Fulltrúar Alþingis á umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Río de Janeiro

119. fundur
Mánudaginn 06. apríl 1992, kl. 13:57:02 (5178)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áðan er upphaf þess að ég óska eftir að fá að tala um þingsköp það að í Morgunblaðinu á sunnudaginn er sagt frá umhverfismálaráðstefnu í Ríó. Með leyfi forseta vil ég vitna í þessa frétt. Þar segir:
    ,,Alþýðubandalag vill senda fimm fulltrúa frá Alþingi. Ákvörðun tekin um að senda tvo. Þingflokkur Alþýðubandalagsins hefur mótmælt þeirri ákvörðun forsætisnefndar Alþingis að senda tvo þingmenn, einn úr stjórn og einn úr stjórnarandstöðu, á umhverfismálaráðstefnuna í Río de Janeiro í Brasilíu í júnímánuði. Flokkurinn vill senda fimm fulltrúa frá Alþingi, einn frá hverjum þingflokki. Salome Þorkelsdóttir, forseti Alþingis, staðfesti við Morgunblaðið í gær að sér hefði borist bréf frá þingflokki Alþýðubandalagsins þessa efnis.``
    Hæstv. forseti. Það er ekki rétt sem sagt er hér. Alþb. hefur ekki krafist þess að fimm fulltrúar verði sendir frá Alþingi.
    Alþb. skrifaði bréf til forseta Alþingis þann 1. apríl sl. og með leyfi hæstv. forseta vil lesa upphaf og endi þess til þess að skýra málið betur. Í upphafi bréfsins stendur:
    ,,Þingflokkur Alþýðubandalagsins lýsir megnri óánægju sinni með þau munnlegu skilaboð sem nú hafa borist frá forsætisnefnd Alþingis að horfið verði frá því að allir þingflokkar eigi þess kost að senda fulltrúa sína á umhverfismálaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fram undan er í Brasilíu.
    Þingflokkur Alþýðubandalagsins hefur þegar valið Hjörleif Guttormsson sem fulltrúa sinn á ráðstefnuna og hefur hann nú um nokkurra vikna skeið unnið að undirbúningi undir ráðstefnuna. Þingflokkurinn taldi sig hafa upplýsingar um að fulltrúum allra þingflokka mundi gefast kostur á að sækja ráðstefnuna.``
    Í lok bréfsins stendur: ,,Það er lágmarkskrafa að mati þingflokks Alþýðubandalagsins að það verði tryggt í gegnum þátttöku Alþingis að þeir þingflokkar fái fulltrúa sem ekki eiga þegar menn úr sínum röðum í hópi ráðstefnufara sem fulltrúar ríkisstjórnar eða ráðuneyta.``
    Við erum sem sagt ekki að gera tillögu um að Alþingi sendi fimm fulltrúa heldur einungis að fara

fram á að allir þingflokkar eigi fulltrúa á ráðstefnunni.
    Þegar þetta kom til umræðu á fundi með formönnum þingflokka þar sem ég mætti var ég með þau skilaboð frá Alþb. að við teldum annað ófært en að þar yrðu fulltrúar frá öllum þingflokkum en teldum jafnframt að ráðherrar gætu eins vel verið fulltrúar sinna flokka og þess vegna þyrfti ekki að fjölga á ráðstefnunni. Á þeim fundi komu ekki fram þær upplýsingar, sem hæstv. forseti kemur með í umræddu viðtali, að 11 fulltrúar muni verða sendir. Á fundinum var ég einnig með þau skilaboð frá Alþb. að við mundum ekki mótmæla ef einungis 10--12 fulltrúar verða sendir.
    Mér eru mikil vonbrigði að þurfa að segja það en mér finnst full ástæða til þess að mótmæla þegar forseti staðfestir ranga frásögn af því hvað standi í bréfi Alþb. Eins og hv. þm. vita höfum við beðið eftir þessari ráðstefnu í allan vetur eftir að bréf kom frá umhvrn. þar sem lagt var til að þingflokkar sendu einn þingmann hver á ráðstefnuna. Við gerðum ráð fyrir því fyrirkomulagi og fulltrúi okkar hefur undirbúið sig og tekið þátt í fundum til þess að undirbúa ráðstefnuna. Þegar sú ákvörðun forsætisnefndar Alþingis kemur svo fram að aðeins tveir þingmenn verði sendir mótmælum við því. Þótt menn ætli sér einungis að senda 13 fulltrúa samanlagt eins og núna virðist liggja fyrir er full ástæða til þess að þrír af þeim 13 fulltrúum séu fulltrúar stjórnarandstöðunnar.