Ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 15:22:00 (5154)

     Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er margt sem breytist á milli daga. Nú hafði hæstv. sjútvrh. miklar áhyggjur af því að það sem verið er að leggja til í okkar tillögu þyrfti auðvitað að fara í umfjöllun í steríónefndinni því að ekki mætti binda hendur hennar með einhverjum samþykktum í þinginu. Í gær lagði hann fram stórkostlegar hugmyndir um breytingar á öllu stjórnkerfi í kringum sjávarútvegsmálin og lýsti því sérstaklega yfir í ræðu á hv. Alþingi að þessi merkilega nefnd ætti ekki að fjalla um þær. Það væri ekki aldeilis þörf á því. Það er mjög sérkennilegt og ég held að víða verði eftir því tekið að hæstv. sjútvrh. skuli hafa sagt það hér í þinginu að nefndin ætti ekki að skoða tillögurnar sem nefndin lagði fram í gær og mælti fyrir.
    Ég verð að segja alveg eins og er að ég öfunda hæstv. sjútvrh. ekki af hans hlutverki í þessari ríkisstjórn ef það er svo slæmt að hæstv. viðskrh. skuli hafa eyðilagt fyrir honum hugmyndirnar um það að koma í veg fyrir kaup á skipum til landsins. Og það getur varla verið að merkilegt samráð sé eða góð samstaða í ríkisstjórn þar sem einn kemur með hugmyndir og tillögur og annar brýtur allt niður. Mér þykir þessi yfirlýsing afar merkileg og hún útskýrir auðvitað það sem hefur gerst í vetur að menn virðast geta keypt skip til landsins burt séð frá því að Fiskveiðasjóður er búinn að taka upp nýjar reglur. Það er mjög athyglisvert.
    Ég vil svo mótmæla því sérstaklega sem hæstv. sjútvrh. sagði að hann teldi að ekki mætti koma í veg fyrir að fiskveiðarnar þróuðust með eðlilegum hætti, þ.e. að veiðiréttur færðist á milli skipanna með eðlilegum hætti og er greinilega vísað til þess að kaup og sala á aflaheimildum sé það sem tryggir það alfarið. Engan veginn er sannað og hefur því miður ekki verið skoðað almennilega þannig að menn geti fullyrt að þetta tryggi að hagsmunir þjóðarinnar hafi verið hafðir að leiðarljósi við tilfærslur á veiðiheimildum.