Vernd barna og ungmenna

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 16:32:00 (5233)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Frv., sem hér hefur verið lagt fram, er vissulega stórt og mikið í sniðum og e.t.v. er mál til komið að endurskoða lög um vernd barna og ungmenna. Þau lög sem frv. á að leysa af hólmi eru að ég held 26 ára gömul. Markmið þessara laga er að tryggja börnum og ungmennum bestu fáanleg skilyrði. Þetta er, eins og ég sagði, mjög stórt og viðamikið frv. og því erfitt að taka fyrir allar greinar þess og fara yfir þær sem e.t.v. þyrfti að gera.
    Ég ætla aðeins að drepa á nokkur atriði. Í 1. gr. er talað um að með börnum sé átt við einstaklinga innan 16 ára aldurs en ungmenni séu 16--18 ára. Mér finnst að þarna komi fram mjög mikill misskilningur eða a.m.k. mismunur milli þess hvort við erum að tala um börn eða ungmenni. Það leiðir hugann að því að í dag eru unglingar, eins og ég vil kalla þá, sjálfráða þegar þeir eru 16 ára gamlir. Síðan taka þeir ökupróf 17 ára og 18 ára gamlir hafa þeir aðgang að vínveitingastöðum en mega ekki kaupa sér vín fyrr en 20 ára. Þarna eru alls konar aldurstakmörk á ýmsum stigum frá 16--20 ára og það er spurning hvort ekki ætti að miða í frv. við að einstaklingar væru börn til 18 ára aldurs en ekki að skilgreina börn innan 16 ára og ungmenni 16--18 ára. Ég held að breytt samfélag í dag kalli á að við endurskoðum þessa afstöðu okkar með að við eigum ekki börnin nema til 16 ára aldurs, þá séu þau sjálfráða. Í dag er það staðreynd að börn eru miklu lengur á framfæri foreldranna. Við höfum framfærsluskyldu til 17 ára aldurs. Það stangast því hvað á annað, að þau séu sjálfráða en samt höfum við skyldu til framfærslu. Ég held að þetta atriði þyrfti að skoða. Hvort það verði gert í tengslum við þetta veit ég ekki en alla vega fannst mér rétt að nefna þetta hér.
    Það má einnig skoða að aldurstakmörk eru ekki alltaf miðuð við það sama, þ.e. stundum er miðað við áramót en stundum við fæðingardag. Börn eru sjálfráða um leið og þau eru orðin fullra 16 ára, þ.e. á afmælisdaginn. Síðan hafa þau aðgang að danshúsum þegar þau eru 16 ára, þ.e. um áramót, þá er ekki miðað við fæðingardag og þau hafa aðgang að veitingahúsum 18 ára. Þá er miðað við fæðingardag en ekki um áramót þannig að þarna er allt sitt með hvorum hætti.
    Í 3. gr. er sagt að ráðuneytið skuli hafa ,,frumkvæði að þróunarstarfi og rannsóknum á sviði barnaverndar``. Það er ágætt að mínu mati að tekið skuli á því að það sé félmrn. sem eigi að hafa frumkvæði að þróunarstarfi og rannsóknum. Það er orðið mjög tímabært í okkar nútímaþjóðfélagi að unnið sé meira að málefnum barna og unglinga og það sé gert með það í huga að efla fræðslu foreldra og þeirra sem hafa með höndum forræði barna. Oft hefur verið rætt um skort á fjölskylduráðgjöf, foreldrafræðslu og fleira í þeim dúr. Þarna virðist mér að tekið sé nokkuð af skarið um það hver eigi að hafa frumkvæði að því sem gæti leitt til fjölskyldufræðslu og foreldrafræðslu.
