Ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 14:38:00 (5147)

     Flm. (Jóhann Ársælsson) :
    Virðulegur forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir þáltill. á þskj. 215, um tímabundnar ráðstafanir í sjávarútvegsmálum. Ég vil vekja athygli forseta á því að þetta númer, 215, er mjög lágt miðað við það lagafrv. sem verið var að ræða næst á undan sem var 710, ef ég man rétt. Ég vek sérstaka athygli á þessu vegna þess að þessi tillaga er um tímabundnar ráðstafanir og hefði auðvitað þurft að komast til umræðu fyrir langalöngu síðan. En við þetta megum við stjórnarandstæðingar búa að okkar mál komast seint og um síðir til umræðu í þinginu.
    Við flytjum þetta saman þrír þingmenn Alþb., Steingrímur J. Sigfússon og Kristinn H. Gunnarsson ásamt mér. Tillgr. hljóðar svona:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni, í samráði við sjávarútvegsnefnd Alþingis, að undirbúa ráðstafanir til að draga úr óvissu í sjávarútvegsmálum á árinu 1992 eða þar til lokið er endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.
     Í þessu skyni verði eftirfarandi ráðstafanir athugaðar sérstaklega:
    að draga markvisst úr flutningi veiðiheimilda milli byggðarlaga með kvótaskerðingu eða öðrum áhrifaríkum hætti,
    að stöðva frekari flutning fiskvinnslunnar út á sjó (fjölgun frystitogara),
    að lýsa yfir að yfir að tvöföldun línuaflans í fjóra mánuði á ári verði áfram í gildi,
    að lýsa yfir að ekki sé stefnt að afnámi krókaveiðileyfa undir 6 tonna markinu,
    að stemma stigu við flutningi veiðiheimilda frá minni bátum og trillum á stærri skip,
    að taka upp þá reglu, til að hindra að afla, einkum smáfiski, sé hent í sjóinn, að skip megi landa slíkum afla utan kvóta, þannig að útgerðin fái metið kostnaðarverð til sín en afgangurinn sé fénýttur, t.d. í þyrlukaupasjóð,
    að fallið verði frá áformum um að fénýta Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins og allar ráðstafanir, sem gerðar verða á árinu 1992, verði við það miðaðar að tryggja stöðugleika á meðan endurskoðun laganna um stjórn fiskveiða stendur yfir.``
    Virðulegi forseti. Þessi tillaga er hluti af stefnumörkun sem Alþb. vann að á haustmánuðum. Áður en þing kom saman voru sjávarútvegsmál mikið rædd í þingflokki Alþb. og í forustu flokksins. Í framhaldi af þeirri stefnumörkun var ákveðið að við mundum flytja tillögur í þinginu um tímabundnar ráðstafanir og hins vegar yrði unnið tillögum um endurskoðun laganna um stjórn fiskveiða í flokknum. Í lok nóvember héldum við landsfund í Alþb. Á þeim landsfundi var mikið rætt um sjávarútvegsmál og var þar gerð ályktun um hvaða ramma menn ættu að hafa við endurskoðun á stjórn fiskveiðanna. Þar var samþykkt ályktun í sex liðum um það hvað við ættum að hafa að leiðarstjörnu við þessa endurskoðun og ég vil lesa það

hér upp:
    1. Að tryggður verði til frambúðar óumdeilanlegur eignarréttur þjóðarheildarinnar á auðlindum íslenska hafsvæðisins.
    2. Að stjórnkerfi fiskveiða stuðli að því að bæta meðferð afla, vernda smáfisk og verja lífríkið í sjónum fyrir óheppilegum áhrifum veiðiaðferða.
    3. Að réttlætis verði gætt gagnvart byggðarlögum, sjómönnum, fiskvinnslufólki og útgerðaraðilum.
    4. Að komið verði í veg fyrir að fiski verði hent í sjóinn.
    5. Að stjórnkerfi fiskveiðanna feli í sér hvata til hagræðingar í fiskveiðum.
    6. Að stuðlað sé að nýsköpun og eðlilegum aðgangi nýrra aðila að sjávarútvegi.
    Með þetta að markmiði höfum við síðan unnið að þessum málum. Við héldum sjávarútvegsráðstefnu fyrir stuttu síðan á Austfjörðum og við höfum stofnað sérstakan sjávarútvegshóp í Alþb. til að fjalla um þessi mál. En í samræmi við þessa stefnumörkun frá því í haust höfum við flutt, eins og ég sagði áðan, tvær tillögur. Fyrri tillagan á þskj. 33 og var um gæðamál og sölumeðferð á fiski. Hin tillagan, sem er hér til umræðu, er um tímabundnar ráðstafanir í sjávarútvegsmálum.
