Fullorðinsfræðsla

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 15:24:00 (5227)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Til umræðu er mál sem er okkur, sem höfum setið einhver ár í þinginu, ekki alveg ókunnugt. Þó að nokkuð hafi verið deilt um hvaða skipan eigi að hafa á þessum málum er ég þeirrar skoðunar að við verðum að reyna það fyrirkomulag sem nú er orðin niðurstaða um, að þarna verði um tvenns konar lagasetningu að ræða, annars vegar lög um almenna fullorðinsfræðslu og hins vegar starfsmenntun í atvinnulífinu.
    Eins og kemur fram í 16. gr. skulu lögin endurskoðuð að fjórum árum liðnum og hlýtur þá að koma aftur til kasta Alþingis að meta hvernig til hafi tekist og móta tillögur til framtíðar með þá reynslu að leiðarljósi. Mér finnst það aldeilis ótækt að við látum líða fleiri áratugi án þess að sett séu lög um almenna fullorðinsfræðslu í landinu. Þó að ég viðurkenni að ég er ekki alveg sannfærð um að það sé rétt að hafa þennan hátt á sem hér eru gerðar tillögur um þá met ég það meira að við hefjum starfið. Reynist þetta kerfi ekki nógu vel og þetta fyrirkomulag þá, eins og ég sagði áðan, verði það skoðað að fjórum árum liðnum.
    Eins og fram hefur komið hjá hæstv. ráðherra og hv. 4. þm. Austurl. reyndar líka þá er um mjög mikilvægt mál að ræða og ekki síst fyrir landsbyggðina. Það er vitað að þessi mál hafa fengið ákveðinn forgang víða hjá nágrannaþjóðum okkar, þar hefur þeim verið sinnt og þau leitt margt gott af sér.
    Ég vil nefna í þessu sambandi, án þess að ég ætli að fara að gera það að umræðuefni, að síðar á dagskránni í dag er mál, sem ég flyt ásamt fleiri þingmönnum, um samskipti menntastofnana með tölvum og opnar ýmsar leiðir og gefur möguleika sem t.d. geta nýst í sambandi við fullorðinsfræðslu, ekki síst í strjálbýli. Það þurfi ekki alltaf að vera um það að ræða að fólk ferðist til ákveðins staðar og taki þar þátt í námi heldur sé hægt að nýta tölvuna miklu, miklu meira en gert hefur verið fram að þessu. Reyndar er merkilega mikið búið að þróa samstarf gegnum tölvur án þess að það hafi farið mjög hátt í þessu þjóðfélagi. Þar hefur skólastjóri á Kópaskeri unnið mikið brautryðjendastarf og gífurlegir möguleikar eru auðsjáanlega fram undan. Ég ætla ekki að fara út fyrir þetta umræðuefni sem hér er á dagskrá með því að gera það frekar að umræðuefni sem í þeirri tillögu felst en mér þótti ekki óeðlilegt að nefna hana þar sem hún tengist mjög þessu máli.
    Frv. verður vísað til hv. menntmn. þar sem ég á sæti og ég mun leggja mig fram um að það eigi skjóta leið í gegnum þá nefnd, eða a.m.k. mun ég ekki tefja fyrir því að það geti orðið að lögum á þessu þingi.