Vernd barna og ungmenna

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 17:34:00 (5237)


     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta er kannski ekki beinlínis andsvar við ræðu hv. þm., en vert er að benda á að í okkar litla landi er leiðin til samhjálpar kannski ekki sú að hringja í barnaverndarnefnd hvenær sem einhver grunur er uppi um að barni líði illa. Ég væri t.d. lítið stolt af því ef eitthvert barn sem héti vegalaust barn væri í minni götu. Ég held ég mundi sjá til þess að það væri ekki vegalaust, lægi a.m.k. ekki úti. Ég held við ættum líka

að leggja áherslu á að þegar við verðum og ef við verðum þess áskynja að eitthvað sé að barni í okkar nánasta umhverfi ættum við sem manneskjur að reyna að taka þar í taumana sjálf áður en við leitum til opinberra aðila. Við ættum að reyna að vinna slík mál með því hugarfari að öll börn í landinu séu okkar börn, ekki bara þessi fáu sem við höfum á okkar eigin heimilum, heldur að við séum manneskjur til þess að meta og virða öll börn þessa lands og gera það sem við getum í einkalífi okkar til þess að börnum í umhverfi okkar líði sæmilega. Mér finnst það svolítið óhugnanleg tilfinning ef barni líður illa og við vitum að ekki er séð um það á heimilinu að eina ráðið og fyrsta verkið sé að gera barnaverndaryfirvöldum viðvart. Mér finnst að við hljótum að geta gert eitthvað aðeins fyrr í okkar eigin garði.