Skálholtsskóli

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 13:26:00 (5127)


     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Svo sem von er hafa umræðurnar um frv. ekki einskorðast við sjálft skólastarfið í Skálholti heldur einnig lotið nokkuð að hugmyndum manna um uppbyggingu Skálholtsstaðar. Það er eðlilegt. Enda ber einnig á það að líta að hér er um að ræða fyrsta áfanga í starfi þeirrar nefndar sem fjallar um mótun uppbyggingarstarfs í Skálholti. Þess vegna er fullkomin ástæða til þess að ræða málefni Skálholts í víðara samhengi en því einu sem afmarkast af frv. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem kvatt hafa sér hljóðs fyrir málefnalega umræðu.
    Hv. 13. þm. Reykv., sem gegnir formennsku í Skálholtsnefnd sem samdi frv., svaraði ýmsum spurningum sem komið hafa fram og lúta að frv. Ég ætla ekki að eyða tíma þingsins í að endurtaka þau svör.
    Efasemdir hafa komið fram um að rétt sé að flytja málefni Skálholtsskóla frá menntmrn. yfir til kirkjumrn., að ástæða sé til þess að fella allt skólastarf undir eitt ráðuneyti. Ég er ósammála þessari skoðun. Ég tel mjög mikilvægt að við getum byggt upp skólastarf í þjóðfélaginu og gefið þeim sem áhuga og ástæður hafa til að hafa með höndum fræðslu- og menningarstarf og skólastarf möguleika á að sinna slíkum verkefnum án þess að það þurfi að vera rígbundið í eitt mót. Við eigum ekki að hugsa á þann veg um skólastarf í landinu að fella þurfi alla skóla að einni og sömu reglugerð, að einni og sömu hugsun. Sem betur fer ríkir það frjálslyndi í menntmrn. að það hefur séð að skynsamlegt er að fylgja slíkum viðhorfum eftir og taka fegins hendi vilja kirkjunnar til þess að taka ábyrgð á slíkum rekstri og móta hann á þeim grundvelli sem hér hefur verið lagður. Ég tel mjög mikilvægt að við nýtum vilja kirkjunnar og gefum henni tækifæri til þess að byggja upp skólastarf með þeim hætti sem hér hefur verið ákveðið og samningar hafa tekist um við kirkjuna. Ég tel það vera skólastarfi í landinu til góðs og að það stuðli að fjölbreyttara og blómlegra starfi á þessu sviði. Ég tek þess vegna ekki undir þær athugasemdir sem komið hafa fram og tel að sú skipan mála sem mælt er fyrir um í frv. að þessu leyti sé rétt og skynsamleg. Unnið hefur verið að undirbúningi málsins í mjög nánu samstarfi við kirkjuna, enda er það tekið upp að hennar frumkvæði og hún hefur átt fulla aðild að nefndinni sem unnið hefur að því.
    Að því er varðar samstarfsnefnd Alþingis og kirkju var málið kynnt á fundi nefndarinnar og fékk góðar viðtökur. Ég geri ráð fyrir því að ef einhver álitaefni koma upp í meðferð málsins á Alþingi sem ástæða þykir að hafa sérstakt samráð við kirkjuna um, sé samráðsnefndin fús til þess að fjalla um málið. Eftir að mál af þessu tagi er komið á borð Alþingis er eðlilegt að samstarfsnefndin taki það til meðferðar en undirbúningsvinna hlýtur eðli málsins samkvæmt að hvíla á því ráðuneyti sem fer með ábyrgð á málefnum kirkjunnar og á herðum kirkjunnar sjálfrar.
    Af þessu tilefni kom fram tillaga um það á Alþingi að málinu ætti að vísa til menntmn. þingsins. Nú segi ég það sem mína skoðun að ég treysti menntmn. þingsins mjög vel til þess að fjalla um frv. en með vísan til efnis þess og ákvæða þingskapa þykir mér eðlilegt að málið fari til allshn., eins og ég hef gert tillögu um. Þingsköpin gera beinlínis ráð fyrir því að málum skuli vísað til nefnda með hliðsjón af

