Vog, mál og faggilding

119. fundur
Mánudaginn 06. apríl 1992, kl. 15:17:01 (5190)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :

    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. um mál, vog og faggildingu sem er á þskj. 675. Hér er um að ræða frv. til mikilvægra laga sem ætlað er að leysa af hólmi gömul og ófullnægjandi lagaákvæði. Eins og fram kemur í athugasemdum með þessu frv. hafa menn lengi reynt að tryggja rétta mælikvarða í landinu, bæði um þyngd, lengd og rúmtak og má rekja slík ákvæði alla tíð sögulegrar lagasetningar í landinu frá árinu 1281. Nokkrar breytingar urðu á þessum mælieiningum í sögunnar rás. Árið 1907 tókum við upp metrakerfið og í framhaldi af því voru á næstu árum sett í lög nokkur ákvæði um mælitæki og eftirlit með þeim. Eiginlega hefur lítið gerst á þessu sviði frá árunum 1907 til u.þ.b. 1917. Hins vegar hafa þarfir atvinnulífs og almennings fyrir viðmiðun við staðlaðar mælieiningar á hinum ýmsu sviðum eðlis- og mælifræði stórlega aukist og auðvitað er það sama að segja um opinbert eftirlit á þessu sviði.
    Löggildingarstofan var stofnuð með lögum árið 1917 til að annast eftirlit með mælitækjum og einkasölu á stimpluðum og löggiltum mælitækjum og tók til starfa 1. jan. 1919. Ári seinna var svo komið á fót sérstakri veðurstofudeild við Löggildingarstofuna sem síðar var frá henni skilin og varð að Veðurstofu Íslands. Þetta er í raun og veru það sem er í íslenskum lögum um vog og mál. Þótt mikið vatn hafi til sjávar runnið frá því að þessi lög voru sett hefur ekki verið á þeim tekið með fullnægjandi hætti.
    Það kemur næst til þessarar sögu að í júní 1988 var í finnsku borginni Tampere undirritaður sáttmáli milli EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins um gagnkvæma viðurkenningu vottunar og prófana. Byggir þessi samningur á verklagsreglum um samræmd vinnubrögð vottunar- og prófunarstofa eins og þær reglur eru skilgreindar í Evrópustöðlum sem kenndar eru við staðlastofnanir tvær CEN og CENELEC en Íslendingar hafa tekið virkan þátt í starfi þessara stofnana frá árinu 1988.
    Þessi staðlastarfsemi er einn af hornsteinum þeirrar markaðssamvinnu sem er að komast á í álfunni en gagnkvæm viðurkenning vottunar og prófunar er þáttur í því að ryðja úr vegi öllum tæknilegum viðskiptahindrunum á markaðinum. Gert er ráð fyrir því að þær stofnanir, sem gefa út vottorð eða prófunarskírteini á eiginleikum vöru eða þjónustu, þurfi að hafa það sem í þessu frv. er nefnt faggilding frá opinberri stofnun. Samningurinn frá Tampere var fullgiltur og tók gildi hér á landi 1. okt. 1990. Þar er byggt á því að vottunar- eða prófunarstofnanir í einkaeigu jafnt sem opinberri eigu geti tekið að sér verkefni í hvaða ríki EFTA eða Evrópubandalagsins sem er, enda fullnægi þær allar samræmdum kröfum.
    Þegar að því kom að framkvæma þátt Íslands í þessu samstarfi þurfti að fela einhverri opinberri stofnun faggildingarhlutverkið og beindust þá sjónir manna að Löggildingarstofunni vegna þeirrar starfsemi sem þar fer fram. Það varð til þess að yfirstjórn hennar var flutt til viðskrn. fyrir tveimur árum og jafnframt hafist handa um að búa hana undir nýtt hlutverk í samræmi við Tampere-sáttmálann. Komið var á fót sérstakri deild innan Löggildingarstofunnar til þess að annast það sem í þessu frv. er nefnt faggilding og ég hef þegar nefnt, en heitir á erlendum málum ,,accreditation`` eða ,,akkreditering`` eða svipuðum orðum. Jafnframt var samið við þá stofnun í Svíþjóð sem sér um þessi mál að veita faggildingardeildinni tæknilega aðstoð og þjálfun starfsmanna og er sá samningur í gildi.
    Þá hafði viðskrn. nokkra forgöngu um að aðilar úr atvinnulífinu tóku höndum saman um að stofna svokallað vottunarfélag en vottunin er annar hlekkurinn í kerfi faggildingar, vottunar og prófunar, sem gæðakerfi og gæðaeftirlit á Evrópumarkaðinum á að byggjast á. Það var ráðinn forstöðumaður fyrir faggildingardeildinni og hefur hann fengið þjálfun hjá samstarfsstofnuninni í Svíþjóð. Er hann nú að vinna að faggildingu fyrstu vottunar- og eftirlitsstofnananna sem settar hafa verið upp á Íslandi.
    Þá hefur jafnframt verið ákveðið að byggja betur upp mælifræðideild Löggildingarstofunnar og færa út starfsemi hennar þannig að hún geti staðfest nákvæmni mælitækja sem mæla eiga hitastig, tíðni, geislun, ljósmagn o.s.frv. en slík mælitæki eru nú víða notuð í atvinnulífi okkar. Tilgangurinn með þessu er kannski ekki síst sá að við getum átt á því von á markaði hins Evrópska efnahagssvæðis á næstunni að vera krafin um formlegan grundvöll vottunar og prófunar á þeirri vöru sem við höfum þar að bjóða.
    Til þess að standa fyrir þessu starfi var ráðinn vel menntaður maður til deildarinnar og hefur hann líka sótt nokkra starfsþjálfun til Svíþjóðar.
    Í þessu sem ég hef þegar nefnt felst að Löggildingarstofan er nú betur í stakk búin en áður til að takast á við þau nýju verkefni sem henni hafa verið falin. Það er gert ráð fyrir að hún verði framvegis B-hluta stofnun og að tekjur hennar standi að öllu leyti undir útgjöldum. Þessi breyting tengist svo starfi sem nú er unnið að í viðurkenningu sameiginlegra staðla fyrir Evrópuríkin á vegum staðlastofnananna tveggja sem ég nefndi, CEN og CENELEC, en Evrópustaðlarnir eru nú viðmiðun sem faggilding, vottun og prófun miðast við eins og ég hef þegar nefnt, auk þess sem miðað er við lög og reglugerðir hvers lands.
    Svo ég víki nokkrum orðum að frv. sjálfu þá skiptist það í níu kafla auk kafla um viðurlög og gildistöku. Fyrsti kaflinn fjallar um gildissvið og skilgreiningar. Annar kaflinn um grunnmælifræði og mælieiningar landsmælistaðla, en þær einingar hafa viðmiðun í hinum alþjóðlegu mælikerfum sem nú eru lögð til grundvallar í Vestur-Evrópu. Í þriðja kaflanum er fjallað um þau mælitæki sem eru eftirlitsskyld og kröfur sem þau þurfa að fullnægja. Í fjórða kaflanum er fjallað um hagnýta mælifræði og í fimmta kaflanum um faggildingu. Ég hef áður skýrt merkingu þess orðs en það nýyrði er tekið upp að tillögu starfsmanna staðlaráðsins. Í sjötta til áttunda kafla frv. er fjallað um Löggildingarstofuna og loks í níunda kafla um löggilta vigtarmenn en sá kafli er saminn í nánu samráði við sjútvrn. sem leggur nú mikla áherslu á hlutverk löggiltra vigtarmanna í eftirliti með framkvæmd veiðileyfakerfisins.
    Það skal einnig tekið fram að ásamt embættismönnum sjútvrn. fóru embættismenn landbrn. yfir efni

