Vog, mál og faggilding

119. fundur
Mánudaginn 06. apríl 1992, kl. 15:27:00 (5191)

     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil fagna því að svo ítarlegt frv. skuli vera komið fram um vog, mál og faggildingu þótt satt að segja vefjist ögn fyrir mér það nýyrði sem sett er fram í þessu frv., orðið faggilding, sem ég hef ekki séð reyndar fyrr en í þessu ágæta frv. Að öðru leyti vil ég segja að það ber að fagna því að svo ítarlega sé kveðið á um þau málefni sem hér er um að ræða. Ég tel hins vegar að það þurfi að skoða þetta frv. mjög rækilega í þeirri nefnd sem fær það til umfjöllunar í þinginu. Það er alveg ljóst að kröfur um vigtun hvers konar hafa aukist verulega, ekki síst á það við um hafnir landsins sem hafa fengið mjög viðamikið verkefni í tengslum við stjórnun fiskveiða sem er að sjá til þess að allur afli sem á land kemur sé veginn og að sjálfsögðu þarf til þess löggildingu og fullkomin vigtunarbúnað. Hafnirnar eru settar í þessa stöðu og er alveg ljóst að það er mikilvægt að allar reglur séu greinilegar og skýrar hvað varðar vigtun.
    Aðaltilgangur minn með því að taka til máls í þessari fyrstu umræðu var að vekja athygli á því að gæta ber þess að kostnaður fari ekki úr hófi í tengslum við þetta frv. Í fskj. með frv. er umsögn fjmrn. en þar segir: ,,Frv. felur í sér engin útgjöld fyrir ríkissjóð. Framkvæmd þess er í höndum Löggildingarstofunnar sem mun endurheimta útlagðan kostnað alfarið með gjaldtöku af þeim aðilum sem frv. nær til.``
    Með þessu frv. er auðvitað gert ráð fyrir því að sinna þessari þjónustu en þeir sem fá þjónustuna skulu greiða allan kostnað. Ég vil leggja sérstaka áherslu á það að nefndin, sem fjallar um frv., skoði mjög rækilega hvort því fylgi mikill kostnaður hjá þeim sem þurfa að greiða þjónustuna því það er alveg ljóst að ríkisstofnanir sem ganga óbeislaðar fram í því að búa til kostnað geta valdið fyrirtækjum og stofnunum, sem þurfa að greiða þessa þjónustu, verulegum vanda.