Fullorðinsfræðsla

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 14:53:00 (5225)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um almenna fullorðinsfræðslu. Hátt í tvo áratugi hefur verið reynt að koma á löggjöf um fullorðinsfræðslu hér á landi. Árið 1974 var viðamikið frv. til laga um fullorðinsfræðslu lagt fram á hv. Alþingi. Það frv. náði ekki fram að ganga. Árið 1980 var frv. lagt fram í annað sinn en það fór á sömu leið. Á 112. löggjafarþingi lagði þáv. menntmrh., Svavar Gestsson, fram frv. til laga um almenna fullorðinsfræðslu. Það frv. var var lagt fram að nýju á 113. löggjafarþingi en í hvorugt skiptið hlaut það afgreiðslu Alþingis. Það frv. byggði á niðurstöðu sem fulltrúar menntmrn. og félmrn. komust að snemma árs 1989 um að stefnt skyldi að sérstakri löggjöf um starfsmenntun í atvinnulífinu sem heyrði til verksviðs félmrn. og annarri um almenna fullorðinsfræðslu sem heyrði til verksviðs menntmrn.
    Í byrjun desember sl. mælti hæstv. félmrh. fyrir frv. um starfsmenntun í atvinnulífinu sem í samræmi við fyrrgreint samkomulag skyldi falla undir félmrn. Í umræðum þá sagði ég, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ég vil taka fram að ég tel mjög brýnt að efla möguleika fullorðinna til að afla sér hvers konar menntunar hvort sem um er að ræða grunnmenntun eða endurmenntun, almenna menntun eða starfstengda. Það er einnig mjög brýnt að góð tengsl séu á milli grunnmenntunar í skóla og endurmenntunar í tengslum við atvinnulífið.
    Það er áreiðanlega æskilegast --- ja, ég segi áreiðanlega, það er mín skoðun að æskilegast sé að hafa eina rammalöggjöf um fullorðinsfræðslu á vegum menntmrn. en tryggja tengsl við önnur fagráðuneyti og ekki hvað minnst við aðila vinnumarkaðarins. Ýmsir líta hins vegar á starfsmenntun í atvinnulífinu sem málefni aðila vinnumarkaðarins þar sem oft sé stofnað til hennar með ákvæðum í kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins. Það er hins vegar spurning, sýnist mér, hvort aðilar vinnumarkaðarins gætu ekki eins haft áhrif þó svo að um ein lög væri að ræða á vegum menntmrn.``
    Ég hef í sjálfu sér ekki breytt um skoðun á því að æskilegast sé að hafa eina rammalöggjöf um fullorðinsfræðslu á vegum menntmrn. Þar sem frv. hæstv. félmrh. um starfsmenntun í atvinnulífinu er þegar í umfjöllun á hv. Alþingi varð niðurstaðan á þessu stigi málsins að brýnt væri að frv. til laga um almenna fullorðinsfræðslu kæmi fram og fylgdi í kjölfarið. Þessi tvö frv. svo og ákvæði í lögum um framhaldsskóla mundu að mestu ná yfir alla fullorðinsfræðslu. Ekki er þó svo að öllu leyti því eins og kom fram í umræðum á hv. Alþingi í desember sl. mun starfsfræðsla í fiskvinnslu heyra áfram undir sjútvrn.
    Á tímum mikilla breytinga í atvinnulífi og harðnandi samkeppni í viðskiptum er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að efla möguleika fullorðinna á því að auka og bæta menntun sína, jafnt almenna menntun sem meira starfstengda. Vissulega hafa orðið miklar breytingar á sviði fullorðinsfræðslu á undanförnum árum. Framboðið hefur aukist og þátttakan einnig. Einna mest hefur breytingin orðið á starfsmenntun í atvinnulífinu. Reiknað er með að um 30% þeirra sem eru á aldrinum 19--75 ára taki árlega þátt í einhvers konar fullorðinsfræðslu. Reyslan er sú að þær starfsstéttir sem mesta menntunina hafa fyrir hafi einnig bestu aðstöðu til að bæta við menntun sína.
    Mjög hefur skort á að samræmdar reglur væru til um fyrirkomulag náms fyrir fullorðna. Aðstöðumunur hefur einnig verið eftir landshlutum og eftir starfsstéttum. Mest framboð hefur eðlilega verið á höfuðborgarsvæðinu en á seinni árum hefur í auknum mæli verið reynt m.a. með tilkomu farskóla framhaldsskólanna að bjóða landsbyggðarfólki upp á endurmenntun í heimabyggð. Fjarnám hefur einnig verið að eflast. Bréfaskólinn hefur lengst allra boðið upp á fjölbreytt úrval námskeiða og nú er hægt að stunda nám í sumum kjarnagreinum framhaldsskóla í fjarkennslu.