þessa frv. áður en það var lagt hér fram.
    Í tíunda og ellefta kafla eru svo ákvæði um viðurlög við brotum á lögunum svo og gildistökuákvæði.
    Virðulegi forseti. Frv. þetta fjallar í reynd um eitt grundvallaratriði í atvinnulífi okkar sem er að fylgt sé viðurkenndu og samræmdu mælifræðikerfi. Það leysir af hólmi úrelt lagaákvæði á því sviði, ákvæði sem hafa úrelst af þeim sökum að þarfir atvinnulífsins hafa breyst og reyndar aukist. Það hefur einnig að geyma mjög mikilvæg nýmæli sem eru ákvæðin um faggildingu, ,,accreditation``. Faggildingarþáttur þess leggur grundvöll fyrir þátttöku Íslendinga að sameiginlegum markaði Vestur-Evrópuríkja og það á eftir að hafa mikil áhrif á starfsemi hvers konar eftirlits- og prófunarstofnana hér á landi um leið og það leggur grundvöll að því að niðurstöður þeirra verði teknar gildar í framtíðinni í viðskiptum, sem að sjálfsögðu er kjarni þessa máls. Þetta er óháð því hvort samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði verður endanlega samþykktur því eftir sem áður er um að ræða samræmdar reglur á mikilvægasta markaðssvæði fyrir okkar útflutning jafnt sem innflutning.
    Hæstv. forseti. Ég legg áherslu á að þetta frv. verði sem fyrst að lögum. Ég legg til að því verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.