    Ég verð að lýsa yfir sérstakri óánægju með það að í þinginu hafa ekki verið til umræðu frá hendi ríkisstjórnarinnar neinar sambærilegar tillögur við það sem við höfum lagt fram. Ég tel að það sé mikið slys að menn skuli ekki hafa viljað taka tímabundið á þeim vanda sem er í sjávarútveginum og mun að öllum líkindum verða að bíða að mestu leyti endurskoðunarinnar sem er í gangi núna. Ég ætla aðeins lesa úr greinargerðinni, með leyfi forseta:
    ,,Endurskoðun laga um stjórn fiskveiða stendur nú yfir og skal vera lokið fyrir áramótin 1992--1993. Mikið umrót og óvissuástand hefur skapast vegna þeirra laga sem nú gilda um stjórn fiskveiða og óvissunnar um hvort þau muni breytast og hvernig. Ofan á þetta bætist gríðarlegur rekstrarvandi í sjávarútveginum og er nú þannig komið að fjölmörg fyrirtæki riða á barmi gjaldþrots eða eru nú þegar gjaldþrota.
    Heimaaðilar og sveitarfélög hafa víða enga möguleika á að tryggja að veiðiheimildir verði ekki seldar í burtu. Veiðiheimildir flytjast einnig stjórnlaust milli skipagerða án tillits til atvinnusjónarmiða og þjóðhagslegrar hagkvæmni. Veruleg hætta er á miklum atvinnumissi vegna þessa.
    Auk almennra og sértækra ráðstafana til að styrkja atvinnugreinina í heild er nauðsynlegt að koma í veg fyrir að margvísleg vandamál skapist þann tíma sem tekur að endurskoða lögin um stjórn fiskveiða.
    Draga mætti tímabundið úr flutningi veiðiheimilda milli byggðarlaga með því að beita kvótaskerðingu. Þann kvóta sem þannig félli til mætti setja í Hagræðingarsjóð til að styrkja byggðarlög sem lenda í erfiðleikum.
    Brýna nauðsyn ber nú til að stöðva flutning fiskvinnslunnar út á sjó, þ.e. fjölgun frystitogara. Þann tíma sem vinnst þarf fiskvinnslan í landi og útgerð tengd henni að nota til að endurmeta stöðu sína og búa sig undir að takast á við kröfuna um ferskara hráefni.``
    Þessi mál hafa verið til umræðu í þinginu hvað eftir annað í vetur. Við sjáum að það er verið að gera samninga bæði um smíðar og kaup á frystiskipum. Þetta þýðir að verið er að færa verulegan hluta af fiskvinnslunni út á sjó auk þess sem verið er að draga verulega úr atvinnustarfseminni í kringum fiskinn líka. Þess vegna hefði verið ástæða til að doka við og gefa fiskvinnslunni í landinu möguleika á því að bregðast við en að stórum hluta til er þetta að gerast vegna þess að menn sem stjórna fiskvinnslunni, útflutningnum frá landinu, hafa sofið á verðinum. Það er t.d. eitt af stóru atriðunum sem ráða því að menn fara út í að kaupa sér frystiskip að í gegnum tíðina hefur nánast óflokkaður fiskur frá Íslandi verið seldur t.d. til Bandaríkjanna, þ.e. ekki er gerður neinn munur á þeim fiski sem unninn er í þessar pakkningar. Ef hann nær þeim lágmarkskröfum sem gerðar eru til hans er hann allur seldur undir einu merki og einum flokki. Þetta þýðir að fiskvinnslan sem er að vinna fyrsta flokks hráefni oft á tíðum getur ekki fengið svipað verð og t.d. frystitogari sem vinnur afla sinn úti á sjó vegna þess að kaupendurnir eru tilbúnir að borga hærra verð fyrir þann fisk sem er seldur undir því merki að hann hafi verið unnin úti á hafi, einfaldlega vegna þess að þeir telja sig hafa tryggingu fyrir því að hann hafi verið unninn alveg ferskur. En nú eru menn að selja t.d. á Bandaríkjamarkað fisk sem er allt frá því að vera 1--2 daga gamall, frá veiðidegi, þegar hann fer í pakkningar og upp í það að vera 10--12 daga gamall. Það er alveg sama þótt einhver frystihús reyni að vanda sína vöru eins og þau mögulega geta og vinna einungis sem allra nýjast hráefni, þau fá ekki hærra verð en hin sem vinna fisk sem er orðinn mjög gamall ef hann nær þeim lágmarkskröfum sem gerðar eru til hans.
    Ég tel að þarna hefðu menn átt að bregðast við með því að stöðva þessa þróun, hreinlega banna innflutning á þessum skipum og frysta þetta ástand.