    Á síðasta hausti hóf Fósturskóli Íslands svokallað dreift og sveigjanlegt fóstrunám og Kennaraháskóli Íslands er að undirbúa 90 eininga kennaranám í farskólaformi en það nám á að hefjast á næsta ári. Mikilvægt er að löggjöf á sviði fullorðinsfræðslu drepi ekki í dróma það frumkvæði sem þegar er fyrir hendi á þessu sviði hjá fjölmörgum samtökum, fyrirtækjum, skólum og einstaklingum. Löggjöfin ætti að styðja og styrkja þá starfsemi án þess að komið verði á óæskilegri miðstýringu eða óþarfa skriffinnsku. Einnig er mikilvægt að löggjöf stuðli að góðu samstarfi milli þeirra fjölmörgu sem fást við fullorðinsfræðslu innan og utan við skólakerfið og að þess sé gætt að þekking, húsa- og tækjakostur og námsgögn nýtist sem best.
    Frv. það sem hér er lagt fram er að mestu leyti óbreytt frá því frv. sem lagt var fram á 113. löggjafarþingi af þáv. menntmrh. Ekki var talið mögulegt að breyta því í neinum grundvallaratriðum þar sem þetta frv. og áðurnefnt frv. hæstv. félmrh. um starfsmenntun eru að vissu leyti spyrt saman í eina heild. Umbreyting, þá hefði ég helst kosið eins og ég sagði áður eina rammalöggjöf, hefði leitt til töluverðrar skörunar. Ég tel ekki rétt að gera slíkt á þessu stigi málsins. Mikilvægast nú er að skapa betri skilyrði fyrir eflingu hvers konar fræðslu fyrir fullorðna.
    Meginmarkmið frv. er að stuðla að jafnrétti fullorðinna til að afla sér menntunar án tillits til búsetu, aldurs, kyns, starfs eða fyrri menntunar og að skapa fullorðnum einstaklingum almennt betri skilyrði til að taka þátt í fullorðinsfræðslu. Ýmsir eiga erfitt með að sækja lengra eða styttra nám sökum fjarlægðar, erfiðra samgangna á vetrum eða vegna breytilegs vinnutíma. Hér er ekki síst um mikilvægt byggðapólitískt mál að ræða en eins og staðan er nú er námsframboð mest og fjölbreytilegast á höfuðborgarsvæðinu. Jafnrétti mismunandi þjóðfélagshópa er líka í fyrirrúmi.
    Leiða má getum að því á grundvelli upplýsinga sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands aflaði í könnunum á árinu 1991 að milli 30 og 40% fullorðinna yfir þrítugt séu aðeins með grunnskólapróf. Hlutfallið hækkar með aldrinum. Konur eru í meiri hluta. Taka þarf á í þessum málum og auka námsframboð fyrir þessa hópa þar sem áhersla er lögð á samspil milli almennrar hæfni og kunnáttu og sérstakrar starfsþjálfunar.
    Annað meginmarkmið frv. er að skapa fræðsluaðilum betri starfsskilyrði þannig að þeir geti boðið fullorðnu fólki upp á fjölbreyttari kosti, betri námsaðstöðu og hagstæðari kjör. Frv. er ætlað að taka til almennrar fullorðinsfræðslu. Með almennri fullorðinsfræðslu er átt við þá fræðslu sem fullorðnum stendur til boða í skólakerfinu, t.d. í öldungadeildum framhaldsskóla, á námskeiðum á vegum annarra skóla og tómstundanám af ýmsu tagi sem boðið er af mörgum aðilum, svo sem framhaldsskólum, námsflokkum, fræðslusamtökum, einkaskólum og einstaklingum. Enda þótt þetta nám sé ekki alltaf beinlínis tengt skólagöngu eða starfi leiðir það mjög oft til þess að þátttakendur taka að stunda nýtt nám eða auka við starfsþekkingu sína.
    Samkvæmt frv. nær almenn fullorðinsfræðsla þannig til náms á grunn-, framhalds- og háskólastigi sem skipulagt er sérstaklega fyrir fullorðna og ekki er fjallað um í öðrum lögum, en einnig til almennrar lýðfræðslu og tómstundanáms.
    Eitt veigamikið atriði í frv. er ákvæði 3. gr. um skipun fullorðinsfræðsluráðs. Eins og mál standa nú hefur enginn aðili fulla yfirsýn yfir þá fullorðinsfræðslu sem er í boði

í landinu. Það er heldur enginn sem markar heildarstefnu. Hlutverk fullorðinsfræðsluráðs verður að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um meginstefnu og áhersluþætti í fullorðinsfræðslu, svo sem um námsframboð, forgang verkefna og hópa. Ráðið verður samtengjandi aðili fyrir almenna fullorðinsfræðslu og starfsmenntun í atvinnulífinu. Verkefni ráðsins lúta einnig að söfnun og miðlun upplýsinga um fullorðinsfræðslu, samræmingu á námsefni, námsframboði og faglegu mati á þeirri fræðslu sem í boði er, samstarfi milli skóla og annarra fræðsluaðila. Því er ætlað að stuðla að betri menntun kennara og leiðbeinenda í fullorðinsfræðslu og vera menntamálayfirvöldum og fræðsluyfirvöldum yfirleitt til ráðuneytis.
