Fulltrúar Alþingis á umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Río de Janeiro

119. fundur
Mánudaginn 06. apríl 1992, kl. 14:09:00 (5182)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Vegna þeirra orða sem hér hafa fallið er mjög sérkennilegt að á Íslandi skuli öll umræðan um undirbúning ráðstefnunnar snúast um það hverjir fara, hve margir og fleiri atriði þar að lútandi en ekki um þau efnisatriði sem fjalla á um á hinni mikilvægu ráðstefnu. Ég get þess í leiðinni að sá sem þetta mælir átti raunar að vera suður á Keflavíkurflugvelli núna til þess að taka á móti umhverfisráðherra Portúgals sem kemur hingað í forsvari fyrir EB-ríkin, m.a. til þess að ræða undirbúning og efnisatriði ráðstefnunnar. En varðandi þau orð sem hv. þm. Steingrímur Sigfússon lét falla hér áðan þá hefur auðvitað aldrei í allri þessari umræðu staðið til að á vegum ríkisins færu 40 manns til þessarar ráðstefnu og það veit hv. þm. áreiðanlega mjög vel. Hins vegar hefur undanfarnar vikur verið mjög mikill áhugi margra samtaka á því að taka þátt í þessari ráðstefnu og þeirri ráðstefnu sem fer fram samhliða henni, félagasamtaka. Þegar rætt var við ferðaskrifstofurnar og reynt að afla upplýsinga og fá kostnað við ferðina niður var talið rétt að hafa töluna rúma þannig að allir þeir sem héðan færu, ekki bara á vegum ríkisins heldur líka á vegum allra félagasamtaka sem sýndu mikinn áhuga á að fara þarna, gætu átt kost á hagstæðu fargjaldi. Engin skuldbinding hefur falist í þessari tölu um þátttöku ríkisins, hún verður auðvitað langtum minni og það hefur verið nefnt að það yrðu u.þ.b. 10--12. Það er alls ekki ljóst enn þá. Fleiri verða það örugglega ekki á þessari stundu.
    Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vitnaði í bréf frá umhvrn. Þegar síðasta ráðstefna af þessu tagi var haldin í Stokkhólmi, sú eina, fyrir 20 árum þá voru þar fulltrúar þingflokka. Þess vegna skrifaði umhvrn. þingflokkunum bréf þar sem lagt var til að fulltrúar Alþingis yrðu einn fulltrúi frá hverjum þingflokki eins og var á síðustu ráðstefnu, fulltrúar ráðuneyta frá þeim ráðuneytum sem málið snertir. Síðan sagði --- og nú ætla ég að lesa það sem hv. þm. Steingrímur Sigfússon las ekki --- hvað varðar kostnað við þátttöku sendinefndarinnar í ráðstefnunni: ,,Er lagt til að viðkomandi ráðuneyti eða stofnun greiði allan kostnað við fulltrúa sinn og Alþingi greiði kostnað fyrir fulltrúa þingflokka.`` Síðan segir, með leyfi forseta: ,,Hér með er óskað eftir tilkynningu um það hvort þér hyggist tilnefna fulltrúa í íslensku sendinefndina og það berist ráðuneytinu fyrir 1. mars.`` Hvort þér hyggist? Það voru ekki önnur tilmæli frá umhvrn. en að leita eftir því hvort þingflokkar hygðust tilnefna fulltrúa. Þetta er nauðsynlegt, virðulegi forseti, að sé alveg skýrt sérstaklega í ljósi þeirra ummæla sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lét falla hér áðan.