Fiskistofa

117. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 18:57:00 (5102)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þetta eru sannarlega stór og mikil mál sem hér eru komin fram og ekki óeðlilegt að skoðað sé hvernig best verði fyrir komið stjórn fiskveiða og öllu sem því tilheyrir í sambandi við allar þær breytingar sem orðið hafa á síðustu árum, sérstaklega síðasta áratug. Ég vil taka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar að það er nokkuð óeðlilegt að koma fram með þetta frv. án þess að það sé í tengslum við mótun fiskveiðistefnu sem e.t.v. verður breyting á við endurskoðun fiskveiðilaga þó að manni heyrist að hæstv. sjútvrh. muni að mestu leyti ætla að fylgja fram stefnu fyrirrennnara síns. Ég vil taka undir að ég tel til bóta að hér verði komið á tveimur stjórnsýslustigum í stjórnun þessara verkefna. Það leiðir aftur hugann að því hvort núv. ríkisstjórn er e.t.v. farin að hugsa um að ekki sé nægilegt að þau stjórnsýslustig sem víðast hvar eru í gildi, þ.e. ríkisstjórn og síðan sveitarfélög, séu ekki nægileg, hvort það vanti þarna stjórnsýslustig á milli sem gæti orðið til bóta. Óskandi að svo væri. Það mun kannski koma fram í tengslum við það þegar frv. um sameiningu sveitarfélaga verður rætt en þetta frv. er auðvitað alls ekki hægt að ræða að neinu marki og ég ætla ekki að eyða neinum tíma í það hér.
    Sumt af því sem ég hef verið að velta fyrir mér er komið fram eins og það að ég hef mjög miklar efasemdir um það að breyta Ríkismati sjávarafurða í hlutafélag og selja þau hlutabréf. Ég tel að þar sé farið út á nokkuð hættulega braut vegna þess að hætt er við því að Ríkismatið hafi ákveðna einokun á því sviði sem því er ætlað að sinna. Dæmið um Bifreiðaskoðun Íslands er öllum í fersku minni og þarf ekki að tíunda það nánar.
    Ég vil einnig spyrja um störf sem hingað til hafa verið á vegum þeirra stofnana sem á að sameina í Fiskistofu. Ýmist hafa útibú verið starfandi úti á landi eða einn maður starfandi á nokkrum stöðum um landið og m.a. hefur það gerst að einhver hefur hætt störfum vegna aldurs eða annars og ekki verið ráðið í hans stað. Þar er nærtækt dæmið um Ríkismat sjávarafurða á Ísafirði en þar var starf lagt niður eftir að maður sagði upp vegna aldurs og starf hans fært til stofnunarinnar í Reykjavík. Þess vegna koma upp efasemdir þegar sameina á svo margar stofnanir í eina. Hvaða störf leggjast af og hvar eru þau?
    Einnig má spyrja hvert hlutverk Fiskifélagsins verði ef frv. verður að lögum. Fiskifélagið er frjálst félag og hluta af verkefnum þess er ætlað að fara inn í Fiskistofu. Þá má spyrja hvert hlutverk þess verði eftir það. Er sú tölvuvæðing sem hefur verið í samstarfi sjútvrn. og Hafrannsóknastofnunar við úrvinnslu á aflatölum ekki að einhverju leyti það starf sem Fiskifélagið hefur líka sinnt á undanförnum árum?
    Veiðieftirlit ríkisins verður einnig sameinað. Það hefur líka haft starfsmenn úti um landið og sama spurning um það, þ.e. hvort starfsmönnum muni fækka. Áætlað er að starfsmenn Fiskistofu verði 60 á árinu 1993. Ég hef ekki séð tölur um það hversu margir starfsmenn eru hjá þessum stofnunum núna en í umsögn um frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um Ríkismat sjávarafurða segir, með leyfi forseta:
    ,,Vakin skal athygli á að í frumvarpi þessu er ekkert ákvæði þess efnis að þeir starfsmenn sem hverfa frá Ríkismati sjávarafurða til hins nýja hlutafélags fái ekki biðlaun.``
    Það er sem sagt reiknað með því að fækkun verði á starfsmönnum Ríkismatsins og þó einhverjir þeirra fari e.t.v. til hins nýja hlutafélags er það ekki ákveðið fyrir fram. Greinilegt er að talsverður kostnaður verður hjá ríkissjóði vegna þessarar fækkunar starfsmanna og hér er sagt að ætla megi að sú fjárhæð sem starfsmenn fá í biðlaun geti numið allt að 8--12 millj. kr. og til viðbótar því þurfi ríkissjóður að greiða 16,4% ofan á laun starfsmanna árlega til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Þarna mun því vera um talsverðan viðbótarkostnað ríkissjóðs að ræða vegna breytinga á Ríkismati sjávarafurða í hlutafélag. Og starfsmenn munu eftir sem áður halda áunnum réttindum sínum. Í sjálfu sér er ekkert nema gott um það að segja en ég sé bara ekki alveg tilganginn með því að leggja niður Ríkismatið og breyta því í hlutafélag. Það mun auka kostnað ríkisins og verða til þess að starfsmönnum verður sagt upp. Það getur einnig valdið því að hlutafélagið fái einokunaraðstöðu og því sé ég mjög marga galla á að breyta Ríkismati sjávarafurða í hlutafélag.
    Þessar vangaveltur koma upp þegar maður flettir frv. og eftir að hafa hlustað á hæstv. sjútvrh. áðan.
    Eins og ég sagði í upphafi er margt gott um frv. að segja. T.d. það að skipta upp

stjórnsýslunni því óeðlilegt er að heimild til reglna og fyrirmæla sé á sama stað og daglegar framkvæmdir og eftirlit. Það hefur mjög verið gagnrýnt á undanförnum árum og ég tel þá breytingu til bóta. Hins vegar hef ég vissar efasemdir um að hér er verið að setja á fót nýja stofnun. Ég hélt að það væri ekki í sigtinu hjá hæstv. ríkisstjórn að setja á fót fleiri nýjar stofnanir. Mér hefur skilist að draga ætti úr öllum framkvæmdum og ekki ráða í störf þegar menn hætta. Þess vegna hélt ég að það ætti heldur ekki að setja á fót nýjar stofnanir sem trúlega taka til sín fjármagn af takmörkuðu fjármagni ríkissjóðs.
    Þetta eru helstu hugleiðingarnar. Ég tek undir það sem hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði áðan og kemur heim og saman við þær hugmyndir sem ég hef verið með í sambandi við flutning ríkisstofnana út á land. Ég tel ekki raunhæft að taka stofnanir og flytja þær út á land heldur tel ég að þegar verið er að setja á fót nýjar stofnanir, sérstaklega stofnanir sem tilheyra atvinnuvegunum í landinu, eigi þær heima úti á landsbyggðinni. Þar hafa stjórnvöld tækifæri til þess að koma til móts við þær óskir sem mjög eru á lofti í þjóðfélaginu að fleiri störf í opinberri stjórnsýslu verði ekki til á Reykjavíkursvæðinu, heldur verði þeim komið fyrir utan höfuðborgarsvæðisins.
    Annars geri ég ráð fyrir að öll þessi frv. fái mjög góða umfjöllun í sjútvn. Ég mun sitja þar sem áheyrnarfulltrúi næstu vikur í fjarveru hv. þm. Önnu Ólafsdóttur Björnsson og mun þá fylgjast frekar með og koma athugasemdum á framfæri sem verða sjálfsagt fleiri.