Fullorðinsfræðsla

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 15:39:00 (5229)

     Pétur Bjarnason :
    Herra forseti. Ég vil leyfa mér að fagna því að fullorðinsfræðslumál eru til umræðu og vonandi afgreiðslu á þessu þingi. Það var fróðlegt að heyra það sem hv. 4. þm. Austurl. upplýsti að málið væri orðið jafngamalt og raun ber vitni. En mér finnst yfirleitt að frv. sem hér liggur fyrir sé mjög til góðs og vænti þess að það fái góðan framgang. Hins vegar vil ég segja varðandi það sem hæstv. ráðherra sagði að þessi mál, frv. til laga um almenna fullorðinsfræðslu og um starfsmenntun í atvinnulífinu, héngju saman að ég held að það sé rétt. En gallinn er sá að þau fara ekki samferða gegnum þingið.
    Ég kom á fund í menntmn. á fyrsta morgni mínum í þessari þingsetu þar sem menntmn. var að gefa umsögn um frv. um starfsmenntun í atvinnulífinu til félmn. Ég kom að þessari umræðu rétt í þann mund sem nefndin var að afgreiða málið frá sér og taldi mig ekki hafa forsendur til þess að gera ágreining á þeirri stundu þar sem ég hafði ekki fylgst með umræðunum eða gat gefið mér tíma til þess að gaumgæfa öll þau gögn sem að þessu sneru. En mér finnst rétt að það komi fram hér að ég tel þessi mál í rauninni eðlilegar komin í menntmn. en félmrn. og þá fyrst og fremst með hliðsjón af því að þarna er um að ræða námsefni, gert er ráð fyrir að menntmrn. hafi með höndum mat á því sem þarna fer fram og oft og tíðum er um að ræða rökrétt framhald fyrra náms. Ég tel mjög mörg rök hníga að því að svo eigi að vera. Það virðist ljóst að þetta fer fram sem tvenn lög núna og hvað sem öðru líður eru þau bæði, þrátt fyrir allt, rökrétt og allgott framhald af

