Dýrasjúkdómar

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 10:54:00 (5113)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi fagna ég því að þetta frv. er komið fram. Ég held að öllum sem eitthvað hafa kynnst framkvæmd þessara mála á undanförnum árum sé ljóst að endurskoðun lagaákvæða á þessu sviði var löngu orðin tímabær. Til marks um það geta menn lesið 31. gr. frv. og skoðað aldur þeirra lagaákvæða sem frv. er ætlað að koma í staðinn fyrir. Má þar nefna lög nr. 3 frá 1902, lög nr. 25 frá 1923 og lög nr. 11 frá 1928, svo dæmi sé tekið. Sum þessara lagaákvæða hafa staðið, að ég best veit, lítt eða ekkert breytt frá því þau voru sett við allt aðrar aðstæður en nú eru. Á margan hátt hefur það einnig torveldað framkvæmd þessara mála að lagaákvæði um sjúkdómavarnir hafa verið dreifð og þau hefur verið að finna á mörgum stöðum. Einnig hefur skort samræmingu og samræmda yfirstjórn þessara mála. Frv. bætir úr því og sú leið hefur orðið fyrir valinu að færa verkefnin í heild sinni undir yfirdýralæknisembættið. Ég er þeirri tilhögun sammála. Ég held að það geti tæpast verið deiluefni að á þeim stað er þessi málaflokkur best kominn og það ætti að geta auðveldað ýmislegt í framgangi þessara mála. Ég tel eðlilegt að málin séu á hendi yfirdýralæknis og heyri beint undir landbrn. en sjálfstæðar nefndir og stjórnir fari ekki með einhverja hluta af þessum málefnum. Með þessu er ekki á nokkurn hátt verið að kasta rýrð á þá aðila sem á undanförunum árum og áratugum hafa sinnt verkefnum á þessu sviði. Ég dreg það ekki í efa að menn hafi samkvæmt bestu samvisku og eftir efnum og ástæðum reynt að gera vel. Í samræmi við stjórnsýslu annars staðar og breytta tíma held ég að það sé löngu tímabært að endurskoða þessa skipan mála.
    Í þriðja lagi vil ég nefna það sem kannski er stærst í þessum málum og lýtur að bótagreiðsluákvæðum. Með frv. er um samræmingu allra bótagreiðsluákvæða að ræða og er það meira en tímabært vegna þess að ekki er forsvaranlegt hversu mönnum hefur í raun og veru verið mismunað á grundvelli mismunandi lagaákvæða fram að þessu. Nú verða bótagreiðsluákvæði samræmd fyrir allt búfé og ekki gert upp á milli þar þó svo að það eigi eftir að skilgreina og útfæra í reglugerð hvernig bætur verði ákvarðaðar í hverju tilviki og gagnvart hverri tegund. Fram að þessu og samkvæmt gildandi lagaákvæðum hefur þarna verið um mikið misræmi að ræða. Í sumum tilvikum hafa verið greiddar fullar bætur miðað við verðgildi afurða og jafnvel rekstrartap, en í öðrum tilvikum hefur nánast um engar slíkar bætur verið að ræða þó svo um fyrirskipaðar aðgerðir í þágu sjúkdómavarna hafi verið að ræða. Auðvitað er ekki hægt að láta standa við svo búið. Þess vegna fagna ég því sérstaklega að með frv. og VI. kafla þess, sem er um kostnað vegna sjúkdómavarna og bætur þegar um aðgerðir samkvæmt fyrirmælum ráðherra eða yfirdýralæknis er að ræða, eru slík samræmd ákvæði komin inn í lögin. Þar er að vísu talsverð vinna eftir sem mikilvægt er að fylgi frv. eða lagasetningu af þessu tagi. Ég á við að setja verður ítarlega reglugerð um útreikning eða vinnureglur varðandi útreikning bóta í hverju tilviki. Fyrir vel heppnaða framkvæmd þessara mála er satt best að segja ákaflega brýnt að skýrar og ítarlegar reglur liggi fyrir áður en til þess getur komið í einstökum tilvikum að fyrirskipa þurfi förgun búfjár í þágu sjúkdómavarna.
    Ég hygg að hv. alþm. þekki það að fá mál ef nokkur eru jafnviðkvæm og þær aðgerðir, af skiljanlegum ástæðum, að fyrirskipa niðurskurð eða útrýmingu á búfé, jafnvel ræktuðum stofnum sem mikil verðmæti eru í. Þar er oft og tíðum bæði um fjárhagslega og tilfinningalega viðkvæm mál að ræða. Ég held að öllum sé fyrir bestu og tryggi best sæmilegan frið og farsæla framkvæmd þessara mála að skýrar vinnureglur liggi fyrir í lögum og reglum sem tiltaki réttarstöðu málsaðila þegar þannig ber undir.
    Í fjórða lagi vil ég nefni mikilvægt atriði. Samkvæmt ákvæðum frv. er ekki, nema síður sé, gert ráð fyrir að slakað verði á takmörkunum á innflutningi búvara eða matvöru til að tryggja sjúkdómavarnir eða verjast smitsjúkdómum erlendis frá. Í 10. gr. frv. er skilgreint nánar en verið hefur í lögum hvaða vörur það eru sem óheimilt er að flytja til landsins og hvaða takmarkanir aðrar gilda í þessum efnum. Þetta atriði er ákaflega mikilvægt m.a. vegna yfirstandandi samningaviðræðna á alþjóðavettvangi um viðskipti með landbúnaðarvörur. Ég vil láta þá skoðun mína í ljós að ég held að það væri að mörgu leyti mjög æskilegt að takist að lögfesta þessi ákvæði á yfirstandandi þingi og afgreiða frv. allt, ekki síst þessi ákvæði. Það getur tæpast verið nema til bóta hvað löggjöf okkar snertir að við göngum frá þessum hlutum með alveg skýrum hætti.
    Fjölmargt fleira mætti nefna af efnisatriðum þessara mála sem gæti orðið tilefni mikilla umræðna, t.d. hina viðamiklu aðgerð til þess vonandi að ráða niðurlögum riðunnar sem staðið hefur yfir á undanförnum árum og kostað hefur hundruð milljóna króna ef ekki milljarða. Menn geta í öllu falli haft til marks um það hversu mikilvæg mál og kostnaðarsöm geta verið á ferðinni í formi útgjalda fyrir ríkissjóð þó hitt sé enginn vafi að þeim peningum er vel varið ef þeir mega verða til þess að afstýra öðru og enn meira tjóni sem það auðvitað er að búa við smitsjúkdóma eða hafa þá grasserandi í landinu.
    Ég fagna sem sagt frv. og lýsi í meginatriðum yfir stuðningi við efni þess. Ég vona og tel fulla ástæðu til að Alþingi reyni að haga vinnu sinni þannig að málið verði afgreitt og gert að lögum á yfirstandandi þingi.