Skálholtsskóli

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 12:59:00 (5124)


     Lára Margrét Ragnarsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að frv. skuli vera til umfjöllunar í dag og ég vil fá að þakka þá málefnalegu umræðu sem var í morgun um frv.
    Í frv. er viðurkennd sú staðreynd að rekstur skólans hefur breyst á undanförnum árum frá því að vera hefðbundinn lýðháskóli í kirkjulega menningar- og menntastofnun sem byggir á grunni fornrar skólahefðar í Skálholti og norrænnar lýðháskólahefðar. Markmið skólans, eins og fram kom í morgun, verður að efla tengsl kirkju og þjóðlífs og stuðla að sem víðtækustum áhrifum kristinnar trúar og kristinnar menningar í landinu.
    Af þessum ástæðum hefur verið lagt til að skólinn verði framvegis alfarið undir stjórn og á ábyrgð kirkjuráðs og þess vegna, eðli málsins samkvæmt, flytjist hann frá menntmrn. til kirkjumrn. Til staðfestingar nýju fyrirkomulagi og til þess að skilgreina aðeins nánar fyrirhugaða starfsemi í framtíðinni, eru tilgreind þrjú svið sem skólinn, eins og sagt er, skal einkum starfa á, þ.e. það er ekki bundið við þessi þrjú

