Ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 15:04:00 (5149)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Sum þeirra atriða sem hér er lagt til að tekið verði á eru allrar athygli verð og nauðsynlegt að takast á við í stjórnsýslu sjávarútvegsins. Önnur hljóta að koma til skoðunar við þá athugun sem nú fer fram og endurskoðun á fiskveiðilöggjöfinni. Það væri fullkomlega óeðlilegt að Alþingi færi að álykta um einstaka þætti þess og binda þannig hendur þeirra sem vinna að endurskoðuninni enda á hv. sjútvn. samkvæmt lagaboði aðild að þeirri endurskoðun og hefur með því skipulagi sem upp hefur verið komið í því efni alla möguleika á að hafa sjálf frumkvæði að því með hvaða hætti hún kemur sínum sjónarmiðum á framfæri við endurskoðunarnefndina.
    Hér eru einnig atriði sem nú þegar eru á undirbúningsstigi. Ég nefni það atriði sem lýtur að frystitogurunum. Að vísu geta verið mismunandi skoðanir uppi í þeim efnum. Ríkisstjórnin telur ekki að beita eigi boðum og bönnum heldur að koma eigi á jafnari starfsskilyrðum. Hún hefur lagt frv. fyrir þingið, og það er til meðferðar í hv. sjútvn., um vinnslu um borð í skipum þar sem gert er ráð fyrir aukinni nýtingu og bættri meðferð afla og jöfnun á starfsskilyrðum vinnslu í landi og úti á sjó. Þessi þáltill. gerir hins vegar ráð fyrir því að stöðva eigi kaup á frystitogurum með boðum og bönnum. Þó að ég hafi ákveðnar áhyggjur af því að þessi þróun verði of hröð, þá er ég andvígur því að beita bönnum í þessu efni eins og orðalag ályktunarinnar gefur til kynna. Hitt væri miklu nær að koma fram með hraði því frv. sem liggur fyrir hv. sjútvn.
    Það hefur einnig verið unnið að því með sérstöku samstarfsátaki milli ráðuneytisins og sjómanna og útgerðarmanna að stemma stigu við því að smáfiski sé hent. Eins og hv. flm. er kunnugt um eru heimildir innan ákveðinna marka til að koma með undirmálsfisk að landi. Í ýmsum efnum er því verið að vinna að atriðum sem hér er fjallað um. Önnur er eðlilegt að komi til skoðunar við endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar en óeðlilegt að binda hendur þeirra sem þar um fjalla með sérstakri ályktun frá Alþingi.
    Ræða hv. 7. þm. Reykv. vakti hins vegar nokkra athygli mína. Það kemur svolítið spánskt fyrir sjónir þegar þingmaður Alþfl. vill innleiða hér meiri ríkisafskipti og opinber afskipti með því að banna frystitogara með því að setja ákveðnar skorður á því hvert er hlutfallið á milli veiða smábáta og stærri togara og hindra að veiðar skipa geti þróast með eðlilegum hætti án opinberra afskipta. Allt í einu er þingmaður Alþfl. kominn hér með þau sjónarmið að ríkisvaldið eigi að hlutast til um það hver verður þróunin í þessari grein. En það er auðvitað sérstaklega athyglisvert að þingmaður Alþfl. skuli koma hér upp og

lýsa yfir stuðningi við tillögu Alþb. um að stöðva frekari frystitogarakaup í ljósi reynslunnar. Ég hef haft af því nokkrar áhyggjur að þessi þróun yrði of ör. Ég beitti mér þess vegna fyrir því að lánveitingar í Fiskveiðasjóði yrðu takmarkaðar þegar í ljós kom að sjóðstjórnin hafði veitt nokkuð mikil lán til nýrra verkefna á þessu sviði. Þegar til átti að taka ákvað hæstv. viðskrh. hins vegar að opna allar flóðgáttir fyrir erlendri lántöku til þess að fjölga frystitogurum. En nú kemur einn af þingmönnum Alþfl. og lýsir yfir stuðningi við þá tillögu Alþb. að stöðva frekari frystitogarakaup. Ég held að hv. þm. ætti að óska eftir því að þeir alþýðuflokksmenn taki til í garðinum heima hjá sér áður en þeir blanda sér í umræður með þessum hætti hér í þingsölum og geri það upp við sig hvort það sé stefna hv. þm. eða stefna hæstv. viðskrh. sem á að gilda fyrir Alþfl. í þessu efni en sjónarmið þeirra virðast fara út og suður ef marka má þau sjónarmið sem hv. þm. lýsti hér og þær ákvarðanir sem hæstv. viðskrh. hefur tekið í þessum efnum.
    Ég skildi hv. þm. einnig þannig að hann væri þeirrar skoðunar að það ætti að opna með öllu aðgang til veiða og það ætti ekki að hafa neinar takmarkanir á því að aðilar gætu hafið veiðar. Ef sú er ekki merking orða hans, þegar hann mælir gegn þeirri skipan sem nú er, þá er næst að halda að í hans huga sé að stjórnvöld eigi að skammta nýjum aðilum aðgang að fiskveiðunum. Að minnsta kosti er hv. þm. að mæla fyrir mikilli grundvallarbreytingu sem ég sé ekki að geti samræmst því markmiði að við varðveitum fiskstofnana og tryggjum um leið að þeir séu hagnýttir á sem hagkvæmastan hátt því að ef við hverfum frá núverandi skipan og heimilum öllum frjálsan aðgang að veiðunum verða þær stundaðar með býsna óarðbærum hætti og lífskjör þjóðarinnar mundu rýrna mikið og ég efast um að hv. þm. mundi vilja taka ábyrgð á því. Hér er því hreyft nokkuð kynlegum hugmyndum. Það er hins vegar ekkert sem kemur í veg fyrir það að nýir aðilar komi inn í þessa atvinnugrein og núverandi stjórnfyrirkomulag girðir á engan hátt fyrir það enda er það býsna algengt að nýir aðilar komi inn og þeir hafa vaxið upp og dafnað. Nýir aðilar hafa komið inn og orðið að stórum útgerðaraðilum eftir að núverandi skipan var tekin upp svo því fer víðs fjarri að kerfið útiloki þetta. En eigi að hvika frá grundvallaratriðunum í þessu efni, þá er ég hræddur um að það stefni í óefni varðandi nýtingu auðlindarinnar og þá eðlilegu kröfu þjóðarinnar að veiðarnar séu stundaðar með sem mestri hagkvæmni. Sjónarmið hv. þm. Alþfl. sem hér talaði ganga þvert gegn þeim sjónarmiðum.