Vernd barna og ungmenna

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 17:27:00 (5236)


     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um vernd barna og unglinga og það er vel að loksins sé þetta frv. fram lagt og loksins sé farið að tala um börn og ungmenni í þinginu vegna þess að um flest annað er talað en börn og ungmenni en þau eru auðvitað framtíð þessarar þjóðar.
    Ég var að hugsa meðan ég var að hlusta á umræðuna um börn og ungmenni að

vandamál barna er að þau velja sér ekki foreldra og því getum við náttúrlega ekki breytt. Þó að margt sé mjög til bóta í frv. og ég fagna mörgum greinum frv., ef að lögum verða, þá kemur strax fram í 1. gr., með leyfi forseta: ,,Markmið barnaverndar er að tryggja börnum og ungmennum viðunandi uppeldisskilyrði. Skal það gert með því að styrkja uppeldishlutverk fjölskyldunnar og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við.`` Það er ekkert í frv. sem sem styrkir foreldra til þess. Ég er sammála hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, sem talaði á undan mér, um það að 20. gr. er alveg máttlaus í þessu sambandi. Í 33. gr. er talað um að barnaverndarnefnd eigi að þjálfa og undirbúa fósturforeldra áður en fóstur hefst og enn fremur að veita þeim stuðning og leiðbeiningar meðan fóstur varir eftir því sem nauðsyn ber til. ,,Fulltrúi barnaverndarnefndar skal koma á fósturheimili eigi sjaldnar en einu sinni á ári hverju.`` Það er spurning hvort það er nógu oft. Þarna er kveðið á um það að væntanlegir fósturforeldrar skuli þjálfaðir og undirbúnir en foreldrar nú til dags eru lítið þjálfaðir og undirbúnir. Það er þetta forvarnastarf sem vantar mikið á hér á landi, að foreldrar séu fullkomlega meðvitaðir um skyldur sínar.
    2. gr. frv. er um stjórn barnaverndarmála. Ég tel að hún sé til bóta.
    Varðandi 3. gr. er líka mjög til bóta að félmrn. taki yfir þennan málaflokk. Það er auðvitað í beinu framhaldi af því að sveitarfélögin sjá um þessi mál og því jákvætt og eðlilegt.
    Fyrst ég er að tala um jákvæðar hliðar frv. þá er 6. gr. þess mjög jákvæð líka. Hún er um kosningu og kjörgengi barnaverndarnefndar. Með þessum tillögum eru störf barnaverndarnefndanna gerð skilvirkari.
    Eins og ávallt hefur verið er skylda hvers einstaklings í þjóðfélaginu, sem verður þess áskynja að einhverju er alvarlega ábótavant í uppeldi barna, sú að gera viðvart. Þetta er auðvitað flókið og viðkvæmt mál en mjög mikilvægt að fólk almennt geri sér grein fyrir skyldu sinni. Kannski þarf að gera fólk betur meðvitað um að það á að gera viðvart og koma til aðstoðar börnum í neyð. Presturinn í mínum bæ endar predikanir sínar alltaf með þeim áminningarorðum. Ég hélt að þetta væri orðið fast í ritúalinu en þegar við vorum að ræða um messugjörðir í kaffistofununni var mér sagt að þetta væri einstakt. Ég held að það væri ágætt að hinn almenni borgari væri ávallt minntur á þá ábyrgð sína að gera viðvart ef hann sér að einhverju er ábótavant í aðbúnaði barna. Það er svo mikilvægt að gripið sé inn í áður en mikill skaði er skeður. Ef frv. verður að lögum verður mun auðveldara að grípa fljótar inn í heldur en verið hefur og er það mjög til bóta.
    Þrátt fyrir mikla almenna velmegun á Íslandi þá sjáum við börn allt niður í sex ára sem eru vegalaus og börn innan við tólf ára sem enginn treystir sér til að taka í fóstur vegna þess að þau eru svo varanlega skemmd. Þetta er auðvitað hlutur sem á ekki að geta átt sér stað. Hversu góð sem lagaákvæði kunna að vera þá er aðalatriðið að til séu úrræði í þjóðfélaginu þegar gripið er í taumana í slíkum málum. Mikið hefur vantað á að nægileg úrræði hafi verið til því ekki er nóg að grípa í taumana ef úrræðin eru jafnvel verri en sá aðbúnaður sem börnin hafa búið við.
    Ég hef tækifæri til þess í hv. félmn. að fara í gegnum frv. og vona að við berum gæfu til þess að fara mjög nákvæmlega en hratt í þetta því ég held að það liggi á að frv. verði að lögum. Eins og kemur fram í 4. gr. er forvarnastarfið eitt af því sem er til bóta og að ráðuneytið hafi frumkvæði að þróunar- og rannsóknastarfi á sviði barnaverndar. Engar rannsóknir eru til á sviði barnavernda og ekkert frumkvæði að rannsóknum t.d. um hvað valdi því að svo mörg börn hafi það jafnslæmt, vil ég segja, og við vitum að þau hafa. Við þykjumst vita það en þurfum að vita nákvæmlega hvað veldur því.