Fullorðinsfræðsla

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 15:56:00 (5230)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Ég þakka góðar undirtektir sem frv. hefur fengið hjá hv. ræðumönnum. Við getum verið sammála um að það sé ekki gott til afspurnar fyrir hv. Alþingi að svo langur tími skuli hafa liðið frá því að tilraunir hófust til að koma frv. til laga um almenna fullorðinsfræðslu í gegnum þingið. En það er staðreynd sem blasir við og ég hlýt að láta í ljós þá von að okkur takist að fá þetta mál afgreitt á þessu þingi. Það hefur verið fundið að því hversu seint frv. er lagt fram. Ég viðurkenni að það er seint á ferðinni, því miður. Fyrir því eru ýmsar ástæður. Við eyddum kannski of löngum tíma í að kanna hvort æskilegt væri að gera frekari breytingar á frv. frá því sem áður var. Niðurstaðan varð sú, og tók kannski óþarflega langan tíma að fara yfir málið, að á því eru gerðar hverfandi litlar breytingar. Ég hef þegar skýrt þær og þær varða einkum 3. gr. sem hefur verið gerð að umtalsefni af nokkrum hv. ræðumanna. Ég endurtek aðeins það sem ég sagði í framsögu minni að ekki þótti rétt að binda þetta niður eins og gert var í fyrra frv. þar sem þrettán aðilar voru tilgreindir eða tólf tilgreindir fulltrúar ákveðinna samtaka. Það þótti skynsamlegra að setja ákvæði um það í reglugerð vegna breytinga sem á geta orðið og aðilar kynnu að vilja koma þar inn sem ekki væru þá taldir upp í lögunum og þyrfti þá að breyta þeim. Mér þykir satt að segja líklegt að farið verði mjög nærri því sem var í fyrra frv. að biðja um tilnefningar þeirra aðila sem þar eru taldir upp en ákvæði um það verða, eins og ég segi, að koma í reglugerð.
    Það hefur komið upp aftur nú, sem kom einnig upp í umræðunni um frv. um starfsmenntun í atvinnulífinu, að flestum sem hafa tjáð sig sýnist að réttara sé að þessi mál, bæði starfsmenntun í atvinnulífinu og almenn fullorðinsfræðsla, séu á verksviði menntmrh. Ég lýsti þeirri skoðun minni við umræðuna um frv. um starfsmenntun í atvinnulífinu að mér sýndist það skynsamlegri leið. En samt er það svo að um þetta varð samkomulag milli núverandi stjórnarflokka, alveg eins og var milli þeirra flokka sem stóðu að fyrrverandi ríkisstjórn. Mér sýnist því að það sé Kvennalistinn einn sem hefur ekki tekið þátt í slíku samkomulagi. Allir aðrir flokkar, sem nú eiga fulltrúa á þingi, hafa fallist á að hafa þetta með þeim hætti sem við erum nú að ræða í þinginu.
    Ég nefni það, vegna þess að það hefur verið gert að umtalsefni, að hv. félmn. hefur þegar skilað nál. og komið hefur brtt. frá henni við frv. um starfsmenntun í atvinnulífinu og hv. menntmn. hefur veitt sína umsögn. Málið er þó ekki komið lengra en það að auðvitað er hægt að ræða það áfram í nefndum, það leyfa þingsköp. Ég bendi bara á það án þess að ég sé nokkuð að hvetja til þess að farið verði að setja þessi mál í hættu við það að taka þau aftur upp í þingnefndunum. En það er sem sagt hægt, það er ekkert sem bannar það.
    Hér hefur verið rætt nokkuð um að tengingu skorti milli þessara frv., annars vegar um almenna fullorðinsfræðslu og hins vegar um starfsmenntun í atvinnulífinu. Í því sambandi vil ég aðeins koma að því sem hv. þm. Pétur Bjarnason ræddi hér áðan varðandi II. kaflann sem honum sýndist mega falla brott, Yfirstjórn fullorðinsfræðslu. Það er sjónarmið út af fyrir sig en ég bendi aðeins á að sá kafli fjallar um yfirstjórn þessarar fullorðinsfræðslu yfirleitt og tengist þannig starfsmenntun í atvinnulífinu. Það er verkefni fullorðinsfræðsluráðsins að vera stjórnvöldum almennt til ráðuneytis um meginstefnu og áhersluþætti í fullorðinsfræðslu eins og segir í 4. gr. Í III. kafla, í 5. gr., er fjallað um skipan fimm manna nefndar um almenna fullorðinsfræðslu. Hún er hins vegar eingöngu undir

menntmrn. og er menntmrn. og fræðsluaðilum til ráðuneytis. Á þetta bendi ég en útiloka ekki að það megi taka þetta saman í einn kafla og jafnvel undir eina og sömu nefndina. Mér finnst sjálfsagt að það sé kannað frekar.
    Ég nefndi í minni framsögu hvaða fjárveitingar væru til fullorðinsfræðslunnar á árinu 1992 og það eru 15,9 millj. Ég sagði einmitt að það væri alveg ljóst að það þyrfti að bæta við þá fjárhæð ef þetta frv. verður samþykkt og má raunar segja hvort eð er. En ég bendi á að auðvitað er miklu meiri fjármunum varið til fullorðinsfræðslumála á þessu ári en þessum 15,9 millj. Mig minnir að til starfsmenntunar í atvinnulífinu séu á fjárlögum eitthvað yfir 40 millj. kr. og ef ég man rétt eru hjá sjútvrn., vegna sérstakrar fræðslu á sviði fiskiðnaðarins, um 60 millj. Það eru því á annað hundrað milljónir til ráðstöfunar í þessum fræðslumálum almennt. En ég tek undir það og ítreka að það þarf að bæta við þetta fjármagn. Eins og segir í frv. er það háð fjárveitingum frá Alþingi og mér sýnist það liggja í augum uppi að verði frv. að lögum hlýtur menntunarsjóður að fá framlag á næstu fjárlögum. Það mundi þá þýða að á fjárlögum ársins 1993 yrði framlag til menntunarsjóðs fullorðinna sem ákvæði eru um í 11. gr. frv.
    Varðandi 9. gr. og spurningu hv. þm. Péturs Bjarnasonar um hvort hún þýddi það að hver sem er geti krafist afnota af skólahúsnæði þar sem ekki sé nægilega skilgreint í frv. hverjir fræðsluaðilar eru. Ég skil greinina alls ekki þannig að hver sem er geti krafist afnota af skólahúsnæði og ég bendi aðeins á í því samhengi að í greininni sjálfri er gert ráð fyrir að sett verði sérstök reglugerð og hún mun áreiðanlega taka á þeim þætti líka.
    Ég held það sé ekki fleira sem ég tel ástæðu til að koma að en ég ítreka þakkir mínar fyrir góðar undirtektir við frv.