Skálholtsskóli

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 13:10:00 (5125)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér erum við að ræða um framtíð Skálholtsskóla og Skálholtsstaður hlýtur að tengjast því máli. Það er áreiðanlega öllum landsmönnum mjög hugfólgið að Skálholt eigi framtíð fyrir sér og þá ekki síst með veglegu skóla-, námskeiða- og ráðstefnuhaldi þar á staðnum. Ég tel að þróunin í þessum málum undanfarin ár hafi valdið því að við erum í dag að ræða frv. til laga um Skálholtsskóla. Staðreyndin er sú að þótt allar góðar óskir og allar góðar hugmyndir væru á lofti í sambandi við lýðháskólaformið hefur það ekki gengið. E.t.v. er hluti af skýringunni, eins og komið hefur hér fram, tilkoma fjölbrautaskólanna en þeim hefur verið að vaxa fiskur um hrygg.
    Hér er aftur á móti farið út í það að sérstaklega verði um nýja stofnun fyrir kirkjuna að ræða og það tel ég engan veginn óeðlilegt þar sem staðurinn tengist kirkjusögu. Kirkjan var frumkvöðull í menntamálum fyrr á öldum og því er ekki óeðlilegt að hún hafi sína eigin skólastofnun. Ég tel að frv. sé tilraun til að taka á þeim vanda sem þarna hefur skapast frá því að skólinn tók til starfa. Það tekur á því máli sem snýr að mótun hlutverks skólans sem þarf að vera skýrt. Það þarf að vera alveg skýrt hvernig stjórnun skólans á að vera, hvers konar starfsemi á að fara þar fram. Að vísu eru í 3. gr. nefnd þrjú svið sem gera það að verkum að það er mjög opið hvernig sú starfsemi muni verða. Ég tel það ekki vera galla á frv. því að þessi starfsemi verður að mótast. Það tekur mið af því sem verið hefur að gerast en starfsemin mun halda áfram að mótast. Það er því ágætt að skólinn hafi nokkurt frjálsræði í þessum efnum.
    Í 4. gr. er rætt um að kirkjuráð skipi skólaráð og um hvernig skólaráðið er skipað. Skólaráð fer með stjórn skólans í umboði kirkjuráðs. Þar eru tilnefndir til stjórnunar sjö menn og ég hef athugasemdir fram að fram að færa við það að þarna mun Háskóli Íslands eiga tvo fulltrúa í skólaráðinu, þ.e. þar segir að einn maður sé skipaður samkvæmt tilnefningu háskólans og síðan einn samkvæmt tilnefningu guðfræðideildar háskólans. Það er mjög eðlilegt að einn sé tilnefndur samkvæmt tilnefningu guðfræðideildar en ég teldi að Kennaraháskólinn ætti alveg eins að eiga þarna fulltrúa til þess að tengja saman það sem er að gerast í Kennaraháskólanum, ekki síst með tilliti til c-liðar í 3. gr., fræðslusviðs. E.t.v. hægt að tengja saman ýmis nýmæli sem eru í Kennaraháskólanum við skólahald í Skálholti. Þar hef ég ekki síst í huga þá umræðu í þjóðfélaginu um vaxandi þörf á friðarfræðslu sem e.t.v. mætti hugsa sér að færi þar fram í námskeiðaformi, annaðhvort í tengslum við Kennaraháskólann eða að skólar, grunnskólar og framhaldsskólar, sendu þangað nemendur á námskeið í friðarfræðslu.
    Ég ætla einnig að segja nokkur orð um fjármögnun til skólans. Sá vandi sem skapast hefur á undanförnum árum hefur ekki síst verið í því fólginn að mikill halli hefur verið á rekstri skólans og hér er tekið á því máli með því að setja upp samning við ríkissjóð um það hvernig rekstur skólans skuli fjármagnaður. Ég hef ekki sérstakar athugasemdir við það en í 6. gr. samningsins segir: ,,Ríkissjóður er ekki skuldbundinn til fjárframlaga vegna stofnkostnaðar.`` Þá er spurningin: Hvernig hugsa menn sér að stofnkostnaður verði fjármagnaður því að í greinargerð með frv. segir einnig efst á bls. 3, með leyfi forseta:
    ,,Alla tíð hefur skólinn starfað í þröngum og ónógum húsakynnum, enda er byggingu skólahússins ekki nærri lokið og hefur ekkert miðað í byggingarmálum hans frá árinu 1974. Brýnt er að ljúka byggingu skólans á næstu árum svo að hann geti veirð sú menningarmiðstöð og gegnt því menningarhlutverki sem Skálholti sómir og hæfir.``
    Mér finnst því að það vanti annaðhvort inn í lögin eða í samninginn, á hvorum staðnum sem það ætti betur heima, að tekið sé á því hvernig stofnkostnaður skólans sé fjármagnaður. Stofnkostnaður annarra skóla ríkisins er fjármagnaður með ákveðnum hlutföllum og þó að þessi skóli heyri undir kirkjuna er kirkjan okkar ríkiskirkja. Þannig er þetta allt saman tengt og ég held að þarna vanti inn ákvæði um stofnkostnað. Hins vegar finnst mér mjög eðlilegt í framhaldi af þeim, breytingum sem hér eru fyrirhugaðar að þessi skóli muni heyra undir kirkjumálaráðuneyti þótt í dag heyri hann undir menntmrn. Eins og ég gat um í upphafi var kirkjan frumkvöðull að allri menntun hér á landi. Þó að mál hafi þróast þannig að nú sjái sérstakt ráðuneyti að mestu leyti um þau mál sé þá ég ekkert því til fyrirstöðu að þessi skóli heyri undir kirkjumálaráðuneyti. Hins vegar má segja að það sé gott að sem flestir komi að því að koma hugmyndum á framfæri og ræða um framtíð skólans og því eðlilegt að menntmn. fjalli einnig um það þó svo frv. verði vísað til allshn.