í sjávarútvegi fyrir ríkisstjórnina og hvort hann trúi því að sú nefnd geti veitt umsögn um þessi mál með þeim hætti nú strax þannig að hægt sé að afgreiða þau fyrir þinglok, að hægt sé að afgreiða þau. Eftir því sem sú ágæta nefnd hefur sagt við sjávarútvegsnefndarmenn þá er hún ekki tilbúin með neinar tillögur og verður það í fyrsta lagi í haust og það yrði hugsanlega jafnvel bara áfangaskýrsla sem hún mundi skila þá. Þess vegna verður að gera ráð fyrir því að hugsanlega geti orðið verulegar breytingar á þeim lögum sem yrðu hugsanlega úr þessum frv. sem lögð hafa verið fram.
    Nú má ekki taka þetta þannig að ég sé út af fyrir sig neikvæður eða á móti öllu því sem kemur fram í þessum frumvörpum. Það er af og frá. Sumt er til mikilla bóta að mínu viti og ég mun koma að því nokkuð hér á eftir.
    Mér fannst eiginlega dálítið táknrænt fyrir það hvernig mál hafa skipast að hv. 6. þm. Norðurl. e., sem tók fyrstur til máls eftir að sjútvrh. talaði, virtist hafa langmestan áhuga á því og velta því langmest fyrir sér hvar svonefnd Fiskistofa yrði sett niður. Hann virtist vera nokkurn veginn sammála öllu því sem kemur fram í þessum frumvörpum og taldi reyndar að hans samflokksmaður fyrrv. sjútvrh. hefði átt upptökin að öllu saman. Það kann vel að vera og ekki ætla ég að þræta neitt fyrir það, ég þekki ekki málið nógu vel. Aftur á móti get ég tekið undir það með hv. 6. þm. Norðurl. e. að mér hefur fundist að hæstv. sjútvrh. talaði pínulítið eins og fyrrv. sjútvrh. ágætur og ekki bara í þessu máli heldur í mörgum öðrum sem tengjast sjávarútvegsstjórninni. Mér er ekkert fagnaðarefni að þannig skuli vera. En ég verð að segja það alveg eins og er að það eru mér mikil vonbrigði að hæstv. sjútvrh. skuli leggja í það að koma inn með þessi frumvörp með þessum hætti nánast sem yfirlýsingu um það að hann stefni að óbreyttu kerfi og menn skuli ekki einu sinni bíða með að slá því föstu þangað til menn hafi rætt málin og komið með þau hingað til Alþingis til skoðunar.
    Ég ætla að gera fáeinar athugasemdir við þessi frv. en við munum fjalla um þau í sjútvn. og þar munu auðvitað koma fram fleiri athugasemdir. Ég vil þó hér við 1. umr. benda á það að samkvæmt umsögn fjmrn. virðast menn þar á bæ ekki velkjast í vafa um það að þarna sé á ferðinni veruleg breyting á stjórn þessara mála. Í fskj. III með frv. til laga um Fiskistofu segir, með leyfi forseta:
    ,,Með frv. þessu er ætlað að gera víðtækar breytingar á stjórn og eftirliti fiskveiða. Þetta er liður í gagngerri endurskoðun á stjórnsýslu sjávarútvegs sem verður fylgt eftir með öðrum frv. sem lögð verða fram á þessu þingi.``
    Það var nákvæmlega þetta sem ég taldi að ætti að vera í endurskoðun úti í bæ og ætti að vera til umfjöllunar í sjútvn. a.m.k. þar til tæki að hausta. Ég vil samt sérstaklega að það frumvarp komi til umræðu og ég segi það hér og nú að ég hefði verið tilbúinn að leggja töluvert á mig til þess að menn gætu fundið leið til þess að koma til framkvæmda frv. til laga um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra. Það er mjög tímabært mál og hefði í sjálfu sér ekki þurft að tengja breytingunni yfir í Fiskistofu nema bara vegna þess að hæstv. sjútvrh. vill það við hafa. Hann hefði eins getað komið með það til umræðu í þinginu án þess því að við höfðum í haust flutt till. til þál. um sölumeðferð á ferskum fiski og gæðamál þar sem eindregið var lagt til að farið yrði í þessa vinnu. Mér var sagt við umræðu um það mál, og það er sjálfsagt alveg rétt, að þessi vinna væri hafin og að von væri á þessu frv. Ég fagna því út af fyrir sig en harma að það skuli vera hengt saman við aðra þætti sem munu óhjákvæmilega tengjast endurskoðun fiskveiðistefnunnar.
