Hjúskaparlög

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 13:53:00 (5134)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Frv. þetta til nýrra hjúskaparlaga sem hér er mælt fyrir er samið af sifjalaganefnd, en í henni eiga sæti Ármann Snævarr, fyrrv. hæstaréttardómari, sem er formaður nefndarinnar, Baldur Möller, fyrrv. ráðuneytisstjóri, Drífa Pálsdóttir deildarstjóri og Guðrún Erlendsdóttir, forseti Hæstaréttar. Ritari nefndarinnar hefur verið Anna Guðrún Björnsdóttir deildarstjóri í dómsmrn.
    Eftir að sifjalaganefnd hafði lokið við frumgerð að frv. ásamt yfirlitsgreinargerð voru þessi gögn send ellefu aðilum til umsagnar. Nefndinni bárust umsagnir frá fimm þeirra, þ.e. frá biskupi Íslands, Jafnréttisráði, Lögmannafélagi Íslands, Prestafélagi Íslands og Sýslumannafélagi Íslands. Þá voru réttarfarsákvæði frv. og ákvæði þess um fjárskipti hjóna sérstaklega kynnt fulltrúum réttarfarsnefndar sem settu fram ýmsar ábendingar. Hafa margar ábendingar umsagnaraðila verið teknar til greina við endanlega mótun og gerð frv. og athugasemda sem því fylgja. Loks liggja til grundvallar frv. niðurstöður úr norrænu löggjafarsamstarfi og einnig hefur verið tekið mið af nýlegri, norrænni hjúskaparlöggjöf.
    Með þessu frv. til nýrra hjúskaparlaga er lagt til að steypt verði í einn lagabálk ákvæðum þeirra laga sem nú eru í gildi á þessu sviði, þ.e. lögum nr. 20 frá 1923, um réttindi og skyldur hjóna, og lögum nr. 60/1972, um stofnun og slit hjúskapar.
    Frv. skiptist í 17 kafla. I. kafli þess fjallar um efnissvið laganna og hefur að geyma almenn ákvæði. II. og III. kafli fjalla um hjónavígsluskilyrði og könnun á þeim. IV. kafli um hjónavígslur, sá V. um ógildingu hjúskapar. VI. kafli um hjónaskilnaði og VII. kafli um ábyrgð hjóna á framfærslu fjölskyldunnar. VII.

og VIII. kafli geyma ákvæði um eignir hjóna og forræði maka á eign sinni og X. kafli um skuldaábyrgð hjóna og heimild annars hjóna til að skuldbinda hitt. Í XI. og XII. kafla eru ákvæði um samninga milli hjóna, séreignir og kaupmála og í XIII. og XIV. kafla eru reglur um fjárskipti milli hjóna án skilnaðar og vegna hjúskaparslita. Í XV. kafla er að finna ákvæði um réttarfar í hjúkskaparmálum og í XVI. kafla reglur um meðferð og úrlausn stjórnvalda að málum samkvæmt frv. Í XVII. kafla eru loks ákvæði um gildistöku, lagaskil og brottfallin lög. Frv. er einskorðað við hjón í skilningi sifjaréttarins þar sem karl og kona hafa verið gefin saman í hjúskap þannig að lágmarksskilyrðum um gildi hjónavígslu sé fullnægt og tekur þannig ekki til óvígðrar sambúðar og heldur ekki til samninga samkynja manna um sambúð.
    Í athugasemdum með frv. er þeim breytingum sem í því felast frá núgildandi lögum lýst ítarlega en ég ætla hér að gera í stuttu máli grein fyrir því hverjar helstu breytingar felast í frv. Í I. kafla þess, sem fjallar m.a. um jafnstöðu og verkefnaskiptingu hjóna, segir í 2. gr. að hjón séu í hvívetna jafnrétthá í hjúskap sínum. Er hér lagt til að afnuminn verði sá munur á lagastöðu karla og kvenna sem er að finna í núgildandi lögum um réttindi og skyldur hjóna. Í 2. mgr. 3. gr. er það nýmæli að hjónum sé skylt að veita hvort öðru upplýsingar um efnahag sinn og afkomu.
