Röð mála á dagskrá

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 14:00:00 (5212)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég sé ekki að 8. mál á dagskrá, skýrsla Ríkisendurskoðunar, sé neitt sérstakt málefni hæstv. menntmrh. þó að ég vilji ekki gera lítið úr valdsviði hans. Það hefur a.m.k. slæðst inn eitt mál á dagskrána sem að mínu mati heyrir ekki beint undir hann.
    Ég tel ekki að neina breytingu þurfi á þingsköpum til þess að laga það ástand sem hér hefur verið gert að umkvörtunarefni. Það er einungis ákvörðunaratriði stjórnar þingsins hvernig hún vill haga þinghaldinu. Það er hægt að gera með ýmsum hætti. Það er hægt að taka málin eftir málaröð. Ég er ekki að hafa á móti því að ríkisstjórnin fái eðlilegan vinnufrið með sín mál, síður en svo. En það er ólíðandi að sniðganga algerlega eða næstum algerlega málefni flutt af einstökum þingmönnum. Ég vil hér og nú gera kröfu um það að teknir verði frá sérstakir dagar og þá verði ekki rædd stjórnarfrv. heldur rædd frumvörp eða ályktanir flutt af þingmönnum. En ég vil jafnframt láta í ljósi þá ákveðnu ósk að ráðherrar verði viðstaddir þingfundi eftir því sem þeir geta. Það hefur verið áberandi í vetur hvað ráðherrar hafa sótt illa þingfundi. Það er kannski skýringin á því að mál hafa verið flokkuð að talsverðu leyti í málefni einstakra ráðherra, þ.e. einn hefur kannski þurft að mæta, hinir hafa verið stikkfrí þann daginn og þeir hafa þá heldur ekki verið að koma.