Skálholtsskóli

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 13:18:00 (5126)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þakkir til hæstv. kirkjumálaráðherra fyrir að flytja frv. til laga um málefni Skálholtsstaðar, að þessu sinni um Skálholtsskóla. Það er eðlilegt að breyta þurfi lögum með tilliti til þeirrar reynslu sem fengin er af tiltölulega skömmum tíma sem liðinn er frá því að endurreisn Skálholtsstaðar hófst, m.a. með skólahaldi. Í þessu frv. eru miklar breytingar frá fyrri lögum og sumar þeirra eru tvímælalaust til bóta en aðrar orka meira tvímælis og nauðsynlegt að skoða þær rækilega í meðferð Alþingis. Ég held að mikill ávinningur sé að því að formaður skólaráðs verður nú vígslubiskup sem samkvæmt lögum skal hafa aðsetur í Skálholti. Það var mikilvægur áfangi þegar það var bundið í lög að vígslubiskup skyldi vera í Skálholti því að þar með var kominn ótvíræður húsbóndi á staðinn. Það hefur greinilega komið fram á liðnum árum að ýmislegt hefði getað betur farið í málefnum Skálholts ef yfirstjórn þar hefði verið í betri tengslum við næsta umhverfi, fólkið í sveitinni sem er að sjálfsögðu nátengt Skálholti og hefur besta tilfinningu fyrir þeim stað. Því vil ég taka sérstaklega undir þá breytingu að það verði heimamaður sem bæði verði stjórnandi skóla og staðar að öðru leyti.
    Um önnur atriði, eins og ég sagði, er vafalaust frekar spurning. Það er mikilvægt að þarna verði í framtíðinni rótgróin menntastofnun en ekki sundurlaust námskeiðahald eins og kannski er hægt að láta sér detta í hug að hætta sé á ef ekki verður vel á þessum málum haldið og ef ekki verður um neitt samfellt skólahald að ræða heldur stutt námskeið.
    En það eru fleiri spurningar svo sem um fjárráð þessarar stofnunar. Ríkið er með þessu frv., ef að lögum verður, að firra sig lögboðnum skyldum til framlaga til skólans og beinlínis tekið fram að það hefði ekki skyldur gagnvart stofnkostnaði og rekstur sé aðeins samkvæmt samningi sem ekki er nánar skilgreint hvernig skuli vera. Óneitanlega hvarflaði að mér við lestur þessa samnings sem hér liggur fyrir, að þarna sé verið að stefna að því að losa ríkið enn þá frekar við ábyrgð því að samningurinn á aðeins að gilda til tveggja ára. Enginn veit hvað tekur við að þeim tíma liðnum. Ég vil því leggja áherslu á að samþykkt frv. má ekki leiða til þess að ríkið telji sig ekki lengur bera neina ábyrgð á framvindunni í Skálholti. Að sjálfsögðu mun staða Skálholts, þegar þessum samningi lýkur, að einhverju leyti fara eftir því hvernig hefur til tekist við framkvæmd á þeim verkefnum sem gert er ráð fyrir að þar fari fram á þeim tíma, þ.e. næstu tvö árin. Því hlýtur að vera mjög mikilvægt að þeim nýju stjórnendum, sem nú eiga að taka þar við forræði, takist vel til. En skólahaldið er að sjálfsögðu ekki nema hluti af starfsemi Skálholts. Þar, eins og ég sagði áður, hefur vígslubiskup einnig aðsetur og að mínu mati er mjög mikilvægt að vegur Skálholts fari vaxandi. Ég tel að það sé ekki aðeins vegna skyldu kirkjunnar og þjóðarinnar við þennan stað heldur sé það líka mikilvægt fyrir kirkjuna að nýta sér Skálholt, þ.e. nýta sér þá sögu og fortíð sem þar er. Þó að við verðum að sjálfsögðu að horfa fram á veginn finnst mér Skálholt skipa svo fastan sess í þjóðarsögu okkar að nauðsynlegt er fyrir kirkjuna og þjóðina alla að nýta sem best þau verðmæti sem í þeirri sögu eru fólgin.