Greiðslukortastarfsemi

119. fundur
Mánudaginn 06. apríl 1992, kl. 14:24:00 (5186)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Frv. til laga um greiðslukortastarfsemi sem er á þskj. 655 og ég mæli nú fyrir er nú flutt að nýju og er þess vænst að það fái vandaða en skjóta meðferð á þessu þingi, einkum með hliðsjón af þeirri ítarlegu umfjöllun sem málið hefur áður fengið á hv. Alþingi.
    Frv. var upphaflega samið af nefnd sem skipuð var í ársbyrjun 1988 til að leggja drög að löggjöf um starfsemi á fjármagnsmarkaði utan viðskiptabanka og sparisjóða en hefur verið endurskoðað af hálfu embættismanna viðskiptaráðuneytis í samráði við þingflokka ríkisstjórnarinnar.
    Vonast er til þess að sú endurskoðun greiði fyrir málinu en á síðasta þingi mælti ég fyrir frv. náskyldu þessu en það náði þá ekki fram að ganga.
    Í þessu frv. og þeim sem á undan því fóru var í fyrsta sinn gerð tillaga um sérstaka lagasetningu um greiðslukortastarfsemina. Og þess vegna eru öll ákvæði þessa frv. nýmæli í íslenskum lögum.
    Það eru fyrir því margar ástæður að nú er nauðsynlegt að setja um þetta efni sérstaka löggjöf. Ég ætla að nefna örfá atriði þessu til staðfestingar. Í fyrsta lagi hefur greiðslukortanotkun vaxið stöðugt undanfarinn áratug, þann áratug sem innlend kortafyrirtæki hafa starfað hér á landi. Eins og öllum er kunnugt eru greiðslukortin nú mikið notaður greiðslumáti meðal alls almennings. Gera má ráð fyrir að útbreiðsla greiðslukortanna aukist enn þegar nýjar tegundir korta verða teknar í notkun eins og svonefnd debetkort sem væntanlega munu í framtíðinni leysa af hólmi ávísanir á banka og sparisjóði.
    Með aukinni notkun hefur jafnframt komið í ljós að þörf er á að kveða á í lögum um ýmis atriði sem tengjast notkun þessara korta. Ég nefni sérstaklega í þessu sambandi hvernig haga skuli ýmsum samskiptum korthafanna og útgefanda kortanna bæði vegna útgáfu greiðslukortsins sjálfs og ekki síst gerð samnings um greiðslukortið og framkvæmd þessa samnings. Einnig er nauðsynlegt að setja skýrar reglur í lög sem mæla fyrir um ábyrgð korthafa vegna ólögmætrar notkunar kortsins. Í frv. er þannig til að mynda að finna reglur um hámark þeirrar fjárhæðar sem korthafa kann að vera gert að greiða ef kort týnist eða tapast á annan hátt. Einnig er kveðið á um ábyrgð útgefanda kortsins að svo miklu leyti sem korthafinn verður ekki gerður ábyrgur fyrir því tjóni sem hljótast kann af kortaviðskiptum með ólögmætum hætti. Enn fremur þykir nauðsynlegt að settar verði reglur um lögskipti greiðsluviðtakanda, þ.e. þeirra sem selja korthöfunum eitthvað, vöru eða þjónustu, og taka greiðslu fyrir með ástimplun á kortareikninginn og kortaútgefandans sem annast þessa greiðslumiðlun.
    Í stuttu máli er megintilgangur þessa frv. að gæta hagsmuna almennings og neytenda sérstaklega í skiptum við kortafyrirtækin og þá sem taka við greiðslum með kortum, að tryggja nauðsynlegt eftirlit með þessari starfsemi og yfirleitt að móta skýrt þennan farveg greiðslumiðlunar í landslagi viðskiptanna. Nauðsynlegt er að setja lagaramma vegna þessarar starfsemi, m.a. vegna samanburðar við aðra greiðslumiðlun og lánastarfsemi sem fer fram innan þeirra stofnana sem fyrir eru á fjármagnsmarkaðnum.
    Sjónarmið jafnræðis á milli fyrirtækja sem annast fjármál og þjónustu er afar mikilvægt í þessu máli. Einnig má líta á þetta frv. sem einn þátt í aðlögun íslenskra efnahags- og fjármála að aðstæðum í Evrópu sem tekið hafa miklum breytingum að undanförnu og eru nú á miklu breytingaskeiði.
