Höfundalög

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 14:45:00 (5223)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það mál sem hæstv. menntmrh. mælir fyrir er allrar athygli vert. Í rauninni má segja að það sæti nokkrum tíðindum að það skuli ekki vera fyrr en nú á árinu 1992 að gerð er sú atrenna að þessu máli sem hér er gerð. Ég hef þó ekki sett mig inn í það hvaða tilraunir hafa verið gerðar í millitíðinni til þess að fá breytingu fram á höfundaréttarlögum. Ég tók ekki eftir því að hæstv. ráðherra hafi fjallað sérstaklega um það en hann rakti undirbúninginn að frv. og nefndi viðleitni Birgis Ísl. Gunnarssonar sem menntmrh. til að koma hreyfingu á þessi mál.
    Hér er um mjög mikið hagsmunamál fyrir höfunda að ræða og skiptir líka miklu fyrir þá sem skipta við þá. Því tel ég frv. mjög jákvætt innlegg inn í málefni sem okkur ber að fylgjast með og gæta þess að við gerumst ekki eftirbátar frá því sem er í nágrannaríkjum okkar að því er snertir vernd höfundaréttar.
    Ég tek eftir því að hæstv. ráðherra hefur haft nefnd sem skipuð var á árinu 1988 til að undirbúa málið og í henni eru aðilar sem hafa fylgst með þessum málum, bæði innan ráðuneytis og utan. Ég vænti þess að vel hafi verið vandað til málsins en menntmn. mun að sjálfsögu líta nánar á það, eins og gerð hefur verið tillaga um. Ég ímynda mér að einn helsti þröskuldurinn í vegi þess að höfundar haldi lögvernduðum rétti sé það eftirlit sem þarf til þess að tryggja að lög af þessu tagi séu haldin. Á tímum örrar tækniþróunar kemur sú spurning satt að segja oft upp í huga manns hvernig takast megi að tryggja rétt höfunda jafnvel þó að löggjöf reyni að ná utan um hann og reglur séu settar. Þetta á ekki síst við um tölvusviðið sem vikið er að og ég tel góðra gjalda vert að tekið er á því máli í frv. Ég geri hins vegar ráð fyrir því að það geti orðið nokkur þraut að koma í veg fyrir sjóræningjastarfsemi á því sviði og spyr hæstv. ráðherra hvort þátturinn í sambandi við undirbúning málsins hafi verið kannaður sérstaklega. Ég hef ekki sett mig nógu vel inn í málið til að geta svarað því. Þetta er eitt af þeim frv. sem nýlega er komið til þingsins. En ef hæstv. ráðherra getur frætt okkur um það með hvaða hætti verði tekið á því, þá væri það gott.
    Að endingu vil ég nefna það að ég held að nokkuð skorti á að upplýsingum sé komið til almennings. Hér er vissulega um almenningsmál að ræða, um gildandi rétt á þessu sviði. Því er hætt við að ýmsir verði til þess að ganga lengra en lög bjóða í sambandi við endurrit, fjölföldun og annað þess háttar vegna þess að menn þekkja ekki gildandi rétt og fyrirmæli. Með aukinni upplýsingu mætti styrkja stöðu höfunda að þessu leyti.
    Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann hafi hugmyndir uppi um að auka fræðslu um gildandi rétt á þessu sviði og þá auðvitað um þau nýmæli sem væntanlega verða lögfest á grundvelli þessa frv.