Skálholtsskóli

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 13:42:00 (5130)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég heyri það á máli hæstv. ráðherra að hann hefur mikla trú á því að frv. sem mælt hefur verið mælt fyrir skili miklum árangri fyrir Skálholtsstað. Við skulum vona að sú löggjöf sem verður ákvörðuð af Alþingi nái því markmiði. Ég hygg að það hljóti að vera hugur allra.
    Ég hef óskað eftir því að menntmn. þingsins fái málið til meðferðar og því verði vísað þangað. Ég vil aðeins rökstyðja það og kaus frekar að kveðja mér hljóðs undir ræðuformi heldur en andsvari vegna þess að í rauninni er ekki rúm til þess að rökstyðja mikið undir því formi. Þetta er af almennum ástæðum sprottið en ekki endilega sem viðbrögð við tillögu hæstv. ráðherra sem mælir fyrir frv. Við höfum áður staðið frammi fyrir spurningum um það hvernig haga eigi málsmeðferð innan þingsins. Ég vil rökstyðja aðeins frekar tillögur mínar um þetta efni.
    Við erum að fjalla um breytingu eða nýja löggjöf sem á að taka við af annarri löggjöf og eru lög um Skálholtsskóla frá 1977. Það eru þau lög sem eru í gildi og á að fella úr gildi samkvæmt frv. Sú löggjöf heyrir undir menntmrn. Það er sem sagt verið að breyta ákvörðunum sem varða það ráðuneyti samkvæmt gildandi lögum. Jafnframt er efni frv. um skólahald sem snertir mjög víðtæk tengsl við annað skólakerfi í landinu eins og glöggt má sjá bæði af frumvarpstexta sem og rökstuðningi í athugasemdum við einstakar greinar.
    Ég bendi á það sem fram kemur í athugasemdum við einstakar greinar frv. um 3. gr. þess og tel ástæðu til að vitna í það, með leyfi forseta:
    ,,Til að vinna að markmiði sínu skv. 2. gr. starfrækir Skálholtsskóli eftirtalin þrjú svið er grein þessi tekur til:
    a. Guðfræðisvið. Gert er ráð fyrir að þar geti farið fram endurmenntunarnámskeið fyrir presta og aðra starfsmenn kirkjunnar og einnig hluti af starfsþjálfun guðfræðikandídata, sbr. 16. gr. laga um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands, nr. 62/1990. Enn fremur námskeið á vegum guðfræðideildar Háskóla Íslands og Guðfræðistofnunar, svo og margs konar námsstefnur og ráðstefnur um málefni kristinnar trúar og kirkju.``
    Þetta er a-liður og hér er um að ræða tengsl og ávísun á námsþætti sem tengjast guðfræðideild Háskóla Íslands, sem er hluti af Háskóla Íslands, sem heyrir undir menntmrn. eins og við þekkjum. Af hverju færa menn þá ekki málefni guðfræðideildarinnar undir dóms- og kirkjumrn.? Það er hluti af starfi þjóðkirkju Íslands undirstaða, menntun guðfræðinga.
    Síðan er b-liður um kirkjutónlistarsvið. Þar segir: ,,Undir þetta svið heyra sumartónleikarnir í Skálholtskirkju og ýmiss konar samstarf og tónlistariðkun í tengslum við þá. Enn fremur organista- og kóranámskeið á vegum söngmálastjóra þjóðkirkjunnar, tónlistariðkun og æfingabúðir fyrir kirkjukóra og barnakóra, sumartónbúðir barna og námskeið á vegum Tónskóla þjóðkirkjunnar og guðfræðideildar. Með samstarfi kirkjutónlistarsviðsins skal almennt að því stefnt að það megi fegra og efla tónlist í íslenskum kirkjum.``
    Og síðan er c-liður fræðslusvið. ,,Á þessu sviði er gert ráð fyrir margs konar námskeiðum og fræðslu, m.a. í samvinnu við fræðslu- og þjónustudeild kirkjunnar og fleiri aðila, t.d. námskeiðum í trúfræðslu, kyrrðardagahaldi o.fl. Gert er ráð fyrir að undir þetta svið heyri umfjöllun um þjóðlegan menningararf Íslendinga, bókmenntir fornar og nýjar, kirkjulist og listir yfirleitt frá ýmsum tímum. Enn fremur ráðstefnur á sviði þjóðfélags- og menningarmála, félagsmálanámskeið og ráðstefnur á vegum félagsmálasamtaka. Einnig starfsemi sem tengist norrænni lýðháskólahefð og norrænu samstarfi á því sviði.``
    Þetta eru skýringar um 3. gr. frv. og eins og þar kemur fram er um mjög víðtæk tengsl að ræða við fræðslustarfsemi sem tengist víða úti í þjóðfélaginu. Mér finnst eðlilegt þar sem menntmn. þingsins sem fjallar um skóla- og menningarmál almennt fái hún þetta mál til umfjöllunar og hafi aðalumfjöllun um það. Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra skiptir það auðvitað ekki máli varðandi skipan í þinginu hverjir sitja í hvaða þingnefnd, heldur með hvaða hætti við fjöllum um málið. Ég ítreka enn frekar að við erum að fjalla um breytingu frá löggjöf sem heyrir undir menntamál með skýrum hætti og því er það tillaga mín að frv. gangi til menntmn. en ég óska þá eftir því áður en atkvæðagreiðsla verður um málið að forseti þingsins, forsætisnefnd eftir atvikum, líti á þetta mál og fjalli um það og komi eftir atvikum með tillögu um hvernig með það skuli farið samkvæmt þingsköpum.