Ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 15:33:00 (5159)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. 7. þm. Reykv. lýsir því yfir að hann vilji ekki boð og bönn en jafnframt lýsir hann yfir fullum stuðningi við þáltill. Alþb. um að stöðva frekari vinnslu um borð í frystiskipum. Ég held að þessar gagnstæðu yfirlýsingar segi allt um málflutning hv. þm. Ekkert hefur gerst í núverandi fiskveiðistjórnunarlöggjöf sem takmarkar útgerð smábáta, þvert á móti hefur í engum flokki skipa fjölgað meira en einmitt í hópi smábáta. Hins vegar er mjög eðlilegt að ákveðin þróun eigi sér stað frá einum tíma til annars á milli stærðarflokka fiskiskipa og fiskveiðistjórnunarlöggjöfin er alveg ótvírætt farin að skila árangri í því að aflaheimildir hafa færst saman og við nýtum nú betur fiskiskipastólinn og eigum eftir að sjá meiri árangur af því á næstunni.
    En að lokum, herra forseti, þá kemst ég ekki hjá því að víkja enn og aftur að því sjónarmiði hv. þm. að öllum eigi að vera frjálst að hefja veiðar á þann veg að engum takmörkunum sé háð hver fjöldi þeirra er sem stundar veiðarnar á sama tíma og við búum við verulega takmörkun á afrakstri fiskstofnanna. Annaðhvort er verið að stefna í slíka sóun á verðmætum varðandi sókn eða þá að hv. þm. stendur nákvæmlega á sama um hversu nærri við göngum stofnunum og er reiðubúinn að taka áhættu af því að þeir hrynji fyrir sakir ofsóknar. Það fer einfaldlega ekki saman að hafa hlutina á þann veg gjörsamlega opna að hver sem er geti komið inn og hafið veiðar án tillits til þeirrar sóknar sem fyrir er. Það kerfi stenst einfaldlega ekki við ríkjandi aðstæður. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að við erum að stýra veiðum í takmarkaða auðlind og við höfum gert það með kerfi sem tryggir miðað við takmarkaða auðlind best athafnafrelsi. Hv. þm. getur ekki sýnt fram á að nokkuð annað stjórnkerfi tryggi meira athafnafrelsi en þetta í ljósi þess að við þurfum að takmarka veiðarnar. En mér er nær að halda að hv. þm. telji enga þörf á því að hafa stjórn á veiðum og hver sem er geti komið inn í veiðarnar án nokkurra takmarkana.