    Frv. sem ég mæli fyrir er að hluta byggt á erlendum fyrirmyndum. Við gerð þess hefur verið m.a. höfð til hliðsjónar dönsk löggjöf um þetta efni en svo ekki síður --- reyndar kannski fyrst og fremst --- samþykkt tilmæli Evrópubandalagsins og aðildarríkja þess varðandi greiðslumiðlum.
    Ég vík þá að einstökum þáttum þessa frv. og hlýt, virðulegur forseti, að fara næsta fljótt yfir sögu enda hefur þetta frv. eins og ég hef þegar nefnt áður komið til umfjöllunar á þingi.
    Í I. kafla frv. er að finna ákvæði um gildissvið laganna, skilgreiningu helstu hugtaka og vísa ég til frv. og greinargerðar með því um þau efni.
    Í 4. gr. hefur einnig verið bætt við ákvæði um það að einungis viðskiptabönkum og sparisjóðum sé heimilt að gefa út svonefnd debetkort sem ég hef áður nefnt í máli mínu, en það eru kort sem nota má til þess að greiða fyrir vöru eða þjónustu með beinni millifærslu á innlánsreikningi korthafans. Gera má ráð fyrir því að þessi tegund korta muni þegar fram í sækir leysa af hólmi ávísanir sem nú eru algengari í viðskiptum á Íslandi en í flestum öðrum löndum.

    Í II. kafla frv. er lagt til að kortaútgefendur skuli hafa skráð firma eða útibú hér á landi nema annað leiði af alþjóðlegum samningum eða sérstakar undanþágur verði veittar frá þessari reglu. Jafnframt er svo í 4. gr. áskilið að kortaútgefanda sé skylt að afla sér starfsleyfis og að tilkynna um öll meginatriði greiðslukortastarfseminnar og hvernig hún skuli fara fram. Í II. kafla frv. er einnig kveðið nánar á um eftirlit með greiðslukortastarfseminni og það falið bankaeftirliti Seðlabankans. Er eðlilegt með hliðsjón af þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið með starfsemi bankaeftirlitsins í lögum á undanförnum árum. Þá er jafnframt ákvæði um skyldu Verðlagsstofnunar undir yfirstjórn Verðlagsráðs að fylgjast með því að greiðslukortastarfsemin sé rekin í samræmi við sanngjarna viðskiptahætti.
    Í III. kafla frv. er að finna ýmis almenn ákvæði varðandi greiðslukortastarfsemina. Þannig er í 7. gr. mælt fyrir um ýmis atriði sem réttmætt þykir að kortaútgefandinn upplýsi áður en samningur er gerður milli hans og korthafans um útgáfu greiðslukortsins.     Í 8. gr. er lögð til sú meginregla að útgáfa greiðslukortsins skuli ávallt byggjast á viðskiptatrausti umsækjandans um greiðslukort en ekki annarra aðila. Þetta er afar mikilvægt ákvæði. Sú tilhögun er reyndar líka í samræmi við þá viðskiptavenju sem myndast hefur almennt í öðrum löndum um gerð samninga um greiðslukort. Þannig gerir frv. ráð fyrir að aðeins í undantekningartilvikum verði aðrir en korthafinn krafðir um ábyrgð á úttekt samkvæmt greiðslukortasamningi en sá háttur, þ.e. tryggingavíxlar gefnir út eða með ábyrgð annarra aðila en greiðslukorthafans, hefur hins vegar verið aðalregla við gerð greiðslukortasamninga á Íslandi fram til þessa eins og hv. þm. er vafalaust vel kunnugt af mörgum dæmum og sumum misjöfnum af þeirri reglu.
    Þá er í frv. kveðið skýrt á um rétt þriðja aðila til þess að afturkalla ábyrgð sem hann hefur áður veitt, til að mynda hafi aðstæður gerbreyst eða forsendur fyrir áður veittri ábyrgð af hans hálfu teljast brostnar að öðru leyti.
    Í 9. og 11. gr. frv. er að finna ýmis ákvæði sem ætla verður að tryggi betur rétt þeirra sem nota greiðslukortin.
