Vernd barna og ungmenna

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 16:58:00 (5234)


     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Ekki þarf að hafa um það mörg orð að sá málaflokkur sem frv. fjallar um, vernd barna og ungmenna, er einhver sá vandmeðfarnasti og erfiðasti sem hægt er að fást við. Það skiptir því miklu máli að frv. fái vandaða meðferð í nefnd enda er þetta ekki í fyrsta skiptið sem mál af þessu tagi er hér á ferðinni og hefur ekki fengið fullnaðarafgreiðslu. Ég vil ekki spá um það í upphafi hvernig sú afgreiðsla verður en ég hef tækifæri til þess að vinna að þessu máli í félmn. Við fulltrúar Framsfl. munum að sjálfsögðu gera það af fullum krafti. En það skiptir meira máli hvernig frv. er úr garði gert en hvort það hlýtur afgreiðslu í vor eða haust. Með því er ég ekki að spá því að þetta mál hljóti ekki afgreiðslu, ég er bara að leggja mikla áherslu á að það þarf að vinna þetta mál

vel.
    Í 1. gr. frv. er barnavernd sett markmið og síðan segir:
    ,,Markmið barnaverndar er að tryggja börnum og ungmennum viðunandi uppeldisskilyrði. Skal það gert með því að styrkja uppeldishlutverk fjölskyldunnar . . .  ``
    Þetta er háleitt markmið og auðvitað, ef þetta ætti að taka bókstaflega, kemur það inn á miklu fleiri mál en frv. fjallar um. Að setja sér það markmið í löggjöf að tryggja börnum og ungmennum viðunandi uppeldisskilyrði er ekkert smámál. Við getum spurt okkur hvað við gerum til að styrkja uppeldishlutverk fjölskyldunnar. Um það mætti halda mikla ræðu en ég ætla ekki að gera það. Það er ljóst að höfundum frv. er ljóst að það er erfitt að þjóna þessu markmiði því um 1. gr. segir:
    ,,Gengið er út frá því að hagsmunir barna verði alla jafna best tryggðir með því að þau alist upp hjá eigin fjölskyldu. Þótt litið sé á barnið sem einstakling er lögð áhersla á að það er engu að síður hluti af fjölskyldunni og ber barnaverndaryfirvöldum að virða það. Með orðalagi greinarinnar er stefnt að því að setja barnaverndaryfirvöldum raunhæf markmið. Ekki er barnaverndaryfirvöldum ætlað að tryggja öllum börnum bestu aðstæður, heldur að sjá svo um að engin börn búi við skaðlegar aðstæður.``
    Hér er náttúrlega komið inn á það ofurviðkvæma mál hvenær á að láta til skarar skríða og taka börn úr umsjá foreldra. Það er vandmeðfarið í meira lagi. Þá er komið að því að auðvitað verður markmið þessara laga að miða að því fyrst og síðast að gera það sem börnunum er fyrir bestu og setja hagsmuni þeirra og velferð ætíð í fyrirrúm. Það er auðvitað alveg nauðsynlegt að þessi lög séu skýr og þannig úr garði gerð að þau séu tæki sem duga til að vinna að þessum markmiðum.
    Ég hef, eins og ég sagði, tækifæri til að vinna að þessu máli í nefnd. Ég tók það fram að við fulltrúar Framsfl. í nefndinni munum gera það af fullum krafti og teljum að leggja þurfi vinnu í málið þótt það sé þegar búið að leggja mikla vinnu í það áður eins og kemur fram í fskj. frv. Þess vegna mun ég ekki rekja frv. lið fyrir lið og mun láta það bíða starfans í nefndinni.
    Helstu nýmæli frv. eru þau að yfirstjórn þessara mála er flutt undir félmrn. Það hefur verið rakið í ræðum þeirra sem hafa talað á undan mér við þessa umræðu hver þau nýmæli eru. Ég er sammála því að það sé til bóta og að breyttar aðstæður geri það að verkum að félmrn. sé eðlilegur vettvangur þessara mála vegna þess að það annast skyld málefni og ætlunin er að efla þau störf innan ráðuneytisins, t.d. félagsþjónustu sveitarfélaga.
    Gert er ráð fyrir breyttum starfsháttum barnaverndarráðs og mun ég ekki fara út í það að þessu sinni. Ætlunin með frv. er að stækka barnaverndarumdæmin en barnaverndarnefndir eru nú yfir 200 á öllu landinu. Ég tel að það sé líka til bóta og tel að það návígi sem er í þessum málum í fámenninu, ef takast þarf á við erfið mál, sé afar óheppilegt og geti haft slæmar afleiðingar. Hitt verður þó að taka fram að stækkun umdæma má ekki verða til þess að afgreiðsla verði vélræn eða óvandaðri. Ég hef vissulega enga ástæðu til að ætla það eða dæmi í því efni en vil þó benda á að stækkun barnaverndarumdæma má ekki verða til þess að hlutaðeigandi kynni sér ekki aðstæður eins og kostur er. Ég held að það sé mikilvægt og stækkun umdæma er nauðsynleg til þess að hægt sé að ráða fólk með sérþekkingu til ráðgjafar þeim aðilum sem sinna þessum málum.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð við fyrstu umræðu málsins öllu lengri. Málið kemur til félmn. og ég ætla að geyma frekari athuganir á málinu til nefndarstarfsins.