Ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 14:55:00 (5148)

     Magnús Jónsson :
    Virðulegi forseti. Ég held að hér sé mjög þörfu máli hreyft og vil byrja á því að lýsa stuðningi mínum við meginatriði þess, einkum og sér í lagi þau atriði sem eru talin upp í öðrum til sjötta lið, þ.e. að stöðva beri frekari flutning fiskvinnslu út á sjó, að lýsa yfir tvöföldun línuaflans, lýsa yfir að ekki sé stefnt að afnámi krókaveiðileyfa undir 6 tonna markinu og að stemma stigu við flutningi veiðiheimilda frá minni bátum og trillum yfir á stærri skip. Það sjötta er að hindra að afla og einkum smáfiski sé hent í sjóinn. Ég held raunar að þetta séu þannig mál að það eigi að vera nánast samstaða um að afgreiða svona hluti tímabundið. Vissulega er það rétt að sjávarútvegsstefnan er í endurskoðun og ég held raunar að þetta séu atriði sem hljóti að vega nokkuð þungt í þeirri endurskoðun.
    Fjölmörg atriði í þessu hafa verið að koma í ljós á undanförnum mánuðum og sýna í raun fáránleika og ég vil segja eyðingarstefnuna sem nú er rekin í sjávarútveginum: Að það skuli eiga sér stað núna að fiskveiðar við Ísland skuli að verulegu leyti vera að flytjast frá smærri bátum yfir á stór skip, að flytjast frá veiðarfærum sem eru mjög umhverfisvæn, ef nota má svoleiðis orð, yfir í veiðarfæri sem eru mjög umdeild hvað snertir umhverfisþáttinn. Það er hlutur sem ég held að menn hljóti að þurfa að endurskoða og það fyrr en seinna.
    Það er fróðlegt að skoða línurit, sem er fylgirit með þessari þáltill., um þróun sjófrystingar undanfarin ár. Það vantar árið 1991 en sú súla er enn hærri en þessi frá 1990. Eftir að þetta er komið á fullan skrið --- og við getum lagt við 1987 og 1988, það er mikil aukning á þessum árum --- hlýtur að hafa dregið mjög verulega úr vinnslu í landi.
    Við búum við það núna að hafa haft neikvæðan hagvöxt í fimm eða sex ár samfleytt og ég get ekki neitað því að það hvarflaði að mér hvort eitthvert samband sé milli þeirrar hagvaxtarþróunar og þessa súlurits sem þarna kemur fram. Með öðrum orðum hvort við séum nánast að grafa okkur gröf í sambandi við lífskjör til frambúðar. Það er líka furðulegt að á sama tíma og verið er að eyðileggja smábáta skuli verið að fjárfesta í frystitogurum upp á a.m.k. 4 milljarða. Það er líka athyglisvert að skoða umhverfisþáttinn í þessu máli því við, sem erum á því að togararnir geti verið mjög skaðlegir lífríki sjávarins, erum ekki einir á báti. Mig langar að vitna í grein eða ummæli fyrrv. siglingamálastjóra, núv. aðstoðarmanns umhvrh., þegar hann er að fjalla um þessi mál, með leyfi forseta:
    ,,Almennt má segja að uppi séu hugmyndir um að skoða veiðarfæri út frá því hvaða áhrif þau hafa á lífríkið, hvort tiltekin veiðarfæri geta valdið skaða á lífríkinu. Það getur verið um að ræða eyðileggingu á gróðri eða dýraríki og jafnvel að þau taki upp aukaafla sem er óæskilegur.``
    Það hefur komið fram í dagsljósið á undanförnum mánuðum og missirum að togarar eira nánast engu þegar þeir vita af fiski einhvers staðar, þá eru nánast öll meðul notuð til þess að ná þessum fiski. Ég hef heimildir fyrir því að menn hafi jafnvel skipulega verið að vinna að útjöfnun á botni sjávarins til þess að geta komið að togveiðafærum. Það sér hver maður að fáránlegt er að ætla sér að bera þetta saman eins og nú er gert og jafnvel auka þessar veiðar á kostnað veiða með krókum.
    Í þessu sama viðtali segir Magnús Jóhannesson orðrétt, með leyfi forseta, þegar hann er spurður um framtíð frystitogaranna:
    ,,Þess vegna er ég sannfærður um það að veiðar frystitogara eins og þær eru stundaðar nú munu ekki eiga framtíð fyrir sér.``
    Það hlýtur að vera mjög vafasamt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, ef menn ætla að stefna að því að auka þessar veiðar á sama tíma og það á að útrýma hinum. Því hefur verið haldið fram að það megi ekki gera neitt núna á þessu ári vegna þess að allt sé í endurskoðun.
    Í gær mælti hæstv. sjútvrh. fyrir fjórum frv. sem tengjast sjávarútvegsstefnunni þó að rétt sé að það sé ekki verið beinlínis að kveða á um að ekki megi breyta þar einu eða neinu. En þó er þar t.d. eitt atriði sem ég rak augun í. Þar er gert ráð fyrir því í frv. um Fiskistofu að ekki geti komið nýir útgerðaraðilar inn, að þeir geti ekki fengið leyfi til fiskveiða. Með öðrum orðum: Þetta er orðið lokað kerfi og það er gert ráð fyrir því að þetta verði lokað kerfi þannig að enginn geti fengið leyfi til fiskveiða á Íslandi nema hann hafi haft slíkt leyfi. Og eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson kom hér inn á áðan að enginn nýr aðili getur fengið að koma inn til þess að veiða slíka aukningu þótt kvótinn verði aukinn um helming. Það bætist einfaldlega ofan á þá sem eru fyrir.
    Ég sé því ekki betur en að með þessum frv. í gær, þótt þau séu ekki gerð að umræðuefni hér, sé verið að gefa það til kynna að festa eigi enn frekar í sessi núverandi fiskveiðistefnu.
    Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu frekar, enda er tími minn búinn, en ég vil skora á hæstv. sjútvrh. að taka til gaumgæfilegrar athugunar þau atriði sem þarna er minnst á, einkum og sér í lagi hvað varðar smábátana, því eins og sjómennska á þeim er stunduð núna er það raunar guðs mildi að ekki skuli hafa hlotist af stórslys.