svið og verið er að reyna að þróa þarna ákveðna grasrótarstarfsemi þar sem þess er vænst að starfsemin þróist með árunum í takt við tímann og þær óskir sem fram koma um nýja starfsemi skólans.
    Í fyrsta lagi er um að ræða guðfræðisvið. Þar á m.a. að fara fram endurmenntunarnámskeið fyrir presta og aðra starfsmenn kirkjunnar og hluti af starfsþjálfun guðfræðikandídata ásamt ráðstefnum um málefni kirkjunnar og kristinnar trúar.
    Í öðru lagi er talað um kirkjutónlistarsvið. Því er ætlað að fegra og efla tónlistarlíf í íslenskum kirkjum. Sviðinu tilheyra m.a. sumartónleikar ásamt organista- og kóranámskeiðum á vegum söngmálastjóra kirkjunnar, æfingabúðir kirkju- og barnakóra og fleira sem gæti rúmast undir því.
    Síðan er það fræðslusvið. Því er ætlað að ná til almennings með hvers konar námskeiðum og fræðslu m.a. í samvinnu við fræðslu- og þjónustudeild kirkjunnar. Meðal þeirra námskeiða sem fyrirhuguð eru, eins og segir í athugasemdum með frv., eru námskeið um trúfræðslu og kyrrðardagahald. Það hefur verið rætt um hjónanámskeið, sem hafa verið vinsæl innan kirkjunnar, og einnig námskeið um þjóðlegan menningararf Íslendinga, m.a. um bókmenntir og fleira.
    Þess er líka vænst að skólahald, en skólinn hefur verið rekinn með lýðháskólastigi á undanförnum árum, rúmist þarna innan þess sem ákvarðanir verða teknar þar um og þau verkefni sem þróast á þeim vettvangi. Ágætt samstarf og samvinna og tengsl hefur verið við lýðháskóla á Norðurlöndum og því var talið rétt að slíta ekki tengsl við þá skóla.
    Í sambandi við fjármögnun kemur fram að gerður hefur verið samningur um rekstur skólans milli kirkjuráðs annars vegar og kirkjumrh., menntmrh. og fjmrh. hins vegar. Þar er gert ráð fyrir ríkisframlagi á ársgrundvelli að upphæð um 4 millj. kr. og allt að 2 millj. að auki til jafns við sjálfsaflafé skólans. Það þýðir að með þessu er verið að hvetja skólann til að afla fjár sjálfur til þeirra verkefna sem eru umfram framlög og munu kosta meira en það sem ríkið leggur til skólans.
    Enn fremur er gert ráð fyrir, eins og nefnt var áður, að stjórn skólans sé í höndum sjö manna skólaráðs undir forustu vígslubiskups, sem hefur yfirumsjón með starfi þar í umboði biskups og kirkjuráðs, enda er það svo að vígslubiskup mun setjast að í Skálholti og þótti eðlilegt að hann hefði forustu í þessum málum.
    Vegna ábyrgðar kirkjuráðs þótti rétt að það skipaði að öðru leyti fulltrúa í skólaráðið, fimm af sex samkvæmt tilnefningu. Einnig þótti rétt að guðfræðideildin kæmi þar með einn fulltrúa og Collegium Musicum, sem staðið hefur með miklum ágætum að sumartónleikunum og annarri tónlistarstarfsemi í Skálholti á undanförnum 16 árum, tilnefndi fulltrúa í skólaráð. Biskup Íslands ætti síðan fulltrúa í skólaráði sem yrðu þá tengsl inn í fræðslu- og þjónustudeild kirkjunnar. Þessir aðilar yrðu, eins og áður er sagt, eins konar tengiliðir inn í hvert svið.
    Ég ætla aðeins að víkja að þeim spurningum sem fram komu hér í morgun. Eins og ég sagði áðan var talið að skólinn ætti að verða kirkjuleg menningar- og menntastofnun og heyra undir kirkjuráð. Því þótti eðlilegt að skólinn félli undir kirkjumálaráðuneyti og af þeim ástæðum, hv. 4. þm. Austurl., var þetta lagt til í frv.
    Skólanefnd var höfð með í ráðum, m.a. með því að þáv. rektor skólans, séra Sigurður Árni Þórðarson, og séra Þorbjörn Hlynur Árnason, sem er fulltrúi í skólanefndinni, komu á fund nefndarinnar og ræddu um sínar hugmyndir og hugmyndir skólanefndar um framhald á starfi Skálholtsskóla auk þess sem fulltrúar skólans komu óformlega á fund formanns nefndarinnar og var þá rætt um starfsemi skólans. Enn fremur var leitað til fyrrv. rektors skólans, séra Heimis Steinssonar, og hugmyndir frá honum til framhald skólans voru einnig ræddar.
    Fræðslusviðið er haft býsna opið vegna þess að við væntum þess að starfið þróist á næstu árum í markvissa átt og þeir aðilar, sem koma að starfi sviðanna, muni þá verða driffjöðrin í því starfi sem verður þarna á næstu árum auk þess sem þeir, sem hafa áhuga á þessu starfi, geta hugsanlega komið þar inn ef þannig stendur á. Það er ljóst að í framtíðinni og á næstunni mun nefndin beita sér að frekari verkefnum. Skálholtsskóli hefur verið forgangsverkefni og það var ljóst fljótlega eftir að nefndin tók til starfa að úrlausnir í málefnum skólans yrðu að vera forgangsverkefni. Nefndin mun áfram vinna að ýmsum þeim verkefnum sem hún hefur rætt um fram að þessu. Þar kemur m.a. inn í deiliskipulag Skálholtsstaðar, fornminjauppgröftur, skrásetning örnefna sem eru á staðnum, skógrækt, safnahlutverk Skálholts, gönguleiðir, þjónusta við ferðamenn ekki síst, önnur nýting jarðarinnar svo sem landbúnaður og nýting jarðhita, hlutverk sumarbúða og annað það sem tilheyrir staðnum. Þetta er því mjög viðamikið starf sem fram undan er og Skálholtsskóli ekki nema einn áfangi í því starfi. Í greinargerð með frv. leggur nefndin til að frv. verði að lögum og verði lögin endurskoðuð um leið og samningurinn. Það er m.a. gert til þess að tryggja að starfsemi skólans þróist í takt við eðlilegar áherslubreytingar á þessu tímabili. Að sjálfsögðu er það skólans í framtíðinni að ákveða nánar innri stjórnun skólans og hvernig hann aflar sér þess sjálfsaflafjár sem honum ber. Samningarnir fela í raun og veru í sér hvatningu til að skólinn vinni á þann hátt.
    Ég held að fram séu komin svör við spurningum hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur. Enn fremur vil ég benda á að við höfum rætt fleiri atriði og ýmsa möguleika á því hvernig byggja megi upp Skálholtsskóla og við munum reyna að vinna þannig að lokaskýrslu okkar að þarna verði fundin lausn sem við leggjum til að verði unnið að í áföngum. Mjög náið og gott samstarf hefur verið í nefndinni um þau málefni sem fjallað hefur verið um. Það sama gildir um undirbúning þessa frv. sem nefndin varð síðan einhuga um.

Þess vegna erum við nefndarmenn sannfærðir um að ný lög um Skálholtsskóla gætu ekki aðeins haft í för með sér gerbreytingu á starfi skólans heldur er einnig vonast til að þessar breytingar á starfsemi í Skálholti verði þannig að í Skálholti muni mönnum auðnast að halda á áfram þeim glæsta ferli staðarins sem þar hófst fyrir hartnær 1000 árum.