    Mörg byggðarlög sem byggja afkomu sína á bátaútgerð eru nú í mikilli óvissu vegna þess þrýstings sem forráðamenn útvegsmanna hafa beitt til að fá tvöföldun línuaflans afnumda. Þess vegna er nauðsynlegt að skera úr því máli með tilliti til byggðasjónarmiða. Þetta mál þarf alveg sérstakrar skoðunar við. Rökin fyrir því að ekki megi tvöfalda línuaflann vegna þeirra sjónarmiða, sem höfð hafa verið til hliðsjónar í því máli, eru sprottin af eignaréttarsjónarmiðum sem ráða í sjávarútvegi. Þeir eru aldeilis rasandi sumir, sem telja sig eiga kvóta, yfir því að menn séu að fá tvöföldun á kvótanum vegna þess að þeir veiði fisk á línu. Þeir eru orðnir svo uppteknir af því að þeir eigi þessa auðlind þjóðarinnar að ekki má færast

til eitt einasta tonn á milli réttra aðila í sjávarútvegi, þá er verið að taka eitthvað frá þeim. Upp á það horfum við að menn eru raunverulega búnir að slá eign sinni yfir réttinn til að veiða fisk. Þess vegna er það sem verið er að ýta út öllu sem hugsanlega verður til þess að veiðiréttur færist á milli skipagerða. Þá eru hagsmunir þeirra sem gera út og eiga þennan veiðirétt þeir einu sem eru í gildi. Aðrir hagsmunir, þjóðhagslegir t.d., komast aldrei inn í þessa umræðu. Og það er ekki bara þannig að menn eigi réttinn til þess að veiða samkvæmt einhverri aflareynslu sem þeir hafa fengið á einhverju árabili þegar þeir voru upp á sitt besta, einhver þrjú ár á öldinni sem fundin voru út sem áttu að gefa mönnum rétt til þess að veiða fisk við Ísland. Þeir eiga meira en það, þeir eiga áfram allan þann rétt sem myndast ef fiskstofnarnir stækka. Ef við fengjum einhvern tímann að veiða helmingi meira af þorski en veiddist á viðmiðunarárunum mundu þeir sem eiga veiðiréttinn í dag fá alla viðbótina til sín. Það er ekki aldeilis að þeir hafi bara unnið fyrir því að fá að veiða einmitt það sem þeir veiddu á viðmiðunarárunum og hafi myndað sér þennan þegnrétt sem menn hafa talað svo fagurlega um heldur eiga þeir framtíðina fyrir sér ef það tekst að láta fiskstofnana á Íslandsmiðum stækka.
    Sama má segja um krókaveiðileyfin á bátum undir 6 tonna markinu. Ýmis af minnstu byggðarlögunum sem byggja afkomu sína á smábátaútgerð munu hreinlega leggjast af ef kvóta verður úthlutað á báta undir 6 tonna markinu eins og gert er ráð fyrir í lögunum um stjórn fiskveiða. Það kapp sem menn leggja nú á að vinna sér inn kvóta á þessa báta er mjög hættulegt fyrir öryggi sjómanna og forkastanlegt að stjórnvöld skuli stuðla að glannalegri sjósókn með þessum hætti.
    Flutningur aflaheimilda frá smábátum til smærri skipa hefur verið mikill og hann mun hafa slæm áhrif í atvinnulegu tilliti, sérstaklega í smærri fiskiþorpunum á landsbyggðinni. Þá verður ekki litið fram hjá þeirri staðreynd að með þeirri tilfærslu veiðiheimilda, sem er í gangi og hefur verið undanfarið í stórum stíl, frá bátum og yfir á togara, er sóknin að færast frá stærri fiski yfir í smærri fisk, samanber meðalþyngd á fiski sem króka- og netaveiði skilar á móti meðalþyngd frá stærri togskipum. Einnig er ástæða til þess að ætla að sóknarkostnaður sé minni hjá bátum en togurum og þess vegna að mörgu leyti þjóðhagslega óhagkvæmt að þetta gerist. Því virðist einsýnt að loka beri fyrir flutning aflaheimilda frá þessum bátum til togaranna.
    Vegna þess afla sem talið er að fleygt sé í sjóinn er hér lagt til að sú tilraun verði gerð að gefa mönnum kost á að koma með allan afla að landi sem kemur í veiðarfærin. Sá kostur verði í boði að skip geti landað aflanum utan kvóta. Afli verði seldur, útgerðin fái metið kostnaðarverð fyrir hann, en mismunurinn verði síðan nýttur t.d. í þyrlukaupasjóð.
    Þá er lagt til að menn leggi á hilluna öll áform um að fénýta Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins og allar ráðstafanir í sjávarútvegsmálum sem gerðar verði á árinu 1992 verði við það miðaðar að tryggja sem best stöðugleika í greininni á meðan endurskoðun laganna um stjórn fiskveiða stendur yfir. Eins og menn heyra þá er þetta samið áður en lögin um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins fóru í gegnum þingið en þar fyrir stendur þetta enn þá fyrir sínu. Það er aldrei of seint að hverfa frá villu síns vegar og ég hvet hæstv. sjútvrh. til þess að endurskoða lögin um Hagræðingarsjóðinn sem allra fyrst.
    Ég legg til að að lokinni umræðu verði þáltill. vísað til síðari umr. og sjútvn.