Hjúskaparlög

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 14:14:00 (5139)

     Ragnhildur Eggertsdóttir :
    Virðulegi forseti. Í því frv. sem er til umræðu og hæstv. ráðherra hefur kynnt, frv. til hjúskaparlaga, sé ég að í felast ýmsar góðar úrbætur á þeim hjúskaparlögum sem nú eru í gildi og vissulega þörf á. Má t.d. nefna að í 60. gr. eru reistar nokkrar skorður við forræði maka á fasteign eða réttindum yfir fasteign ef fjölskyldan býr á henni, ef hún er ætluð til þeirra nota eða atvinnurekstrar annars eða beggja. Skorðurnar eru í því fólgnar að öðru hjóna er óheimilt án skriflegs samþykkis hins að afhenda, veðsetja, leigja eða byggja hana, sama hvort um hjúskapareign eða séreign er að ræða. Það að skriflegt samþykki skuli þurfa að liggja fyrir um nýmæli og einnig það að sama gildi þótt um séreign sé að ræða. Þetta er að mínu mati afar mikilvægt þar sem það getur komið í veg fyrir mikla erfiðleika þess maka er ekki stendur að gerningnum og hann er gerður án hans vitundar. Þegar rætt er um séreignir getur verið um að ræða eign sem hjón hafa fjárfest í með sameiginlegum fjármunum þótt hún sé aðeins þinglýst á nafn annars. Ég sé reyndar ekki af hverju óbyggðar lóðir sumarbústaða sem ummerki sýna að fjölskyldan sé afhuga og húsnæði til annarra frístunda eiga að vera undanþegin. Mér finnst eðlilegt að álykta að þessar eignir séu tilkomnar vegna sameiginlegra fjárframlaga hjóna.
    60. gr. tekur einnig til uppsagnar leigusamnings um húsnæði sem ætlað er til bústaðar fjölskyldunnar eða til nota við atvinnurekstur beggja eða annars svo og framlengingu slíks samnings. Ákvæðin gilda einnig um afhendingu á hlutabréfum, öðrum eignarskilríkjum og réttindum sem ætluð eru til persónulegra nota fyrir hinn makann eða börn þeirra eða sameiginlegan atvinnurekstur.
    Í 61. gr. eru sömu skorður settar varðandi innbú og annað lausafé sem ætlað er til persónulegra nota fyrir hinn makann eða börn þeirra eða sameiginlegan atvinnurekstur þeirra. Þetta á einnig við þó svo um séreign sé að ræða. Í báðum lagagreinum er tekið fram að skriflegt umboð þarf frá maka en í dag er það svo að munnlegt samþykki nægir, sbr. 20. gr., þó ekki ef þinglýsa á löggerningi. Þarna eru veigamikil atriði tekin fyrir og til mikilla bóta.
    Þá ber að nefna það nýmæli sem felst í 68. gr. þar sem segir að maki beri ekki ábyrgð á skuldbindingum hins makans nema sérstök heimild sé til þess og að heimild til samábyrgðar verði að vera ótvíræð samkvæmt almennum lögskýringarreglum, t.d. umboð er annar maki gefur hinum til samningsgerðar fyrir sig. Þarna er ekki tekið fram að umboð þurfi að vera skriflegt og langar mig að vita hvort þess þurfi ekki. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort honum finnist ekki að taka þurfi fram að umboðið sé skriflegt. Tekið er fram að þetta eigi þó ekki við um skatta en um þá gilda sérstakar lagareglur um samábyrgð.
    10. gr. veldur mér hins vegar töluverðum heilabrotum svo ekki sé meira sagt. Þar segir að kjörforeldri og kjörbarn megi ekki giftast hvoru öðru nema ættleiðing sé niður felld. Þetta vekur að mínu mati upp þá spurningu hvort líta beri á að ábyrgð og skyldur kjörforeldris séu ekki sambærilegar við ábyrgð og skyldur kynforeldris. Í mínum huga er ekki nokkur vafi á að kjörforeldri tekur við allri þeirri sömu ábyrgð og öllum þeim sömu skyldum gagnvart kjörbarni sem kynforeldri gerir gagnvart sínu barni. Þar af leiðandi finnst mér að hjónaband milli kjörforeldris og barns, þó svo ættleiðing sé felld úr gildi, komi engan veginn til greina. Mér finnst full ástæða til að staldra hér við og hugleiða hvort það sé eðlilegt að gert sé ráð fyrir því í lögum að milli foreldris og barns þróist þær tilfinningar er leiði til hjónabands. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort honum finnist það.
    Í athugasemd við 10. gr. kemur fram að í norskum lögum er vísað til ættleiðingarlaga en í þeim felst hjúskaparbann. Ég hallast óneitanlega að því að þannig ætti að einnig að vera hér og mér finnst í alla staði mjög óeðlilegt að kjörforeldri og barn gangi í hjónaband þó svo að ættleiðing sé niður felld.

    Í 43. gr., sem fjallar um skilnaðarkjör, er sagt: ,,Áður en skilnaður að borði og sæng eða lögskilnaður er veittur skal sýslumaður eða dómari reyna að koma á samkomulagi milli hjóna um skipan forsjár fyrir börnum, um framfærslu og aðra skilnaðarskilmála.`` Ég er ekki viss um að hægt sé að búast við að sýslumaður eða dómari sé í stakk búinn til að veita ráðgjöf hvað varðar forsjá barna og tel eðlilegt að þarna kæmi fram að í þeim efnum ætti að leita til sérfræðings svo sem félagsráðgjafa eða sálfræðings svo eitthvað sé nefnt.
    Ráðgjöf er að mati okkar kvennalistakvenna mjög mikilvægt atriði í sambandi við fjölskyldumál og á það leggjum við einmitt höfuðáherslu við afgreiðslu frv. til barnalaga sem væntanlega verður innan tíðar á dagskrá hér á þinginu.
    Sú spurning er mjög áleitin hvort ekki sé nauðsynlegt að gera hjónaefnum skylt og framkvæmanlegt að sækja fræðslu um þær skyldur sem þau taka sér á herðar við að giftast. Mig langar að benda á að fram er komin þáltill. á þskj. 713 frá okkur kvennalistakonum um gerð fræðslubæklings um réttarstöðu fólks í vígðri og óvígðri sambúð. Tel ég að slíkur bæklingur um helstu atriði varðandi réttarstöðu fólks við skilnað og erfðamál gæti komið að mjög góðum notum við slíka fræðslu. Ef um slíka fræðslu væri að ræða væri hugsanlega hægt að koma í veg fyrir marga þá ógæfu sem er þjóðfélaginu dýr efnahagslega og einstaklingnum mikil raun.