Starfsréttindi norrænna ríkisborgara

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 14:06:00 (5217)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um starfsréttindi norrænna ríkisborgara. Á undanförnum árum hefur Ísland gerist aðili að nokkrum Norðurlandasamningum um sameiginlegan norrænan vinnumarkað ýmissa starfsstétta, samningum sem fela m.a. í sér gagnkvæma viðurkenningu starfsréttinda. Enda þótt samningar þessir hafi verið fullgiltir af Íslands hálfu hefur löggjöf ekki verið samræmd efni þeirra.
    Nú seinast var samningur milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um norrænan vinnumarkað fólks með minnst þriggja ára æðri menntun er veitir starfsréttindi, undirritaður í Kaupmannahöfn 24. okt. 1990. Markmiðið með frv. er að framfylgja ákvæðum þessa samnings og jafnframt að greiða fyrir því að öðrum samningum um norrænan vinnumarkað fyrir sérmenntaðar starfsstéttir, sem Ísland á aðild að eða gerist aðili að, verði framfylgt hér á landi. Samningurinn um norrænan vinnumarkað fólks með minnst þriggja ára æðri menntun er veitir starfsréttindi kveður á um að norrænn ríkisborgari sem hlotið hefur í einhverju aðildarlandanna löggildingu eða önnur sambærileg atvinnuréttindi á grundvelli náms á háskólastigi, eigi skemmra en þriggja ára námi, skuli með þeim skilyrðum sem í samningnum greinir eiga rétt á viðurkenningu til starfa í einhverju öðru aðildarlandi þar sem slíkrar löggildingar er krafist. Þau skilyrði sem vísað er til eru einkum um málakunnáttu og þekkingu á innlendri löggjöf og stjórnsýslureglum.
    Meðan á gerð samningsins stóð var haft víðtækt samráð hérlendis við ráðuneyti, stofnanir og helstu hagsmunasamtök sem málið varðar. Af hagsmunasamtökum sem skiluðu umsögnum um samninginn má nefna Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, Landssamband iðnaðarmanna, Vinnumálasamband samvinnufélaganna og Vinnuveitendasamband Íslands. Þessi samtök tóku yfirleitt jákvæða afstöðu til efnis samningsins.