    Í II. kafla frv., um hjónavígsluskilyrði, er lagt til að fækkað verði hjúskapartálmum frá núgildandi lögum. En sú stefna hefur verið ríkjandi í norrænni sifjalöggjöf og víðar. Vissulega eru það mikilvæg mannréttindi að menn geti stofnað til fjölskyldu og að lög girði ekki fyrir að menn geti stofnað til hjúskapar nema brýnir þjóðfélagshagsmunir bjóði annað. Ein merkasta breyting þessa kafla frá núgildandi lögum er sú að hér er lagt til að ekki verð lagt bann við hjónavígslu geðveikra manna og þroskaheftra. Þykja ekki rök fyrir því að andlega fatlaðir menn njóti ekki þeirra mannréttinda að geta stofnað til hjúskapar.
    III. kafli frv., um könnun á hjónavígsluskilyrðum, hefur að geyma nokkuð fyllri reglur um þetta efni en eru í núgildandi lögum en felur ekki í sér umtalsverðar breytingar á þeim, enda þykja þær hafa gefið góða raun.
    Í IV. kafla frv., um hjónavígslu, er fjallað um borgaralega og kirkjulega hjónavígslu, hverjir framkvæmi hana og hvar og hverjum sé kræf borgaraleg hjónavígsla. Þar eru m.a. skýrari ákvæði en í núgildandi lögum um heimildir þjóðkirkjupresta sem látið hafa af embætti til að gefa saman hjón og það nýmæli að skyldleiki eða vensl vígslumanns við hjónaefni valdi ekki vanhæfi hans til þess.
    V. kafli frv., um ógildingu hjúskapar, er svo til óbreyttur frá núgildandi lögum en þetta réttarúrræði er nánast óþekkt hér á landi og í nágrannalöndum okkar.
    Í VI. kafla frv., um hjónaskilnaði, gætir verulegra nýmæla. Reglur hafa verið gerðar einfaldari og hjónaskilnaðarástæðum fækkað.
    Í 34. gr. er kveðið á um að maki sem telur sig ekki geta haldið áfram hjúskap eigi rétt á skilnaði að borði og sæng án þess að vikið sé að þeim sakarþætti sem er í núgildandi lögum enda oftast erfitt um vik að meta svör í þessum efnum. Önnur ástæða fyrir því að fella niður sakarþáttinn er sú að það er talið stuðla að því að draga úr deilum og ásökunum hjóna hvors í annars garð við skilnað og auðvelda hjónum slit þessara persónutengsla með virðingu.
    Nýmæli er í 35. gr. um áhrif þess ef samvistir hjóna haldast eftir að skilnaður að borði og sæng er fenginn eða hjón taka aftur upp samvistir. Er þar dregið úr kröfunni um samvistaslit og verður þessi skilnaðaraðgerð þá sveigjanlegri og vænlegri til sátta.
    Þá er það nýmæli í 36. gr. að lagt er til að sá lágmarkstími, sem líða þarf frá því að skilnaður að borði og sæng er veittur og til þess að lögskilnaður er kræfur á grundvelli hans, verði styttur úr einu ári í sex mánuði ef hjón eru þá sammála um að óska lögskilnaðar en annars verði hann áfram eitt ár.
    Í 41. gr. segir hverjir leysi úr kröfum um skilnað og byggist hún á þeirri grunnreglu að í flestum tilvikum eigi að vera unnt að leita skilnaðar hvort sem er hjá dómstólum eða stjórnvöldum. Ef hjón eru sammála um að leita skilnaðar að borði og sæng eða lögskilnaðar á grundvelli undanfarandi skilnaðar að borði og sæng leysir sýslumaður úr máli en í öðrum tilvikum er hægt að leita skilnaðar hjá sýslumönnum ef hjón eru sammála um það en ella hjá dómstólum. Með þessu ákvæði er lagt til að sýslumenn afgreiði skilnaðarmál á frumstigi ef skilnaðar er leitað hjá stjórnvöldum en ákvörðun sýslumanns megi skjóta til dómsmrn. Synjun stjórnvalds um útgáfu leyfis er því ekki til fyrirstöðu að unnt sé að leggja skilnaðarkröfu fyrir dómstóla. Víða um lönd er úrlausn skilnaðarmála hjá dómstólum einum en ekki hafa þótt rök til þess að fara þá leið þegar hjón eru sammála um skilnað eða um að leita hans hjá stjórnvaldi. Ekki verður hjá því litið að stjórnvaldsleiðin er að jafnaði greiðfærari og ódýrari fyrir aðila auk þess sem hún styðst við langa hefð hér á landi og ekki verður séð að þessi skipan sé andstæð þjóðaréttarsamningum sem Ísland er aðili að.