þeirri þróun sem átt hefur sér stað undanfarin ár.
    Þegar öldungadeildir komu til skjalanna held ég að þeim hafi fylgt mikil vakning fyrir alþýðu manna. Það skapaðist nýr möguleiki, fyrst eingöngu í þéttbýli en ótrúlega fljótt eftir tilkomu þeirra var farið að auka framboð í ýmsum greinum og breyta áherslum. Það var nokkurn veginn um sama leyti sem gömlu farskólarnir lögðust niður að farið var að huga að nýjum farskólum og nú starfa farskólar á framhaldsskólastigi sem gefa fólki einmitt mjög vaxandi möguleika á því að afla sér menntunar á fullorðinsárum. Það er að sjálfsögðu mjög af hinu góða.
    Það sem þessum lögum er kannski fyrst og fremst ætlað er að starfa við hliðina á og auka fjölbreytina til viðbótar við það sem framhaldsskólarnir og öldungadeildirnar hafa gert. Einkaaðilar hafa í vaxandi mæli verið á ferðinni og ég hugsa að við verðum meira varir við þetta á landsbyggðinni en menn hér á þéttbýlissvæðunum. Þeir koma gjarnan með hin og þessi námskeið, mörg hver hin gagnlegustu. Það eru bæði verk- og listgreinar, námskeið í tölvufræðum, í skrifstofumennt og fjöldamargt annað. Ekki ætla ég að amast við þeirri ágætu starfsemi. Hins vegar er skylt að geta þess að einmitt lög, eins og hér er fjallað um, gætu komið að gagni við það að samræma störf þessara aðila, hafa eftirlit með þeim og sjá til þess að það gjald sem þeir taka af þeim sem þessa fræðslu þiggja og það nám eða fræðsla sem þeir bjóða haldist í hendur. Ég held að þetta hafi færst til betri vegar á undanförnum árum en fyrir fáeinum árum þegar þetta var að byrja voru dæmin dálítið slæm sem við sáum og ég vil nefna svona aðeins eitt til glöggvunar. Fyrstu námskeiðin af þessu tagi tengdust verulega mikið tölvum og ýmsu sem þeim tilheyrði. Ég get nefnt dæmi um aðila sem bauð fram tölvunámskeið, skrifstofustörf og sitthvað fleira úti á landi, þetta var reyndar á Norðurlandi. Hann fékk til liðs við sig kennara sem starfaði þar á staðnum og bað hann að kenna íslensku á þessu tölvunámskeiði hvað hann bjó sig undir að gera og hóf störf. Síðan þegar hann var nýbyrjaður á þessu og var í óðaönn að kenna sínum nemendum kom stjórnandinn að máli við hann og sagði honum að hann væri á villigötum því þá var hann að kenna um ypsílon. Þetta, sagði stjórnandinn, þarftu alls ekki að kenna því að við gerum ekki ráð fyrir að kennt sé um ypsílon. Þau fá bara lista. Þetta er dæmi um hvernig menn litu á sitt hlutverk. Þau fá orðalista yfir ypsílonin, sagði hann. En sem ber fer fara þessi námskeið, þetta fullorðinsfræðsluefni sem boðið er, stöðugt batnandi og ég held að þar komi kannski eitthvað við sögu samkeppni. Engu að síður er mjög til bóta að yfir þetta náist einhver umsjón og hægt verði að hafa bæði eftirlit og kannski aðstoð við þetta og sömuleiðis margháttaða samræmingu.
    Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að 15,9 millj. eru ætlaðar í fjárlögum 1992 til þessara starfa. Þar að auki er hér ákvæði um menntunarsjóð fullorðinna. Svo nauðsynlegt sem það starf, að koma á öflugri og vandaðri fullorðinsfræðslu, er hlýtur öllum að vera ljóst að slíkt kostar peninga og ég vil leggja á það áherslu --- eins og ég er þó hlynntur því að fullorðinsfræðslu verði gerð góð skil --- að við megum ekki draga úr grunnmenntun til þess að spara saman fyrir þessu. Við verðum að sjálfsögðu að halda því fram sem við mögulega getum til að grunnmenntun, þ.e. grunnskóli og framhaldsskóli, haldi sínum kjörum jafnframt því sem við bætum við menntunarvettvanginn.
    Það hefur verið svo með þau frumvörp sem hingað hafa komið inn í þingið síðustu daga að þau hafa verið æðimörg og jafnframt hefur verið nokkuð annasamur tími svo að það er misjafnt hvað menn hafa haft mikinn tíma til að gaumgæfa hvert einstakt mál. Mig langaði aðeins til þess að víkja að nokkrum efnisatriðum þessa frv. Hér er auðvitað tekið fram í 1. gr. og undirstrikað þar með ,,í samræmi við fjárveitingar á hverjum tíma``. Það er svo sem ekki tekið fram í öllum lögum en er þó í framkvæmdinni, eins og allir vita, í samræmi við fjárveitingar þar sem fjárlög upphefja önnur.
    Varðandi yfirstjórn fullorðinsfræðslu, II. kafla, og skipulag almennrar fullorðinsfræðslu sem er III. kafli. Ég hefði gjarnan viljað sjá þetta frv. þannig að II. kaflinn dytti út eins og hann leggur sig. Þetta er í samræmi við athugasemdir sem ég gerði við frv. að grunnskólalögum fyrir ári síðan. Ég er þeirrar skoðunar að umfang stjórnar á þessum málum batni ekki endilega í réttu hlutfalli við fjölda þeirra sem settir eru til að stjórna. Ef við

