Hjúskaparlög

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 14:33:00 (5145)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Vegna athugasemda hv. 4. þm. Reykv. um þetta kunna orð ,,fyrir`` í 5. gr. frv. vil ég aðeins segja þetta. Þegar ég var ungur maður í lagadeild Háskólans og laut þar leiðsagnar dr. Ármanns Snævarr þá brýndi hann það fyrir okkur ungum lagastúdentum að þegar að því kæmi að við fengjum það hlutverk að semja lagafrumvörp og stjórnvaldsareglugerðir fyrir stjórnvöld þá ættum við að hyggja að því að hafa þau á góðu íslensku máli og taka þar til fyrirmyndar hinar fornu bókmenntir þjóðarinnar.
    Nú stendur svo á að þetta frv. er samið fyrir dómsmrh. af þessum gamla og góða lærimeistara mínum og okkar margra í lagadeildinni sem brýndi okkur svo á þessu og orðalagið er frá honum komið og ég treysti honum manna best til þess að velja þau orð sem best eiga við í þessum lagatexta eins og mörgum öðrum.