    Í þessu sambandi ber að benda á að 43. gr. laga um stofnun og slit hjúskapar, nr. 60/1972, var breytt með lögum nr. 92/1991 þannig að stjórnvaldsúrlausnir í skilnaðarmálum færast til sýslumanna þann 1. júlí nk. í tengslum við aðskilnað framkvæmdarvalds og umboðsvalds í héraði með málskotsrétti til dómsmrn. Sáttaákvæðið í 42. gr. frv. hefur að geyma nokkur nýmæli, m.a. að ekki sé skylt að leita sátta með hjónum með framhald hjúskaparins nema þau hafi forsjá fyrir ósjálfráða börnum en við þær aðstæður mælir tillitið til barna með skyldubundnum sáttatilraunum. Í öðrum tilvikum þykja ekki rök til að þvinga hjón til sáttaumleitana en lögð er áhersla á að þau eigi þess ávallt kost þegar þess er óskað.
    Í 2. mgr. 44. gr. er að finna það þarfa nýmæli að hægt er að veita skilnað þótt ekki hafi verið leyst

úr ágreiningi um forsjá barns. Langan tíma getur tekið að leysa úr deilu foreldra um forsjá og geta hjón haft ríka hagsmuni af því að fá skilnað áður en forsjármál er útkljáð. Ákvæðið byggir að sjálfsögðu á því að ágreiningur um forsjá sé til meðferðar hjá lögmæltum yfirvöldum í samræmi við ákvæði barnalaga.
    Í VII. kafla frv. eru svo einkaréttarreglur um ábyrgð hjóna á framfærslu fjölskyldunnar. Í þessum kafla eru felld saman ákvæði um framfærsluskyldu hjóna, bæði meðan hjúskapur varir og eftir skilnað hjóna en ekki gætir verulegra nýmæla frá gildandi rétti. Ákvæðin eru þó um margt einfaldari í sniðum en núgildandi lagareglur.
    Ákvæði um VIII. kafla frv., sem fela í sér nokkurt nýmæli, er einkum ætlað það hlutverk að veita yfirlit yfir eignadeildir í hjúskap og hafa leiðsögugildi. Í 53. gr. er eignamynstri í hjúskap lýst samfellt og þar greindar þær eignadeildir sem til greina geta komið og í 54. gr. er hugtakið ,,hjúskapareign`` skilgreint. Í 55. gr. segir hvernig séreignir geti myndast og í 56. gr. er fjallað um sameignir hjóna og þar lagt til að fræðiskýring verði lögfest.
    Í IX. kafla frv., um forræði maka á eignum sínum, gætir ekki nýmæla í fyrri þætti kaflans um almenn ákvæði. Í síðari þætti hans, um takmarkanir á forræði maka yfir eignum sínum, er fjölskyldu maka veitt ríkari vernd gegn ráðstöfun hans á fasteign er fjölskyldan býr í en í gildandi lögum og einnig gegn ráðstöfun maka á innbúi á sameiginlegu heimili hjóna og fleira. Þá er ákvæði í 67. gr. um heimild til riftunar á gjöf maka til þriðja manns nýmæli.
    Í X. kafla frv., um skuldaábyrgð hjóna, er safnað saman í einn kafla dreifðum ákvæðum um þetta efni í lögum nr. 20/1923, um réttindi og skyldur hjóna, en meginreglurnar eru óbreyttar. Lagt er til að afnumin verði ákvæði gildandi laga er mismuni hjónum með einum eða öðrum hætti enda samrýmast þau ekki jafnréttisviðhorfum nútímans.