    Þá kem ég að frv. til laga um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Það er auðvitað líka tengt þessari Fiskistofu og hlýtur það að verða hluti af henni ef hún verður til í framtíðinni. Ég hef engar sérstakar athugasemdir við þær breytingar sem koma þarna fram og hefði talið að þetta frv. hefði líka getað komið til umræðu án þess að vera endilega tengd Fiskistofunni í upphafi og að menn hefðu getað gefið sér tíma til þess að skoða þessi tvö frumvörp saman, þ.e. frv. um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra og frv. um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla --- og án þess að tengja það Fiskistofunni þar sem í því er fólgin sú pólitík sem ég var að ræða hér áðan.
    Fjórða frv. er frv. til laga um stofnun hlutafélags um Ríkismat sjávarafurða. Þar verð ég að gera fleiri athugasemdir en við hin tvö. Ég vil hafa allan fyrirvara um þá hugmynd að stofna hlutafélag um Ríkismat sjávarafurða og sérstaklega við þá hugmynd að heimilt er að selja öll hlutabréfin í félaginu sem mér finnst út af fyrir sig fráleit hugmynd og ætti a.m.k. ekki að koma til umræðu fyrr en einhvern tíma síðar þegar menn sæju fram á að hægt yrði að koma á einhvers konar samkeppni í þessari grein sem þarna er talað um að skapa. Það virðist vera orðinn svo mikill áhugi á því að stofna hlutafélög í öllum mögulegum og ómögulegum tilvikum að maður veit svo sem ekkert á hverju maður á von. Ætli næst komi ekki bara frv. um að stofna hlutafélag um Hæstarétt, þjóðkirkjuna eða Seðlabankann? Ég verð að segja það eins og er að mér finnst þetta ekki eðlilegt. Mér finnst að það hefði átt að koma þessari stofnun á legg, átta sig á því hvernig hún mundi starfa í framtíðinni áður en menn gæfu sér það að þetta yrði hlutafélag sem yrði látið starfa og að öðrum yrði síðan gefinn kostur á því að koma inn í greinina. Ég ætla að vona að þarna verði ekki á ferðinni nýtt Bifreiðaskoðunar-Íslands-mál.
    Annars er fleira í þessu máli sem ég sé ástæðu til þess að vekja athygli á. T.d. er alveg makalaust og furðulegt að sjá að öðruvísi ákvæði skuli vera gagnvart starfsmönnum Ríkismats sjávarafurða í þessu frv. en er í öðrum frumvörpum sem hafa verið lögð hér fram, t.d. Sementsverksmiðju ríkisins og Síldarverksmiðju ríkisins. Enginn vafi er á því að sumum þessara starfsmanna verða boðin sams konar störf í nýja fyrirtækinu eða a.m.k. mjög sambærileg störf og þeir hafa verið í áður. Hvernig ætla menn að forsvara það að samþykkt sé frá hendi ríkisins hér á Alþingi með því að leggja fram mismunandi frumvörp að sumir starfsmennirnir eigi skýlausan rétt á því að fá biðlaun en aðrir ekki? Mér finnst þetta fáránlegt og ég sé ástæðu til þess að mótmæla því. Ég held að menn verði að horfast í augu við að allir starfsmenn ríkisins verða að vera undir sams konar reglum og þó að það sé ekki nema hluti af starfsmönnum Ríkismatsins sem mun fara í sambærileg störf sé ekki hægt að hafa aðra reglu um þá en starfsmenn Sementsverksmiðju ríkisins eða Síldarverksmiðju ríkisins sem það sama mundi gilda um.
    Ég held satt að segja að menn eigi að gá að sér þarna og skoða þetta frv. betur og velta því fyrir sér hvort ekki er rétt að bíða með það að gefa sér fyrir fram að hlutafé verði selt í þessu fyrirtæki og það verði reynt að samræma þessi ákvæði við þau ákvæði lagafrumvarpa sem hafa komið fram. Ég er ekki þar með að segja að ég sé samþykkur þeim frv. sem hafa komið fram en ég tel að a.m.k. sé full ástæða til þess að samræmi sé í hlutunum.
    Það var aldrei meiningin hjá mér að halda langa ræðu um þessi mál núna. Við komum til með að fá nóg tækifæri til þess að ræða þau hér. Ég vil bara endurtaka að ég harma að það skuli vera hugmyndin að þjófstarta í endurskoðun fiskveiðistefnunnar með þessum hætti sem hæstv. sjútvrh. er greinilega að gera. Hann er að reyna að vinna sér einhvers konar stöðu í þessu máli, enda kannski að sumu leyti eðlilegt að hann geri það. Mál hafa verið tekin af borði hans og sett inn í nefnd úti í bæ. Auðvitað vill hann bregðast við með einhverjum hætti og reyna að halda utan um sitt. Þetta er ein af hans aðferðum til þess. Við eigum eftir að sjá hvort hún tekst og verður fróðlegt að fylgjast með því.