Fiskistofa

117. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 19:18:00 (5104)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. v., Stefán Guðmundsson, talaði um að hér væru á ferðinni gífurlega róttækar breytingar. Annars staðar í ræðu sinni sagði hann að ramminn hefði dugað vel, þ.e. ramminn um fiskveiðistjórnun. Ég get ekki setið á mér að benda á þetta. Með því sem lagt er til að verði gert eru menn auðvitað að viðurkenna að þetta hefur ekki verið í lagi. Það hefur ekki verið í lagi að mönnum sé skammtað frá sömu stofnun og dæmir þá ef þeir fara ekki eftir reglunum. Að sama stofnun setji reglurnar og dæmi menn ef þeir fara ekki eftir þeim. Með þessum frv. er auðvitað verið að bregðast við þeirri gagnrýni eins og hæstv. sjútvrh. sagði.
    Hv. þm. Stefán Guðmundsson sagði líka að ótrúlega góð samstaða hefði verið um fiskveiðistefnuna. Ég verð að taka undir það með honum. Hún var það góð að það dugði til þess að koma henni í framkvæmd. Eftir á að hyggja og eftir að hafa séð hvernig allt hefur gengið er alveg óhætt að taka undir það með hv. þm. Stefáni Guðmundssyni að samstaðan um þessa vitleysu var ótrúlega góð.