Fiskistofa

117. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 19:09:00 (5103)

     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Það er rétt eins og komið hefur fram að samkomulag hefur verið gert um það að stilla máli manna mjög í hóf og reyna að verða við þeim tilmælum að ljúka umræðunni nú og koma frv. til nefndar. Vissulega er það rétt að skammt er síðan málið kom fram. Af þeim sökum m.a. hefur mönnum ekki unnist sá tími sem æskilegur væri til þess að skoða málið og velta því fyrir sér.
    Hins vegar vekur það athygli mína þegar menn eru að fjalla um stjórn fiskveiða að í hinu ágæta húsi okkar munu nú vera einir sex stjórnarþingmenn. Einhvern tímann hefði verið gerð athugasemd við slíkt þegar um jafnyfirgripsmikið mál hefur verið að ræða. Við stjórnarandstæðingar látum það hins vegar ekki á okkur fá og sitjum hér. ( Gripið fram í: Hvað eru þið margir?) Við erum a.m.k. fjórir í húsinu, síðast þegar ég vissi. Við viljum verða við því að koma málinu áleiðis.
    Það hefur komið á daginn að sá rammi sem menn höfðu smíðað um stjórnun fiskveiða hefur dugað býsna vel. Hér hefur komið fram, nú síðast í orðum hæstv. sjútvrh., að fiskveiðistjórnunin sem slík er farin að skila verulegum ávinningi og er það vissulega til að gleðjast yfir. Menn voru ekki í vafa um slíkt þegar þessi lög voru sett á sínum tíma. Hins vegar var mönnum jafnframt ljóst að vissa annmarka þyrfti að sníða af og eru nú einmitt að reyna að bæta við og raða ýmsum þáttum atvinnugreinarinnar inn í þann ramma sem smíðaður var um þennan mikilvæga málaflokk.
    Hins vegar er ljóst og ábyggilega farsælt fyrir framgang málsins að því verði gefinn nægur tími í meðferð þingnefnda. Ég teldi það mikið óráð ef nefndin gæfi sér ekki allan þann tíma sem hún þyrfti til þess að fara yfir málið og ég trúi því ekki að það nái fram og horfi til heilla fyrir atvinnugreinina nema að þeir verði kallaðir til sem búa og starfa í greininni fái að segja álit sitt á þessu. Ég legg áherslu á að allir verði sæmilega sáttir við þær reglur sem settar verða. Ég held að það sé stóra málið. Þegar lögin um stjórn fiskveiða voru sett var það gert þó svo að athugasemdir þá hafi verið margar og miklar. Engu að síður er það staðreynd að ótrúlega víðtæk samstaða náðist um það hjá þeim aðilum sem búa við það.
    Vegna þess hve skamma stund málið hefur verið í þingsölum er ljóst að af þeim sökum m.a. mun það taka lengri tíma í meðferð þingnefnda og einnig í 2. umr. Fyrir sjálfan mig get ég sagt að þar sem ég á sæti í sjútvn. er ég tilbúinn að leggja vinnu af mörkum til þess að skoða og rannsaka málið af mikilli kostgæfni. Vissulega er okkur vandi á höndum þegar um svo yfirgripsmikla grein eins og sjávarútveginn er að ræða og mikilvægt að okkur takist að smíða þá löggjöf sem allra best.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að bregðast því sem um var samið og get þess vegna ekki farið yfir frv. eins og ég hefði þó annars kosið að gera hér og nú vegna þess að það yrði mjög langt mál. Engum sem um málið fjallar dylst að um gífurlega róttækar breytingar á stjórnun og eftirliti með fiskveiðum er að ræða. Það fer ekki fram hjá neinum sem les frumvörpin.
    Ég get nú sagt það svona í gamni og nokkurri alvöru að ég veit alveg hvað hefði verið sagt ef Framsfl. hefði borið fram þessi fjögur frv. Það hvarflar ekki að mér að taka slíkt upp í mig hér og nú vegna þess að sjútvrh. kemur úr öðrum flokki. En ég get kannski komið með smá blaðagreinar fyrrverandi þingmanna Sjálfstfl. um þessi mál. Í þeim blaðaskrifum var ekki farið mjúkum höndum um okkur þingmenn Framsfl. Því miður er ekki tími til þess að fjalla ítarlega um þetta.
    Ég tek undir það sem sagt var um Ríkismatið áðan, ég held bæði af hv. þm. Jóhanni Ársælssyni og Jónu Valgerði Kristjánsdóttur. Þar er um mikið mál að ræða og það þarf að skoða af mjög mikilli kostgæfni ekki síður en hin málin. Ekki bara vegna þess að verið er að breyta Ríkismatinu í hlutafélag heldur fremur virkni stofnunarinnar, fyrst og fremst um það hvernig hún muni virka.
    Virðulegi forseti. Ég skal ljúka máli mínu. Áður en ég fer héðan vil ég þó segja að ég held að ástæða sé til þess að ríkisstjórnin geri sér grein fyrir þeim mikla vanda sem við er að fást í skilgreiningu á eftirlaunaréttindum starfsmanna hinna ýmsu fyrirtækja sem lagt er til að breyta. Ég held að engir axarskaftasmiðir megi koma að þeirri smíði. Það er alvarlegt mál hvernig með þau verður farið. Þetta er í mörgum málum sem eru nú til meðferðar um réttindi þessa fólks og hreint ekki sama hvernig með þau verður farið.