starfsskiptingu ráðuneyta og sérstaklega tekið fram að vísa skuli dómsmálum, kirkjumálum, byggðamálum og öðrum þeim málum sem þingið ákveður til allshn. Hér er um að ræða frv. um skóla sem á að starfa á ábyrgð kirkjuráðs og er því kirkjulegt málefni og á því að mínu mati, samkvæmt efni sínu og í samræmi við þingsköp, að fara til meðferðar í allshn.
    Vissulega er rétt eins og komið hefur fram að húsakynni Skálholtsskóla eru takmörkuð og setja starfsemi skólans ákveðin takmörk. Við höfum gert samning um rekstur á skólanum. Ég tel það vera mjög eðlilega skipan að stjórnvöld og kirkjan geri samning um það sín á milli hvernig staðið skuli að framlögum til rekstrar. Með þessu móti er fjárhagslegt sjálfstæði og ábyrgð kirkjunnar aukin og útgjöldum ríkisins því settar ákveðnar skorður. Að því er varðar rekstur og stofnkostnað, hygg ég að reynslan ætti að hafa kennt hv. þm. það að engin trygging er fyrir því að séð sé fyrir rekstrarframlögum eða framlögum til stofnkostnaðar þó að með lögum sé kveðið á um skyldu ríkisins í þeim efnum. Þvert á móti hygg ég að þingið hafi gengið býsna langt í að kveða á um skyldur umfram það sem það svo treystir sér til að taka af fólkinu í landinu til þess að úthluta aftur til sömu verkefna. Þess vegna sé rétt og skylt af Alþingi að ákveða fjárframlög bæði til rekstrar og stofnkostnaðar slíkra viðfangsefna eins og við erum að fást við hér, á þann veg að við sjáum fyrir að geta staðið við þær skuldbindingar. Á þeim grundvelli hefur þessi samningur verið gerður og ég legg áherslu á að tekist hefur mjög gott samstarf við kirkjuna um að standa á þann veg að málum að því er fjárlagahliðina snertir. Kirkjan telur þetta vera eðlilega skipan á því verkefni sem verið er að fjalla um og ég held að hún sé í fullu samræmi við þá ábyrgð í ríkisfjármálum sem þingið þarf að viðhafa í hverju falli og lýsir ekki á nokkurn hátt takmörkuðum vilja til stuðnings við verkefni í Skálholti. Þvert á móti lít ég svo á að frv. sé fyrsta skrefið til þeirrar viðreisnar Skálholtsstaðar sem ætlunin er að stefna að og Skálholtsnefnd hefur í undirbúningi. Enda er þetta fyrsta framlag nefndarinnar til uppbyggingar starfsins og hún mun síðan halda áfram störfum eins og formaður nefndarinnar hefur þegar gert grein fyrir.
    Hjá hv. 18. þm. Reykv. kom fram að æskilegt væri að tengja uppbyggingu Skálholtsstaðar við þau sögulegu og menningarlegu verkefni sem gerðu það að verkum að fleiri legðu leið sína í Skálholt. Ég tek undir þau sjónarmið. Eitt af meginmarkmiðum nefndarinnar er að leggja til uppbyggingu sem er í samræmi við sögu staðarins og þá menningarlegu reisn sem við viljum að staðurinn hafi í íslensku þjóðfélagi. Ég er sannfærður um að ef vel tekst til í því uppbyggingarstarfi mun staðurinn kalla til sín marga menn, bæði innlenda og erlenda, þeim til ánægju og staðnum til álitsauka og tek þess vegna heils hugar undir þau sjónarmið.
    Það var á það minnst og varpað fram í spurnarformi hvort stjórnvöld teldu ekki rétt að biskup Íslands sæti í Skálholti. Nú er það svo að ákvörðun hefur verið tekin um að vígslubiskup sitji í Skálholti. Nú er verið að undirbúa það að sú skipan verði og á vordögum mun vígslubiskup taka sér sæti í Skálholti. Ég tel það mikið framfaraspor og þátt í uppbyggingu staðarins.
    Vissulega er það álitaefni hvort biskup Íslands eigi að sitja í Skálholti. Ég tel hins vegar að kirkjan eigi sjálf að hafa frumkvæði og forræði í því efni og að stjórnvöld ættu ekki að taka fram fyrir hendurnar á henni. Hitt er annað að það kann vel að vera eðlilegt umræðuefni milli Alþingis og kirkju og ákjósanlegt viðfangsefni samstarfsnefndar Alþingis og kirkju að ræða um slíka breytingu en frá mínum bæjardyrum séð á Alþingi að tryggja sem best sjálfstæði kirkjunnar á þann veg að hún geti mótað innra starf sitt og uppbyggingu sem mest á eigin spýtur og án afskipta stjórnvalda, þar á meðal hvar biskup situr. Ég vil líta á sjálfstæði kirkjunnar á þann veg þó að ég sé á engan hátt að mæla gegn þeirri hugmynd sem hér var varpað fram.
    Einnig var spurt að því hvort ekki væri ástæða til að flytja allt guðfræðinám við Háskóla Íslands í Skálholt. Vel má vera að rök séu fyrir því að flytja guðfræðinám við háskólann í Skálholt í ríkari mæli en hér er gert ráð fyrir, jafnvel alfarið. En að mínu mati hefur verið hér stigið eðlilegt skref. Verið er að opna möguleika á og gera ráð fyrir því að hluti af námi sem nú fer fram í guðfræðideildinni verði staðsettur í Skálholti. Ég hygg að gott sé að fá reynslu af því hvernig til tekst í því efni og þróa aukin tengsl Skálholtsskóla og guðfræðideildarinnar smám saman eftir því sem reynslan leiðir mönnum í ljós hvað heppilegast er að gera og hvernig mönnum tekst til með áframhaldandi uppbyggingu skólans í Skálholti. Kjarni málsins er sá að merkilegt skref er stigið með því að flytja ákveðinn hluta af náminu í Skálholt og tengja námið í guðfræðideild og Skálholtsskóla þeim böndum sem lagafrv. gerir ráð fyrir. Vonandi er það upphaf af annarri og meiri þróun.
    Frú forseti. Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta mál að sinni en vænti þess að það fái vandaða meðferð í hv. allshn. og að þingið sjái sér fært að ljúka afgreiðslu þess á vordögum.