Vernd barna og ungmenna

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 16:28:00 (5232)


     Drífa Hjartardóttir :
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta frv. er komið fram og þá sérstaklega hvað varðar stækkun umdæma barnaverndarnefnda. Það hefur oft verið mjög viðkvæmt mál í fámennum sveitarfélögum þegar þarf að taka á málefnum barna. Því finnst mér það sérstaklega gott ef þetta fer yfir á héraðsnefndasviðið. Einnig fagna ég því að lögð skuli verða áhersla á aukna réttarvernd barna.
    Með leyfi forseta langar mig til að víkja aðeins að skólamálum því mér þykir velferð barna og unglinga felast ekki hvað síst í því að þeim líði vel í skóla. Það er afskaplega mikilvægt í vaxandi samkeppni okkar við umheiminn að vel sé búið að börnum og unglingum hvað varðar menntun og nám. Þekking er góð fjárfesting og kjölfesta fyrir framtíðina. Ef vel er á haldið gefur hún ungu fólki innri styrk sem vinnur gegn lífsflótta. Í nútímasamfélagi tekur skólinn að miklu leyti þátt í uppeldi barna og unglinga ásamt foreldrum og öðrum uppalendum sem að sjálfsögðu bera þar mesta ábyrgð. Það er því mikið atriði að gott samstarf ríki á milli heimila og skóla. Þar á milli þarf að ríkja gagnkvæmur skilningur og samvinna. Mikið er í húfi að vel takist til í skólastarfinu og eru þá fyrstu árin ekki undanskilin. Skiptar skoðanir eru um hve mikið á að kenna ungum börnum en þau eru mjög misjöfn að þroska. En ætla má að nýta megi fyrstu árin mun betur en nú er gert. Menntakerfið á að þjóna þörfum og óskum einstaklinganna. Það verður að taka tillit til þroska hvers og eins og það er ákaflega mikilvægt að lögð sé áhersla á hjálparkennslu fyrir þá sem þurfa þess með því það er oft sem það vantar ekki nema herslumuninn á að nemandinn geti fylgt hinum eftir. Þetta er þáttur sem ekki má vanmeta. Skólinn má aldrei hefta framfarir einstaklingsins og þeim sem eiga auðvelt með að læra á að hjálpa áfram. Það er allt of mikið gert af því í dag að miða allt við meðalnemandann. Með því að draga úr miðstýringunni í skólakerfinu er ég þess fullviss að mun betur verður farið með þá fjármuni sem skólanum er treyst fyrir.
    Í ört vaxandi samkeppni þjóðanna þarf ekki hvað síst að efla verkmenntun í landinu og virðingu fyrir þeim störfum sem henni tengjast. Það er menning að gera hlutina vel, hvort sem er að yrkja jörðina, vinna úr sjávarafla, byggja hús, vera í barnaverndarnefnd og svo mætti lengi telja. Ef við hugum ekki að þessum þáttum verðum við undir í samkeppni þjóðanna. Vopnin í glímuna höfum við en þau eru menntun og menning.
    Skólinn er einn þýðingarmesti starfsvettvangur í samfélaginu. Þar eru börnin búin undir framtíðina, líf og starf í nútímasamfélagi sem er í sífelldri þróun. Íslensk æska er fjöregg okkar og því ber að hlúa að henni eins og kostur er. Við mættum öll huga að Sögunni af brauðinu dýra en þar segir Halldór Laxness frá því hverju Guðrún Jónsdóttir svaraði þegar spurt var hvort henni hefði staðið á sama um líf eða dauða, bara að brauðið kæmist til skila. ,,Því sem manni er trúað fyrir, því er manni trúað fyrir.`` Ég ætla að vona að Íslendingar beri gæfu til þess að hafa barnavernd og lög um verndun barna að leiðarljós.