litum hér á 3. gr.: ,,Menntamálaráðherra skipar fullorðinsfræðsluráð til fjögurra ára í senn til að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um meginstefnu og áhersluþætti í fullorðinsfræðslu. Kveða skal á um skipan ráðsins í reglugerð.`` Hér vantar fjöldann. Ég held að annað sé óskynsamlegt en tekið sé á því í lögunum sjálfum. Síðan kemur 4. gr. um verkefni fullorðinsfræðsluráðs. Ég sé ekki annað en þessi verkefni mundu velflest falla prýðilega að þeim verkefnum sem fullorðinsfræðslunefnd um almenna fullorðinsfræðslu, er ætlað að annast. Undir lið a stendur að hlutverk fullorðinsfræðsluráðs sé að: ,,vera stjórnvöldum til ráðuneytis um meginstefnu og áhersluþætti í fullorðinsfræðslu, jafnt starfsmenntun samkvæmt sérstökum lögum sem almenna fullorðinsfræðslu``. Mér finnst í samræmi við það sem ég sagði áðan svolítið sérstakt við þessi starfsmenntunarlög, sem eiga heima innan félmrn., að þar er samt nefnd sem á að vera til ráðuneytis innan menntmrn. auk þess sem gert er ráð fyrir að mat á störfum félmrn. sé á hendi menntmrn. Ef þetta á að vera svona gætu allar þessar greinar, a, b, c, d, e og f átt heima innan 6. gr. í verkefnum sem þar eru talin upp. Þá mundi b-liður heyra undir d-lið í 6. gr. og annað fellur að almennu hlutverki þessarar nefndar um fullorðinsfræðslu. Ég hefði því talið eðlilegt að í stað þessa ráðs kæmi nefnd sem hefði betri starfsskilyrði og gæti starfað betur að þessum málum í stað þess að dreifa þeim á fjöldamarga aðila sem e.t.v. hafa tæpast möguleika á því að rækja þetta starf eins og gert er ráð fyrir í lögunum. T.d. er gert ráð fyrir því að margt sé sérfræðilegs eðlis, að ,,afla gagna og miðla upplýsingum um fullorðinsfræðslu í landinu og erlendis``. Það er fullorðinsfræðsluráðinu ætlað að gera. Sömuleiðis á það að ,,beita sér fyrir menntun kennara og leiðbeinenda fyrir fullorðna``.
    Ég sé ekki nauðsyn á því eða ástæðu til að ætla að störf verði betri með því að hafa þarna annars vegar fullorðinsfræðsluráð og hins vegar fullorðinsfræðslunefnd sem starfa að sömu verkefnum og eiga meira og minna að fjalla um sömu mál. Reyndar er gert ráð fyrir því að fjórir af fimm nefndarmönnum í fullorðinsfræðslunefnd eigi sæti í fullorðinsfræðsluráði.
    Ég vil lýsa yfir ánægju minni með 8. gr., þar stendur: ,,Við skipulagningu og framkvæmd almennrar fullorðinsfræðslu skal tekið tillit til sérþarfa þeirra sem vegna frávika frá eðlilegum þroskaferli og vegna sjúkdóma eða hvers konar fötlunar geta ekki notið venjulegrar fræðsluskipunar.`` Það er mjög gott að sjá þessi ákvæði hérna inni en svo er náttúrlega spurning hvernig gengur að framfylgja þeim. En orð eru til alls fyrst og út af fyrir sig er mjög ánægjulegt og gott að þetta skuli sett í frv.
    En það er annað sem ég var að velta fyrir mér í 9. gr. Þar stendur: ,,Skólahúsnæði og aðstaða í skólum í eigu opinberra aðila skal að öðru jöfnu standa fræðsluaðilum til boða á þeim tímum þegar almenn kennsla eða starf í skólanum liggur niðri. Fræðsluaðila ber að semja um slík afnot við stjórnendur skóla.``
    Nú getur verið að mér hafi sést yfir það í frv. eða athugasemdum en ég hef ekki séð að fræðsluaðili væri skilgreindur og þá velti ég fyrir mér hvort þessi lög, ef samþykkt verða, geta falið hverjum sem er rétt til þess að krefjast afnota af skólahúsnæði. Ég held að nauðsynlegt sé að það sé ljóst hverjir teljast fræðsluaðilar í þessu tilviki. Það er reyndar talað síðar um fræðsluaðila sem eiga rétt á styrk. En ég vil benda á það að ef ekki er skilgreint frekar hver er fræðsluaðili þá erum við í rauninni að segja að hverjum og einum sem dettur í hug að fræða einhverja aðra um hvað sem er beri réttur til að nota skólann. Ég held að rétt væri að hafa þetta skýrar tilgreint.
    Um menntunarsjóð fullorðinna er að sjálfsögðu allt hið besta að segja og eins það hverjir geti fengið styrk úr þeim sjóði. Ég sé ekki annað en að þar sé um mörg og góð verkefni að ræða. Mig langar að spyrja hvort hugmyndin sé að stofna til þessa sjóðs þegar eftir samþykkt laganna eða hvort eitthvað hefur verið ráðgert um hvenær til hans verður stofnað og hvort honum verði þá tryggt nægilegt fjármagn. Þessi sjóður verður að litlu gagni nema til hans komi fjármagn, trúlega nokkurn veginn í þá veru sem greinargerðin gerir ráð fyrir. Það eru, ef ég man rétt, um 5% af framhaldsskólaframlaginu. Þar er um að ræða allverulega fjárhæð en með minna þýddi líklega ekki að fara af stað.
    Um fullorðinsfræðsluráð segir í greinargerð: ,,Talið er rétt að forðast beri flóknar

reglur um fullorðinsfræðslu og ekki sé ástæða til að lögfesta viðamikið stjórnkerfi í kringum þetta menntunarstig.`` Mér finnst þetta frekar styðja þessar hugmyndir en hitt.
    En að öðru leyti og að þessum athugasemdum gerðum sem ég hef borið hér fram vil ég lýsa aftur yfir ánægju minni með því að frv. skuli vera komið fram. Ég vonast til að um það náist sátt að almenn fullorðinsfræðsla og starfsmenntun í atvinnulífinu geti með einhverjum hætti orðið samstiga. Ég tel æskilegt að starfsmenntunin njóti, hvernig sem með vistun hennar verður farið innan ráðuneytis, leiðsagnar og þekkingar sem er að finna í menntmrn.