    Á fundi fyrrv. ríkisstjórnar 27. ágúst 1990 var samþykkt að samningurinn yrði undirritaður fyrir Íslands hönd. Jafnframt var menntmrn. falið að hafa eftirlit með framkvæmd samningsins. Umhvrh. undirritaði samninginn á fundi samstarfsráðherra Norðurlanda 24. okt. 1990. Í bókun sem fylgir samningnum er því lýst yfir að samningsaðilar muni vinna að því að þeim breytingum á landslögum sem samningurinn gerir ráð fyrir verði komið á eigi síðar en 1. júlí 1991. Umsömdum breytingum á landslögum hefur þegar verið komið á í Danmörku og Svíþjóð en löggjöf um sama efni hefur verið í undirbúningi hér á landi, í Noregi og í Finnlandi.
    Á fundi fyrrv. ríkisstjórnar í ársbyrjun 1991 var síðan samþykkt að fela menntmrh. í samráði við þau ráðuneyti sem efni samningsins varðar einkum að undirbúa lagafrv. um starfsréttindi norrænna ríkisborgara á Íslandi. Við gerð þessa frv. hefur verið haft náið samráð við dóms- og kirkjumálaráðuneytið en einnig hefur verið leitað samráðs við ráðuneyti félagsmála, fjármála, heilbrigðis- og tryggingamála, iðnaðar-, landbúnaðar- og umhverfismála. Öll þessi ráðuneyti hafa lýst sig samþykk efni frv.
    Ég vík þá að einstökum ákvæðum.
    Í 1. gr. er kveðið á um gildissvið laganna. Athygli er vakin á því að greinin gildir jafnt um samninga á þessu sviði á milli ríkisstjórna Norðurlanda sem búið er að staðfesta og samninga er kunna að verða gerðir síðar meir. Slíkir samningar öðlast þó ekki gildi fyrr en þeir hafa verið fullgiltir að undangenginni heimild Alþingis.
     Með störfum sem löggildingu, leyfi eða aðra jafnsetta viðurkenningu þarf til er átt við það þegar lög, reglugerðir eða aðrar stjórnvaldsreglur beint eða óbeint áskilja tiltekið próf sem skilyrði fyrir leyfi til að gegna starfi. Störf þar sem löggildingar, leyfis eða annarrar jafnsettrar viðurkenningar er ekki krafist falla undir almenna samninginn um sameiginlegan norrænan vinnumarkað frá 6. mars 1982 en þar er kveðið á um gagnkvæman aðgang norrænna ríkisborgara að vinnumarkaði einstakra aðildaríkja.
    Í 2. gr. er kveðið á um skilyrði þess að heimild sé veitt til að gegna starfi hérlendis. Ákvæðið tekur einungis til norrænna ríkisborgara. Þess er krafist að viðkomandi uppfylli ákvæði norrænna samninga sem vísað er til í 1. gr. Enn fremur er ákveðið að sömu skilmálar eigi við um heimild til að gegna fyrrgreindum störfum og gilda um íslenska ríkisborgara. Í samningum þeim sem gerðir hafa verið er sérstaklega vikið að því að áskilja megi að umsækjandi kunni nægileg skil á íslenskri tungu.
    Í 3. gr. er gert ráð fyrir að þau ráðuneyti, sem nú fjalla um umsóknir til að gegna starfi hérlendis þar sem löggildingar, leyfis eða annarar jafnsettrar viðurkenningar er krafist, sjái um að skilyrði 2. gr. hafi verið uppfyllt. Þegar lög eða reglugerðir kveða á um veitingu leyfisbréfa til starfsréttinda, annast viðkomandi stjórnvald útgáfu þeirra.
    Ákvæði í lögum eða reglugerðum sem gera íslenskt ríkisfang eða íslenskt prófskírteini eða viðurkenningu að skilyrði fyrir ráðningu í starf eða veitingu starfsréttinda eru í andstöðu við efni samningsins frá 24. okt. 1990 og hliðstæða norræna samninga að því er gildissvið þeirra varðar. Með 4. gr. frv. er því lagt til að ráðherra sem í hlut á geti með reglugerð veitt undanþágu frá ákvæðum í lögum að því er varðar ríkisfang, búsetu eða viðurkenningu á prófum að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga er felast í samningi sem fellur undir 1. gr. Með þessu ákvæði, ef samþykkt verður, má segja að íslensk löggjöf hafi verið aðlöguð samningsskuldbindingum en einnig má telja eðlilegt að í framhaldi af setningu þessara laga, ef til kæmi, verði ákvæði eldri laga endurskoðuð og aðlöguð efni frv. þessa.
    Vakin er athygli á því að með 3. mgr. 10. gr. samningsins frá 1990 er ákveðið að tilteknar æðri stöður og stöður er varða þjóðaröryggi megi ætla ríkisborgurunum einum. Ganga verður út frá því að ákvæði þessu verði m.a. beitt um stöður dómara, sýslumanna (lögreglustjóra) og saksóknara, samanber og ákvæði 2. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar en þar segir að engan megi skipa embættismann nema hann hafi íslenskan ríkisborgararétt.
    Í 5. gr. er gert ráð fyrir að menntamálaráðuneytið gegni hlutverki samræmingaraðila. Hins vegar mun hlutaðeigandi stjórnvald fara með sín málefni, samanber ákvæði 3. gr.
    Vegna samningsskuldbindinga er að lokum lögð áhersla á að frv. hljóti afgreiðslu

á þessu þingi. Ég legg til, hæstv. forseti, að frv. verði vísað til hv. menntmn. að lokinni þessari umræðu.