    Í 12. gr. er svo mörkuð sú stefna að greiðslumiðlun með greiðslukortum skuli ekki valda almennri hækkun á vöruverði. Þetta byggist m.a. á því að óeðlilegt þykir að kostnaði þeirra korthafa sem nota lánskort eða svonefnd kreditkort skuli velt yfir í verðlagið með þeim hætti sem hér hefur tíðkast. Því þykir rétt að kveða svo á um að almenna reglan verði að korthafar beri þann kostnað sem fylgir notkun greiðslukortsins. Það leiðir síðan af eðli kortsins hvort korthafinn þurfi að greiða lánskostnað auk annars kostnaðar sem óhjákvæmilega fylgir við notkun á greiðslumiðlun af þessu tagi.
    Þá er í 12. gr. frv. að finna heimildarákvæði fyrir Verðlagsráð til þess að ákveða hámarksgjald sem kortaútgefanda er heimilt að krefja greiðsluviðtakandann um, þ.e. mjög oft kaupmanninn eða þjónustufyrirtækið og aðra seljendur vöru og þjónustu sem taka við greiðslu frá almenningi með greiðslukortum. Með því að gera tillögu um þetta ákvæði er verið að stefna að því markmiði sem ég hef rakið hér að framan og jafnframt tekið undir það sjónarmið sem sett hefur verið fram, ekki síst af Neytendasamtökunum og Samtökum kaupmanna, að stuðlað verði að því að kostnaður af notkun greiðslukortsins leggist á korthafana en ekki aðra viðskiptavini verslana og hann komi ekki fram í hærra vöruverði en ella væri. Á síðasta ári er t.d. talið að vaxtagreiðslur félagsmanna Kaupmannasamtakanna til greiðslukortafyrirtækja hafi numið um eða yfir 300 millj. kr. Þessari heimild sem ég hef lýst eru þó þau takmörk sett að ekki verður unnt samkvæmt frv. að ákveða slíkt hámarksgjald ef það tíðkast almennt í viðkomandi verslunargrein að veita þeim afslátt sem borga með peningum eða með öðrum staðgreiðsluaðferðum.
    Loks er svo ákveðið að gjaldskrár kortaútgefenda skuli vera birtar opinberlega og aðgengilegar en slíkt eykur að sjálfsögðu verðskyn þeirra sem nota greiðslumiðlunina og eykur einnig samkeppni í þessari starfsemi, þ.e. að væntanlegir korthafar geti borið saman gjaldskrárnar hjá fyrirtækjunum.
    Í IV. kafla frv. er að finna reglur sem kveða á um ábyrgð korthafa vegna ólögmætrar notkunar á greiðslukortinu. Þar er lagt til að ákveðið verði hámark þeirrar bótafjárhæðar sem korthafa kann að verða skylt að greiða ef ekki er um að ræða tjón sem korthafi hefur sjálfur valdið með vísvitandi ráðstöfun sinni eða þá með vítaverðu gáleysi en um þetta eru nánari ákvæði í 13. gr. frv.
    Í 13. gr. er m.a. lagt til að hámarksbótafjárhæð, sem unnt sé að krefja korthafa um, sé 8.000 kr. þegar kortið hefur verið notað í heimildarleysi. Framangreind fjárhæðartakmörk eiga þó ekki við ef kortaútgefandinn sannar að korthafi eigi hlut að máli og er þá unnt að krefja hann um bætur fyrir allt það tjón sem orðið hefur. Vísa ég á 2. mgr. 13. gr. frv. í því sambandi. Ef einkaleyninúmer korthafans hefur verið notað við ólögmæta notkun á greiðslukorti þá eru fjárhæðarmörkin fyrir því tjóni, sem korthafa ber að mæta, 12.000 kr. Þetta á þó ekki við ef t.d. þykir sannað að korthafi hafi viljandi eða með ásetningi upplýst þann sem misfer með kortið um þetta leyninúmer.
