Lax- og silungsveiði

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 11:34:00 (5117)

     Jón Helgason :
    Herra forseti. Hæstv. landbrh. hefur mælt fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði og samkvæmt skýringu hans er tilgangur þessa frv. tvíþættur. Í fyrsta lagi að auka tekjur Fiskræktarsjóðs með bættri innheimtu og í öðru lagi að bæta við hlutverk hans að kaupa upp úthafslaxveiðikvóta. Það eru að sjálfsögðu flestir eða allir sammála um mikilvægi þess að koma í veg fyrir laxveiðar í sjó þannig að sú ræktun sem fram fer í ám skili sér aftur til baka en hverfi ekki út í hafsauga. En það kom ekki fram í máli hæstv. ráðherra hvort þeirri tekjuaukningu, sem gert er ráð fyrir að ná með setningu reglugerðar, sé ætlað að nægja til að sinna þessu nýja hlutverki eða hvort þetta muni verða á kostnað annarra verkefna sem Fiskræktarsjóður hefur annast hingað til og væri æskilegt að fá upplýsingar um það hjá hæstv. ráðherra.
    Í öðru lagi kemur það ekki fram í frv. hvort þetta hafi verið borið undir hagsmunaaðila eða hverjir hafi fjallað um samningu þessa frv. Á búnaðarþingi sem er nú nýlokið var fjallað um breytingar á lögum um lax- og silungsveiði og þá var ekki kunnugt um undirbúning þessa frv. Þar var hins vegar bent á tvö atriði sem beint var til landbrh. að taka til athugunar í sambandi við endurskoðun á lögum um lax- og silungsveiðar. Í fyrsta lagi að rýmka veiðiheimildir í einstökum ám þannig að veiðitími geti verið sveigjanlegri og miðast við það hvenær fiskur gengur í árnar. Sums staðar er það svo að fiskur gengur svo seint að sumri upp í árnar að veiðitíma er rétt að verða lokið eða alveg lokið og þá nýtist að sjálfsögðu lítt sá fiskur þegar ekki má lengur veiða hann. Stofninn er þó að mati fiskifræðinga a.m.k. stundum miklu stærri en þarf til að viðhalda náttúrulegu klaki.
    Í öðru lagi er síðan bent á nauðsyn þess að setja inn í lög ákvæði varðandi tökubúnað hafbeitarstöðva. Það mun sums staðar hafa valdið nokkrum ágreiningi hvernig með það skuli fara og því nauðsynlegt að setja ákvæði um það inn í lög og það má segja að það tengist að nokkru leyti öðru atriði þessa frv. Ég tel því nauðsynlegt að landbn. skoði þetta mál vandlega og vænti þess að hún athugi þá þær ábendingar um breytingar á lögum um lax- og silungsveiði sem komu frá búnaðarþingi og hvort hún telji sér fært að taka þær inn í þetta frv.