    Svo eru nokkur einkennileg orðasambönd í þessari 3. gr. líka. Þar segir t.d. í einni setningu, með leyfi forseta:
    ,,Það [þ.e. félmrn.] skal hafa eftirlit með störfum allra barnaverndarnefnda á landinu, heimta frá þeim ársskýrslur . . .  `` Það er nokkuð undarlegt að taka svona til orða. Er ekki nægilegt að ætlast til að þær skili ársskýrslum? Enn fremur segir að ráðuneytið skuli krefja barnaverndarnefnd skýrslna ,,og halda henni til að rækja skyldu sína.`` Það er fast að orði kveðið þarna. Það er verið að heimta og krefja og halda nefndum til að gera þetta og hitt. Síðan er sagt í þessari sömu málsgrein 3. gr.:
    ,,Nú verður ráðuneytið þess áskynja að barnaverndarnefnd hefur kveðið upp úrskurð sem er andstæður lögum . . .  `` Mér finnst undarlegt ef barnaverndarnefnd getur kveðið upp úrskurð sem er andstæður lögum þar sem hún hlýtur að byggja úrskurði sína á lögum. Hún getur varla farið að kveða upp úrskurð sem hún getur ekki rökstutt með tilvísun í lög. Síðan segir --- og þá hef ég kannski fagnað því of snemma að félmrn. muni ætla sér að vinna að því að efla fjölskylduráðgjöf og foreldrafræðslu. Það segir við neðstu greinarskil: ,,Ráðuneytið skal hlutast til um að settar verði á fót stofnanir samkvæmt 54. gr. laga þessara.`` Þarna er þetta mjög opið, þar segir ekkert um að ráðuneytið eigi að gera þetta. Það er ekki kveðið jafnskýrt á og um barnaverndarnefndirnar sem eiga að skila af

sér til félmrn. heldur á ráðuneytið að hlutast til um þetta. Það er því mjög opið hvort ráðuneytið muni gera það eða ekki.
    Í 4. gr. segir um eftirlit og leitarstarf að barnaverndarnefndir skuli hafa eftirlit með aðbúnaði og hátterni barna og ungmenna. Hvernig eiga barnaverndarnefndir að hafa þetta eftirlit? Hver á að gera þeim grein fyrir hlutunum og hverja geta þær krafið um skýringar? Það er ekkert talað um að setja eigi nánari reglugerð um það hvernig barnaverndarnefndir hagi þessu eftirliti. Mér finnst vanta inn í þessa grein.
    Í II. kafla laganna er rætt um breytingar á umfangi barnaverndarnefnda, þ.e. að nú séu það héraðsnefndir sem kjósi í barnaverndarnefnd. Ég vil taka undir orð hv. 1. þm. Suðurl. áðan um að það hefur oft valdið miklum erfiðleikum, sérstaklega í dreifbýli, að barnaverndarnefndir eru kosnar af smáum sveitarfélögum sem ekki hafa þá aðstöðu til að sinna þeim málum sem þeim eru falin. Oft er starfið mjög erfitt sökum fámennis, allir þekkja alla og erfitt um vik að taka afstöðu. Málin eru viðkvæmari eftir því sem samfélagið er fámennara. Ég held að það sé mjög til bóta að héraðsnefndirnar kjósi í barnaverndarnefndir og það stækkar þá það svæði sem þær ná yfir þó að bæjarstjórnir geti kosið sér sínar eigin barnaverndarnefndir og að sjálfsögðu borgarstjórn í Reykjavík.
    Í 10. gr. er fjallað um að barnaverndarnefnd geti ráðið sér sérhæft starfslið. Það tel ég einnig mjög brýnt að hægt sé að gera og það er e.t.v. þessi stækkun á svæði sem barnaverndarnefnd á að ná yfir sem mun frekar gera það mögulegt.
    Í 17. gr. er aftur fjallað um barn innan 16 ára aldurs og þar held ég að ætti frekar að segja barn innan 18 ára aldurs samanber það sem ég sagði hér í upphafi. Ég tel að við eigum að skoða það hvort við þurfum ekki að breyta þeim ákvæðum að börn séu sjálfráða 16 ára. Ég tel að breytt þjóðfélag kalli á það að börn eru miklu lengur heima, þau eru miklu lengur í umsjá foreldranna og ég held að við þurfum að skoða það hvort þetta þarf ekki alla vega að fara saman við forsjárskyldu foreldra sem er til 17 ára.