    Í XI. kafla frv. eru ákvæði um samninga milli hjóna þar á meðal séreignir samkvæmt kaupmála. Samhengisins vegna eru einnig í kaflanum reglur um aðrar séreignir svo sem vegna fyrirmæla gefenda eða arfleiðenda. Helstu nýmæli kaflans eru þau að lagt er til að unnt sé að ákveða með kaupmála að venjulegt innbú á sameiginlegu heimili hjóna sem aflað er eftir gerð kaupmála verði séreign og að unnt verði að tímabinda kaupmála og gera þá skilyrta, t.d. þannig að kaupmáli hafi ekki lengur gildi ef hjón eignast sameiginlegan skylduerfingja. Fleiri nýmæli eru einnig í þessum kafla sem er ítarlega lýst í athugasemdum með frv.
    Í XII. kafla frv., sem fjallar um kaupmála, er skipað í samfellu dreifðum ákvæðum laga nr. 20/1923, um réttindi og skyldur hjóna, m.a. um hæfi til kaupmálagerðar, form kaupmála og reglur um skráningu þeirra. Í kaflanum eru ýmis nýmæli, m.a. vottun á undirritun kaupmála, skráningu í veðmálabækur, afskráningu kaupmála o.fl. Reglur um skráningu kaupmála eru svipaðar núgildandi reglum en hafa verið lagaðar að nýjum lögum.
    Um fjárskipti milli hjóna án skilnaðar og vegna hjúskaparslita greinir í XIII. og XIV. kafla frv. Í þessum köflum er m.a. að finna efnisreglur um opinber skipti til fjárslita milli hjóna þar sem reglan um helmingaskipti milli hjóna er eftir sem áður meginregla við þessi skipti en rýmkaðar heimildir eru til frávika frá henni frá því sem er í núgildandi lögum.
    Einnig er þess freistað að gefa aðgengilegt yfirlit yfir ferli skiptameðferðar með því m.a. að vísa til viðeigandi reglna XIV. kafla skiptalaga nr. 20/1991. Hér gætir ýmissa nýmæla sem eru rækilega reifuð í athugasemdum með frv.
    Í XV. kafla frv. eru reglur um réttarfar í hjúskaparmálum. Við gerð ákvæðanna um réttarfar hefur verið tekið tillit til nýrra laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 en að sjálfsögðu einnig séreðlis þessara mála. Ákvæði núgildandi laga hafa verið einfölduð og nokkur felld niður.
    Í XVI. kafla eru ákvæði um meðferð og úrlausn stjónrvalda á málum samkvæmt frv. og eru það nýmæli í hjúskaparlögum. Hér er lagt til að lögfestar verði reglur sem hafa mótast í lagaframkvæmdinni, en lögskráning þeirra horfir til réttaröryggis. Er þess sérstök þörf nú þegar margvíslegar úrlausnir flytjast frá dómsmrn. til sýslumanna. Við mótun þessara reglna hefur verið höfð hliðsjón af frv. til stjórnsýslulaga sem lagt hefur verið fram á Alþingi og álitsgerðum umboðsmanns Alþingis.
    Í XVII. kafla frv. er loks fjallað um gildistöku laganna sem miðast við aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði þann 1. júlí nk., lagaskil og brottfallin lög.
    Frú forseti. Ég hef þá lokið að fara yfir meginefni þessara nýju hjúskparlaga. En ég vek um leið athygli á mikilvægi þess að frv. verði að lögum fyrir þinglok vegna aðskilnaðar dómsvalds og umboðsvalds á komandi sumri. Þótt skammur tími sé nú til stefnu er þess óskað að hv. allshn. hagi störfum sínum á þann veg að takast megi að afgreiða frv. á vordögum. Ég tel að það eigi að vera gerlegt enda hefur mjög verið vandað til alls undirbúnings og allrar vinnu við samningu þessa frv. og leitað athugasemda hjá fjölmörgum þeirra aðila sem gerst þekkja og þegar verið tekið tillit til margra þeirra ábendinga sem fram hafa komið frá slíkum aðilum.
    Ég legg svo til, frú forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.