Skálholtsskóli

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 12:15:00 (5123)


     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Margir fögnuðu því þegar hæstv. kirkjumálaráðherra skipaði nefnd til þess að kynna sér starfsemi Skálholtsskóla og gera tillögur um framtíðarskólarekstur á staðnum. Áhugamenn um Skálholt hafa talið það mikilvægt að staðurinn rísi til enn meiri virðingar í okkar samfélagi og að menn nái þar þeim árangri sem fylgdi gjöfinni í upphafi þegar biskupinn yfir Íslandi gaf íslensku þjóðinni þennan stað og mælti svo fyrir að þar skyldi biskupssetur vera og menningarstaður. Saga Skálholts er náttúrlega svo merk í gegnum söguna en mörgum okkar sem höfum áhuga fyrir því að staðurinn rísi upp til mikillar sóknar hefur þótt það vera tafsamt. Auðvitað kemur það fram í greinargerð með þessu frv. að því miður hafa menn ekki náð þeim árangri að gera staðinn að verulega lifandi mennta- og menningarsetri sem menn vildu sjá hann færast í.
    Það frv. sem hér liggur fyrir er því miður í mínum huga brennt því marki að þar hafa menn samið fallegan stíl um göfug markmið sem mér sýnist að kannski verði erfitt að fylgja eftir. Þess vegna er það mikilvægt að Alþingi vinni frv. vel. Ég held að það sé mikilvægt sem hér kom fram að það verði ekki bara allshn. heldur einnig menntmn. sem fjalli um þetta frv. og komist að einhverri niðurstöðu.
    Ég var að ræða við skólamenn í gær þar sem það kom glöggt fram að merkur háskóli sem mark er tekið á í norrænu samstarfi, búvísindadeildin á Hvanneyri, styðst ekki við nein lög heldur skipunarbréf og fjórar línur frá ráðherra. En skólinn hefur þó náð fullri virðingu og þar er lifandi starf. Það er enginn vafi þegar menn byggja skólahús og stofna skóla að þá verður skólinn að eiga sér markmið og í nútímasamfélagi verður hann að gefa einhver réttindi, hann verður að vera staddur einhvers staðar í menntakerfinu. Þannig skóla vil ég sjá í Skálholti.
    Ég hef haldið því fram lengi að í rauninni muni Skálholt ekki rísa til þeirrar virðingar fyrr en kirkjan á Íslandi og Alþingi Íslendinga komist að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að biskupinn yfir Íslandi skuli sitja í Skálholti. Og enn fremur að við breyttar aðstæður taki menn þá ákvörðun að guðfræðinámið, sem nú fer fram við háskólann, skuli einnig færast í Skálholt. Ég hefði viljað spyrja hæstv. kirkjumrh. og formann nefndarinnar, hv. þm. Láru Margréti Ragnarsdóttur, hvort þessar hugleiðingar um endurreisn Skálholts í þessum vanda hafi verið ræddar. Við skulum gera okkur grein fyrir því að tímarnir hafa breyst og samgöngurnar hafa breyst, þannig að aðstaðan er allt önnur. Ég hygg að það gæti verið hagkvæmt fyrir íslenska ríkið að byggt væri yfir guðfræðideildina í Skálholti. Það eru yfir 80 manns í guðfræðideildinni í dag og aðsókn hefur verið vaxandi á þessu hausti. Og eins og ég sagði, samgöngurnar hafa breyst. Hér eru reknir háskólar sem gefast afar vel, eins og t.d. háskólinn á Bifröst í Borgarfirði. Ég sá fróðlegan þátt í sjónvarpi þar sem var rætt við nemendur og forráðamenn þess skóla. Hann virðist gefast afar vel með þessu sniði og allir, bæði nemendur og kennarar, eru mjög ánægðir með það starf sem þar fer fram. Ég sæi það fyrir mér að svo gæti einnig verið um Skálholt ef menn þyrðu að taka þessa ákvörðun og ef kirkjan vildi efna það sem gefandinn að þessum mikla stað lét fylgja gjöfinni, að þar skyldi biskup sitja um aldir. Um þetta vildi ég spyrja því ég held að það geti ráðið úrslitum um endurreisn Skálholts hvort menn stíga þessi skref.
    Hvað þetta frv. varðar frekar þá kemur það t.d. ekki fram, sem hefði verið mikilvægt í greinargerðinni, að sjá hversu margir hefðu sótt ráðstefnur og numið við skólann á þessu tuttugu ára tímabili. Það hefði verið fróðlegt og auðvitað efast ég ekki um að formaður nefndarinnar hefur þær upplýsingar en aðeins er fullyrt í greinargerðinni að starfsemin síðustu ár, sem einkum hefur verið í formi ráðstefnuhalds og námskeiða, hafi verið öflug. Ég vil spyrja um það hver aðsóknin hefur verið og eins hefði verið fróðlegt að vita um aðsókn að skólanum í gegnum tíðina.
    Ég vil leggja á það áherslu að finna skólanum í Skálholti stað í menntakerfinu og að hann sé vel staddur hvað réttindi og annað varðar. En fyrst og fremst er mér það efst í huga sem ég vildi hér koma á framfæri: Ég sé ekki að menn endurreisi Skálholt til þeirrar virðingar sem staðnum ber fyrr en þeir taka þá ákvörðun að biskupinn yfir Íslandi sitji þar og að guðfræðideild háskólans verði þar einnig.