    Í 22. gr. er rætt um að barnaverndarnefnd eigi að láta gera skriflega skýrslu um meðferð máls ef komið hefur í ljós að ,,aðbúnaði, umönnun eða uppeldi barns er áfátt`` og barnaverndarnefnd ætlar að beita sér fyrir úrbótum. Það er ekki sagt fyrir hvern hún á að leggja þá skriflegu áætlun heldur aðeins að hún eigi að gera skriflega áætlun og ég spyr því: Hver skoðar þá áætlun og athugar hvort hún er við hæfi? Eða eru það aðeins foreldrarnir sem fá þá áætlun og ákveða hvort þeir vilji þá fara eftir henni?
    Í 24. gr. er atriði sem ég vil aftur koma að í sambandi við fræðslu- og fjölskylduráðgjöf. Það er a-liðurinn í 24. gr. um stuðningsúrræði, þ.e. þegar könnun leiðir í ljós að þörf sé aðgerða barnaverndarnefndar, þá er talað um að það þurfi fyrst að leiðbeina foreldrum um uppeldi og aðbúnað barns. Það er mjög áríðandi og mikils um vert að sem fyrst verði komið á einhverri ráðgjöf. Þetta á sérstaklega við úti um landið, enn meira a.m.k. en hér í Reykjavík og í stærri kaupstöðum sem eru raunverulega einu staðirnir á landinu þar sem einhver félagsmálaþjónusta er. Það er ekki í smærri sveitarfélögunum og í heilu sýslunum er e.t.v. engin slík félagsmálaráðgjöf. Þarna er enn og aftur komið að því sem okkur vantar svo mjög í þessu þjóðfélagi, það er fjölskylduráðgjöf.
    Í VI. kafla er rætt um ráðstöfun barna í fóstur. Í 33. gr. segir að ef barnaverndarnefnd hefur valið fósturforeldra skuli fulltrúi barnaverndarnefndar koma á fósturheimili eigi sjaldnar en einu sinni á ári hverju til eftirlits. Mér finnst þetta nokkuð lítið vegna þess að jafnframt er sagt í 32. gr. að hægt sé að gera samning um varanlegt fóstur eftir reynslutíma sem ekki á að vera lengri en eitt ár. En á þessu eina ári á sem sagt fulltrúi barnaverndarnefndar að koma einu sinni til þess að líta eftir hvernig barnið hefur það og hvort allt sé í lagi. Mér finnst að það þyrfti að vera a.m.k. fjórum sinnum á ári sem barnaverndarnefnd sendi sinn fulltrúa til að athuga hvort allt færi nú rétt fram og vísast þá í þessa 32. gr., síðustu setninguna, að það sé hægt að gera samning um varanlegt fóstur og tíminn á ekki að vera lengri en eitt ár. Ég hefði heldur viljað orða það öðruvísi og segja að reynslutíminn ætti ekki að vera styttri en eitt ár en hann gæti hugsanlega verið lengri.
    Í 41. gr. er rætt um endurskoðun fóstursamnings og í fyrstu setningu segir, með leyfi forseta: ,,Ef aðstæður fósturforeldra breytast, svo sem vegna skilnaðar, andláts eða búferlaflutninga, ber að tilkynna barnaverndarnefnd um það og skal þá endurskoða fóstursamning ef ástæða þykir til.`` Mér finnst þetta undarlegt orðalag að vegna andláts eða búferlaflutninga þurfi að tilkynna barnaverndarnefnd það og þá þurfi að endurskoða fóstursamning í ljósi þess. Ég vil líta svo á að ef fólk hefur tekið að sér börn, þá líti það á þau börn sem sín eigin. Kynforeldrar mundu náttúrlega aldrei láta sér detta í hug að leita sér aðstoðar barnaverndarnefndar þó svo að maki félli frá eða um búferlaflutninga væri að ræða. Annað mál er skilnaður, það getur þurft að leita aðstoðar vegna skilnaðar eða breytinga á högum þess vegna. En falli maki frá eða búferlaflutningar eru í aðsigi held ég að kynforeldrar færu ekki að leita eftir aðstoð barnaverndarnefndar og mér finnst að það eigi að gilda það sama um fósturforeldrana.