    Fjárhæðarmörkin í 13. gr., sem ég hef hér lýst nokkuð, eru hliðstæð þeim mörkum sem lagt hefur verið til að gilda skuli í Danmörku samkvæmt frv. sem lagt var fram þar í landi á liðnu ári sem er ekki enn orðið að lögum. Með þessu ákvæði ætti að vera betur tryggt en nú að svipaðar reglur gildi um ábyrgð korthafa, þegar tilkynnt er um að greiðslukort hafi til að mynda tapast, óháð reglum sem einstakir kortaútgefendur setja. Í 13. gr. er einnig lagt til að kortaútgefandinn beri ábyrgð á því tjóni sem telja má að falli undir eðlilega rekstraráhættu sem greiðslukortastarfseminni fylgir nema tjónið verði rakið til saknæmra athafna greiðsluviðtakanda.
    Eins og hv. þm. heyra er þetta samskiptanet, þessi greiðsluþríhyrningur korthafans, útgefanda kortsins og greiðsluviðtakandans, kannski eitt af mestu hagsmunamálum heimilanna um þessar mundir vegna þess hversu hátt hlutfall greiðslna fyrir daglegar nauðsynjar fer fram eftir þessum farvegum. Það er tilgangur þessa frv. að gæta fyrst og fremst hagsmuna neytandans í þessum samskiptum en reyndar að sjálfsögðu almannahagsmuna, þeirra hagsmuna að eftirlit sé með þessari sívaxandi grein greiðsluviðskipta og reyndar neytendalána eins og algengt er að fari fram með raðgreiðslum á kortum einstaklinga.
    Í 14. gr. frv. er að finna hlutlæga ábyrgðarreglu sem leggur ábyrgð á hendur kortaútgefanda vegna tjóns sem rekja má til rangrar skráningar viðskiptanna, mistaka í útreikningi eða til annarra tæknilegra mistaka. Í 4. mgr. þessarar greinar er svo jafnframt ákveðið að sönnunarbyrði fyrir því að ástæður þær sem ég hef hér nefnt eigi ekki við skuli hvíla á kortaútgefanda. Þetta er mjög mikilvægt ákvæði og færir sönnunarbyrðina til frá því sem verið hefur en þykir eðlilegt eins og hér hagar sérstaklega til.
    Í V. kafla er að finna sérreglur um skráningu og meðferð upplýsinga sem kortaútgefandinn skráir. Að því leyti sem ekki er að finna sérreglur í þessu frv. um meðferð og skráningu persónuupplýsinga fer að sjálfsögðu um þau málefni samkvæmt almennum lögum þar að lútandi eins og reyndar segir berum orðum í 17. gr. þessa frv.
    Í VI. kafla frv. er að finna reglur um málsmeðferð samkvæmt ákvæðum frv. og um viðurlög við brotum. Lagt er til að yfirstjórn með málefnum er varðar greiðslukortastarfsemina verði í höndum viðskrn. og framkvæmd eftirlitsins verði í höndum bankaeftirlits Seðlabanka Íslands, Verðlagsstofnunar og Verðlagsráðs eins og ég hef þegar lýst.
    Í VII. kafla er að finna skýringarreglu í 23. gr. frv., þ.e. að hvaða leyti víkja megi frá þeim skilyrðum sem sett eru í þeim greinum frv. sem þetta ákvæði tekur til. Í 24. gr. er t.d. að finna ákvæði um almenna reglugerðarheimild til handa ráðherra, svo og til að kveða nánar á um skiptingu kostnaðar skv. 12. gr. frv. ef um er að ræða alþjóðlega greiðlukortastarfsemi.
    Ég kem þá að ákvæði til bráðabirgða. Þar er í 1. tölulið loks lagt til að starfandi kortaútgefendum verði gefinn þriggja mánaða frestur til þess að uppfylla ákvæði 4. gr. frv. til þess að afla sér starfsleyfis. Í 2. tölulið ákvæðisins er gert ráð fyrir að kortaútgefendur endurnýi samninga sína við korthafa í samræmi við ákvæði þessa frv. eftir því sem þeir falla úr gildi en almennt er það reglan nú að samningar milli kortaútgefenda og korthafa séu endurnýjaðir árlega.
    Að mínu áliti, virðulegi forseti, er ekkert því til fyrirstöðu að ákvæði þessa frv. geti verið komin að fullu til framkvæmda innan 15 mánaða frá gildistöku eins og þetta ákvæði gerir ráð fyrir.
    Hæstv. forseti. Ég hef í stuttu máli gert grein fyrir meginatriðum frv. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.