Sala ríkisfyrirtækja og reglur um eignaraðild

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 13:34:00 (5197)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef hugsað mér að bera fram fsp. til hæstv. viðskrh. Hún tengist umræðu um einkavæðingu og sölu ríkisfyrirtækja, sérstaklega ríkisbankanna og orkufyrirtækja, RARIK. Nokkur umræða hefur og verið um einkavæðingu Landsvirkjunar.
    Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um það, þegar að því kemur að hlutafé í þessum fyrirtækjum verður boðið til sölu á almennum markaði, hvort þær reglur sem menn hafa varpað fram í umræðunni um takmarkaða eignaraðild einstaklinga og fyrirtækja að þessum félögum eða fyrirtækjum standist gagnvart þeim kvöðum sem við mundum taka á okkur ef við gengjum til samstarfs um hið Evrópska efnahagssvæði. Í öðru lagi vil ég spyrja hvort það geti á einhvern hátt skaðað varanleg yfirráð okkar til að mynda yfir orkuauðlindum.