    Ég held að huga þurfi betur að ákvæðum 43. gr. Ég mundi alla vega vilja beina því til nefndarinnar sem um þetta mun fjalla hvort rétt sé að hafa það ákvæði inni að tilkynna beri barnaverndarnefnd þegar barni er komið fyrir hjá öðrum og dvöl er ætlað að standa lengur en sex mánuði. En aftur á móti ef barnið er hjá vandamönnum þarf ekki að tilkynna þá ráðstöfun nema hún eigi að standa í níu mánuði eða lengur. Þetta atriði orkar kannski tvímælis.
    Eins og ég sagði í upphafi er þetta allt of viðamikið frv. til að hægt sé að taka hverja grein sem væri full ástæða til að gera en e.t.v. verða einhverjir til þess hér á eftir mér. Í IX. kafla um stofnanir segir í 54. gr. að félmrn. skuli hlutast til um að settar verði á fót stofnanir eða heimili sem nauðsynleg eru til að barnaverndarnefndum sé unnt að rækja störf sín. Þarna komum við enn og aftur að því að félmrn. þarf að hafa forgöngu í því að til séu stofnanir jafnframt fjölskylduráðgjöf. Félmrn. á þarna stórt verkefni fram undan ef frv. nær samþykki þingsins.
    Í 54. gr., síðasta málslið, er sagt að félagasamtökum sé heimilt að setja á stofn heimili eða stofnanir að fengnu leyfi félmrh. Ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að setja þetta ákvæði inn vegna þess að annars gætu sérhver félagasamtök eða aðilar sett á stofn heimili sem síðan lenti á sveitarfélögum eða ríki að reka. Ég held að það sé nauðsynlegt að félmrh. eða einhverjir hafi yfirsýn yfir það hvað er sett á stofn af heimilum eða stofnunum til stuðnings börnum og ungmennum.
    Hæstv. menntmrh. vék áðan að því, í sambandi við gildistíma frv., að á næsta hausti yrðu endurskoðuð lög um eftirlit með kvikmyndasýningum. Í 59. gr. hnaut ég um ákvæði sem mér finnst orka tvímælis líka og það er, með leyfi forseta:
    ,,Barnaverndarnefnd skal eftir því sem hún telur ástæðu til hafa eftirlit með leiksýningum og hvers konar opinberum sýningum eða skemmtunum öðrum en kvikmyndasýningum.``
    Mér fannst einkennilegt að barnaverndarnefnd ætti ekki að hafa neitt eftirlit með kvikmyndasýningum svo ég fór að athuga hvað segði um þetta í umsögninni. Þar segir: ,,Greinin er að mestu samhljóða 43. gr. gildandi laga.`` Í þeim lögum segir í 43. gr. laga nr. 53/1966, með leyfi forseta:
    ,,Barnaverndarnefnd er skylt að hafa í umdæmi sínu eftirlit með leiksýningum og öðrum opinberum sýningum og hvers konar öðrum skemmtunum. Er þeim, sem veita slíkum skemmtunum forstöðu, skylt að veita barnaverndarnefnd kost á því að kynna sér efni þeirra á undan almenningi. Ef barnaverndarnefnd telur skemmtun skaðsamlega eða óholla sálarlífi barna getur hún bannað að börn innan ákveðins aldurs fái aðgang að henni, samanber þó um kvikmyndasýningar 58. gr., 5. mgr. Skulu þá forstöðumenn skemmtana geta þess á sinn kostnað í auglýsingum um hana. [Þegar börnum og ungmennum er bannaður aðgangur að þeim skemmtunum sem að ofan greinir, þar með taldar kvikmyndasýningar, samanber 58. gr. þessara laga, þá skal miða aldur þeirra við fæðingarár en ekki fæðingardag.]``
    VI. kafli núgildandi laga er um skoðun kvikmynda og mér finnst þetta vera tekið algjörlega út úr þessu frv. Ég held að það þurfi að skoða þetta samhliða en svo mikið hefur verið deilt á myndefni, bæði í sjónvarpi og kvikmyndum, og allt það fjölmiðlaefni sem er hellt yfir börn og unglinga. Ég held að við getum ekki afgreitt þetta mál um kvikmyndaeftirlit vegna barna og unglinga bara með þessari 59. gr. í frv., þ.e. að barnaverndarnefnd verði að hafa eftirlit með öllum skemmtunum, sýningum, skemmtunum, öðrum en kvikmyndasýningum.
