Vog, mál og faggilding

119. fundur
Mánudaginn 06. apríl 1992, kl. 15:57:00 (5195)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mun leitast við að verða við tilmælum forseta.
    Ég fagna því að í máli þeirra sem hér hafa talað hefur komið fram almennur stuðningur við þörfina fyrir nýja löggjöf á þessu sviði. Það þarf vissulega að gæta þess, eins og kom fram í máli hv. 1. þm. Vesturl., að kostnaður fari ekki úr hófi. Undir þetta tók hv. 3. þm. Vestf. og fór um mörgum orðum og að mínum skilningi ekki að öllu leyti nauðsynlegum vegna þess að ég get fullvissað hv. þm. um að fyrir mér og þeim sem undirbúið hafa frv. vakir ekkert annað en að gera það með lágmarkskostnaði sem gera þarf til þess að við höfum lykilinn að Evrópumarkaði framtíðarinnar í höndunum. Um það snýst þetta mál. Ef við ekki getum sýnt fram á að við höfum fullnægjandi farveg fyrir faggildingu, vottun og prófun, þá eiga okkar útflutningsvörur upp brekku að fara.
    Ég er hv. 3. þm. Vestf. einlæglega sammála um það að við þurfum að gefa kost á samkeppni um þessa þjónustu og vek athygli þingmanna á því að bæði í 18. og 19. gr. og raunar einnig í 14. gr., um faggildinguna, er beinlínis opnað fyrir það, sérstaklega hvað varðar faggildinguna, að þá geti gilt faggilding sambærilegra stofnana í Vestur-Evrópu. Vegna fyrirspurnar hv. 15. þm. Reykv. vil ég taka það fram að ég lít svo á að þarna sé fyrst og fremst átt við hið Evrópska efnahagssvæði, eins og um það er nú rætt, EFTA- og EB-ríkin.
    Um orðið ,,faggildingu`` vil ég segja að þetta orð var einfaldlega tillaga þeirra sem starfa við verkefnið. Þetta orð er að öllu leyti hliðstætt orðinu löggilding. Í því felst að staðfesta að starfsemi fari fram á faglegum grundvelli á sama hátt og löggilding felur í sér að eitthvað fari að lögum, sé gilt að lögum. Þetta er hliðstæðan sem þessir ágætu menn hafa gert að tillögu sinni en finni þingnefndin annað orð og heppilegra skal ekki á mér standa að styðja það.
    Vegna þess sem hér var rætt um tilvísun til þingnefnda vil ég taka það fram að hér er gerð tillaga um að málinu verði vísað til efh.- og viðskn. vegna þess að Löggildingarstofan fellur undir viðskrn. og það er samkvæmt aðalreglunni í þingsköpunum nú. En ég er alveg sammála hv. 15. þm. Reykv. um það að æskilegt væri að málinu yrði vísað milli nefnda, að iðnn. fjallaði líka um það og það kann kannski að vera að einhverju leyti skýringin á því sem segir í 16. gr. um yfirstjórn þessara mála. Að sjálfsögðu hlýtur það ákvæði að fara eftir því hvernig ástatt verður um frv. sem liggur fyrir þinginu um sameiningu þessara tveggja ráðuneyta.
    Vegna orða hv. 15. þm. Reykv. um 15. gr. má vera að hér sé um óvenjulegt orðalag að ræða en ég fullvissa þingmanninn um að hér er fyrst og fremst leitast við að sýna að við viljum með okkar lögum og reglum uppfylla þær kvaðir sem við tókum á okkur um gagnkvæma viðurkenningu, vottun og prófun, eins og það áður hét, en mundi væntanlega heita um gagnkvæma faggildingu, vottun og prófun með Tampere-samkomulaginu 1988.
    Ég vil taka mjög undir það sem kom fram hjá hv. 3. þm. Vestf. að málið er ákaflega mikilvægt. Ég skal fyrstur manna játa að það er margt í þessu lesmáli sem er tormelt og óaðgengilegt en því miður er veruleikinn á þessu sviði þannig að við verðum að hafa stað til að standa á í okkar samskiptum fyrst og fremst vegna fyrirtækja okkar. Hvarvetna sem hægt er eigum við að gæta þess að þau séu ekki ofurseld einokunarvaldi stofnana á sviði faggildingar, vottunar eða prófunar. Þess vegna eru ákvæði frv., eins og þau eru upp sett, en hins vegar verður ríkið líka að standa við þá lágmarksskyldu að geta veitt þessa þjónustu vegna þarfa útflutningsatvinnuveganna.
    Vegna þess að hv. 3. þm. Vestf. vitnaði nokkuð í gjaldskrármálefni Löggildingarstofunnar vil ég taka það fram að ekkert í þeim ákvörðunum hefur verið til annars hugsað en fara að gildandi fjárlögum. Dæmi um meiri hlutfallshækkun en almennt var ætluð í fjárlögunum hygg ég að muni fyrst og fremst stafa af því að sú ákvörðun var tekin, sem reyndar er umdeild, að jafna niður ferðakostnaði og gistikostnaði eftirlitsmanna á alla gjaldskrána öfugt við það sem áður var þegar fyrirtækin í hinum afskekktustu byggðum borguðu mest. Þá voru virkilega háir reikningar sendir til Bolungarvíkur og Bakkafjarðar. Nú eiga þeir að vera tiltölulega lægri. En annars er vandinn sá að hlutfallstölurnar sýna oft breytingar frá mjög lítilli þjónustu til nýrrar þjónustu svo það er ekki alltaf verið að bera saman sambærilega hluti. Hins vegar tek ég það mjög skýrt fram að það er mikilvægt að þetta mál verði kannað og rætt í samráði við starfsmenn og fulltrúa atvinnuveganna og ég tek það fram og endurtek, sem ég sagði hér áðan, að áður en frv. var lagt fram var rætt ítarlega við embættismenn sjútvrn. og landbrn. en vafalaust er þörf á frekari könnun á málinu.
    Ég endurtek, virðulegi forseti, að málið er mikilvægt og þarfnast rækilegrar endurskoðunar í efh.- og viðskn. og e.t.v. vísun að einhverju leyti til annarra nefnda þingsins.