    Í fyrri gerð frv. var skipan fullorðinsfræðsluráðs tilgreind í 3. gr. Þar var gert ráð fyrir nokkuð fjömennu ráði eða alls 13 fulltrúum og skyldu 12 þeirra vera tilnefndir af ákveðnum samtökum eða aðilum. Það er eðlilegt að kalla þurfi til allfjölmennan hóp fólks til að tryggja góð tengsl ráðuneytis við það sem er að gerast á vettvangi fullorðinsfræðslu og á hinum ýmsu sviðum samfélagsins. Ekki var þó talið rétt að binda í lögum samsetningu og stærð ráðsins þar sem slíkt getur verið háð aðstæðum á hverjum tíma. Þykir því rétt að ákvæði sem þetta verði sett í reglugerð.
    Í 5. gr. frv. er gert ráð fyrir að einnig verði skipuð fastanefnd um almenna fullorðinsfræðslu sem verði menntmrn. og fræðsluaðilum til ráðuneytis og aðstoðar. Þetta er í samræmi við það sem lagt er til í frv. um starfsmenntun í atvinnulífinu og felur í sér að á vegum hvors ráðuneytis, menntmrn. og félmrn., starfi sérstakir samstarfshópar um hvort fræðslusvið fyrir sig. Gert er ráð fyrir að flestir nefndarmenn komi úr fullorðinsfræðsluráði.
    Til þess að hægt sé að ná þeim markmiðum frv., sem ég hef gert að umtalsefni, er nauðsynlegt að fé verði veitt til verkefnanna. Í 11. gr. frv. er því að finna mjög mikilvægt ákvæði um stofnun menntunarsjóðs fullorðinna. Úr menntunarsjóðnum er ætlað að féð renni fyrst og fremst til þeirra sem sjá um og skipuleggja fullorðinsfræðslu en sjóðnum er einnig ætlað að veita fé til þróunarstarfs, skipulags og undirbúningsvinnu, samningar og útgáfu námsefnis, og til greiðslu stjórnunar- og kennslukostnaðar. Stefnt er að því að við úthlutun úr menntunarsjóði þessum megi veita tiltekinni menntun forgang. Þetta er til þess að veita megi t.d. þeim, sem minnstrar menntunar hafa notið, greiðari aðgang að nýrri þekkingu. Markmið með styrkveitingunum er að stuðla að fjölbreyttu framboði á sviði fullorðinsfræðslu, draga úr kostnaði nemandans við námið og stuðla að því að jafna aðstöðu fullorðinna er hug hafa á skemmra eða lengra námi. Þá er gert ráð fyrir að veita styrki til þróunarverkefna og námsgagnagerðar en oft skortir talsvert á að fræðsluaðilar hafi nauðsynlegt bolmagn til slíkra verkefna.
    Gert er ráð fyrir að til sjóðsins renni framlög úr ríkissjóði ásamt öðrum tekjum sem sjóðnum er heimilt að afla sér með útgáfu og fleiru. Ljóst er að það þarf þó nokkuð mikið fjármagn ef lyfta á grettistaki á þessu sviði. Í fjárlögum 1992 er framlag ríkissjóðs til almennrar fullorðinsfræðslu 15,9 millj. kr.
    Af öðrum ákvæðum frv. má nefna að taka skal tillit til sérþarfa þeirra sem vegna frávika frá eðlilegu þroskaferli eða vegna sjúkdóms eða hvers konar fötlunar geta ekki notið venjulegrar fræðsluskipunar. Einnig eru ákvæði um ábyrgð fræðsluaðila á þeirri fræðslu sem hann býður. Nauðsynlegt er að þessi ábyrgð fari ekki á milli mála, ekki síst til þess að nemandinn geti reitt sig á að það nám sem hann sækir sé metið í skólakerfinu eða sé nokkurs virði á vinnumarkaði. Lagt er til að gildistími laganna verði fjögur ár og að þau verði endurskoðuð að þeim tíma liðnum. Ýmis ákvæði lagafrv. þessa verða útfærð nánar í reglugerð svo sem venja er.
    Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir meginþáttum frv. Að öðru leyti reikna ég með því að frv. skýri sig sjálft. Ég vil undirstrika að frv. tekur á mjög mikilvægu sviði menntamála, sviði sem sennilega verður æ mikilvægara í framtíðinni. Þörf er fyrir að fólk geti aukið og bætt grunnmenntun sína, að það geti oft á lífsleiðinni sótt sér alls konar þjálfun og endurmenntun í styttri eða lengri tíma í skólakerfinu eða utan þess og mun sú þörf án efa aukast mjög á næstu árum. Frv. er liður því að koma til móts við þessa auknu

þörf.
    Ég legg til, virðulegi forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.