    Mér virðist að þarna sé verið að koma þessu ákvæði undan á einhvern hátt án þess að tekið sé á því og e.t.v. er skýringin sú, eins og hæstv. menntmrh. sagði áðan, að þessi lög eru öll í endurskoðun, þ.e. lög um eftirlit með kvikmyndasýningum og ég vona að svo sé. En ég held að það verði að skoðast í samhengi við þessa grein.
    Í XI. kafla eru refsiákvæðin rædd. Mér finnst þar ýmislegt stangast á. Í 63. gr. segir t.d.: ,,Nú lætur maður hjá líða að tilkynna barnaverndarnefnd um svo illa meðferð eða slæman aðbúnað barns eða ungmennis . . .  þá varðar það sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum.``
    Í 66. gr. segir að ef þeir sem hafa börn eða ungmenni í sinni umsjá og vanræki þau andlega eða líkamlega varði það varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum, nema þyngri refsing liggi við.
    Í 67. gr. segir: ,,Hver, sem beitir barn eða ungmenni refsingum, hótunum eða ógnunum og ætla má að slíkt skaði barnið andlega eða líkamlega, skal sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að þremur árum.``
    Þarna finnst mér vera ósamræmi í frv. Þetta er í raun og veru allt það sama. Í 63. gr. er fjallað um þann sem veit um illa meðferð eða slæman aðbúnað barns og e.t.v. mætti vera vægara ákvæði þar. En í 66. og 67. gr. tel ég að um það sama sé að ræða og ekki þurfi að vera ósamræmi í því að fyrir annað gildi refsing í tvö ár en fyrir hitt gildi refsing í þrjú ár. Þetta held ég að þurfi að skoða, bæði 66. og 67. gr.
    Þau nýmæli í frv. að yfirstjórn barnaverndarmála verði hér eftir í höndum félmrn. í stað menntmrn. tel ég til bóta og í takt við þá þróun sem er að verða alls staðar í kringum okkur á Norðurlöndunum. Ég held að þetta sé það sem mun koma hjá okkur og því eðlilegra að þetta sé í höndum félmrn. en menntmrn. enda heyrðist mér að hæstv. menntmrh. hefði ekkert við það að athuga. Einnig er nauðsynlegt að greina þarna á milli félmrn. og barnaverndarráðs um það hver hafi leiðbeiningarþjónustuna með höndum og hver hafi úrskurðarvaldið. Það hefur mjög verið gagnrýnt undanfarin missiri og ár að hvort tveggja væri í höndum barnaverndarráðs, bæði ráðgjöf og úrskurður. Ég held að þarna sé tekið á því á réttan hátt. Ég held líka að sameiginlegar barnaverndarnefndir sveitarfélaga undir yfirstjórn héraðsnefnda séu til bóta eins og ég hef lýst áður.
    Síðan er einnig rætt um í frv. að nauðsynlegt sé að gera viðeigandi breytingar á lögræðislögum en það er ekkert sagt í hvaða átt þær breytingar eiga að vera. Þetta er á bls. 19 í helstu nýmælum frv. Þá er sagt að í sambandi við skyldur yfirvalda sé nauðsynlegt að gera viðeigandi breytingar á lögræðislögum nr. 68/1984. Ég spyr því: Í hvaða átt er fyrirhugað að þær breytingar gangi? Hvað er það sem verið er að ýja að þarna?
    Að öðru leyti fagna ég því að frv. skuli rætt í þinginu og tel það tímabært þótt ég efist um að það geti fengið framgang og samþykki í þinginu núna áður en því lýkur í vor vegna þess að ég tel að hér sé um mjög stórt og viðamikið mál að ræða sem tæplega verði hægt að afgreiða með svo stuttum fyrirvara.